Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifar:
Stjórnmálastétt Evrópu, hefur um árabil hamast við að loka orkuverum og stuðla að svonefndum orkuskiptum, til þess, að koma í veg fyrir hlýnun af mannavöldum. Afleiðingin er hærra orkuverð til neytenda og heljartak Rússa á orkusölu.
Vinur minn í Danmörku á twin bifreið segir orkuverðið svo hátt, að honum detti ekki í hug að keyra á rafmagni, það sé miklu dýrara en bensínið.
Nú eru verksmiðjur í Evrópu, að draga úr framleiðslu og fólk býr sig undir helkaldan vetur. Orkuverð er svo hátt, að fólk hefur ekki efni á að hita húsin sín.
Afleiðing af glórulausu ofstæki í orkumálum og hjátrú loftslagsbreytinga, verður til þess, að í vetur verður helkuldi víða á heimilum í Evrópu,af því að fólk hefur ekki efni á að hita upp. Framleiðsla dregst saman og örbirgð eykst vegna minni þjóðarframleiðslu.
Kaldhæðni örlaganna verður þá, að fjöldi þeirra sem deyr úr kulda í Evrópu margfaldast vegna tilrauna stjórnmálastéttarinnar til að koma í veg fyrir að fólk deyi úr hita.
Því miður virðist íslenska stjórnmálastéttin jafnlangt gengin í ruglandanum og sú evrópska og hefur skuldbundið þjóðina til að greiða milljarðatugi á næstu árum á grundvelli Parísarsamkomulagsins svonefnda, sennilega af því að fólki finnst vera allt of hlýtt á Íslandi.
Á sama tíma berst forustuflokkur ríkisstjórnarinnar Vinstri grænir gegn því að vistvæn vatnsafls orkuver verði reist í landinu en hyggst leysa vandann með því að drita niður vindmyllum um allar koppagrundir.
Væri ekki ráð að aftengja Vinstri græna frá forustu í íslenskri pólitík áður en þeir ná því marki að skapa sama ástand hér og ríkir nú í Evrópu.
2 Comments on “Örbirgð og kuldi”
Jú ég held bara að það væri ráð að aftengja Vinstri græna frá forustu í íslenskri pólitík áður en þeir ná því marki að skapa sama ástand hér og ríkir nú í Evrópu.
Að lesa stefnuskrá VG er eins og að lesa lélega hryllingssögu.
Hryllingurinn felst aðallega í að fylgjendur skuli trúa vitleysunni.