Var hótað kæru vegna „tilraunar til fjárkúgunar“ eftir ósætti við Íslensku klíníkina í Búdapest

frettinInnlendarLeave a Comment

Harpa Lúthersdóttir segir farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við tannlæknastofuna Íslenska klíníkin í Búdapest sem eru í eigu þriggja Íslendinga; Hjalta Garðarssonar, Hrafnhildar Sigurðardóttur og Hauks Hjaltasonar, sem keyptu stofuna vorið 2021 með tilheyrandi ábyrgðum og skyldum. 

Harpa fór fyrst út til Búdapest árið 2019. Hana vantaði krónur á jaxla en ákvað að láta laga brosið og lét þá verða af því að fá sér 14 krónur, þ.e.a.s krónur í allan efrigóm.

Í fyrstu var Harpa virkilega ánægð, bæði með tennurnar og stofuna, Sófíu tannlækni, hótelið og allt í sambandi við ferðina var fullkomið.

Fljótlega eftir að hún kemur aftur heim kemur í ljós mikið bil á milli krónu og rótar á tveimur framtönnum. Harpa leitar til  stofunnar og þeir senda hana á samstarfsstofu hér á Íslandi í skoðun. Sá tannlæknir tekur myndir til að senda út og tekur eftir því að allir jaxlarnir eru fastir saman, tveir og tveir, og nefnir hann við hana að þetta eigi alls ekki að gera nema í ýtrustu neyð ef ekkert annað kemur til greina.

Í framhaldinu er ákveðið að Harpa fari út á kostnað stofunnar og í samtalið við Fréttina, segist hún hafa verið mjög ánægð með þá þjónustu.

Önnur ferðin til Búdapest 2020

Þegar Harpa kemur út til Búdapest, þá ári eftir að krónurnar voru fyrst settar í, þá hittir hún yfirtannlækni klínikarinnar sem lætur óánægju sína strax í ljós,og fussar yfir því að Harpa skuli vera með þessa smámunasemi.

Það er tekin ákvörðun um að skipta öllu út. Harpa var sátt við þá ákvörðun í ljósi þess að samstarfsmaður þeirra á Íslandi mælti með þessu.

Í þessari heimsókn tekur Harpa eftir því að yfirtannlæknirinn leynir ekki óánægju sinni yfir því að þurfa að skipta þessu út og í rauninni „spænir upp allar krónurnar í fússi, tekur mót og nokkrum dögum seinna skellir þessu upp,“ segir Harpa.

Hún tók einnig eftir því að ýmsar aðferðir tengdar biti og fleira sem Sófía hafði gert í upphafi var ekki gert. Harpa fer heim, ánægð með tennurnar, þær voru fallegar, en hún tók eftir að það var ekki sama bitið og áður.

Sófía hafði nefnilega gert ráð fyrir skekkjunni sem Harpa hafði, tvær tennur voru alltaf fyrir aftan og hún færði þær í flútti við fremri tennurnar. Yfirtannlæknirinn gerði akkúrat öfugt, færði fremri tennurnar í flútti við aftari tennurnar.

Svo líður tíminn og skyndilega brotnar framtönnin úr Hörpu. Harpa segir að það hafi verið mikið áfall og afskaplega neyðarlegt. Hún fær tíma hjá samstarfstannlækninum hérlendis sem festir tönnina tímabundið.

Þriðja ferðin til Búdapest 2021

Harpa fer til Búdapest í þriðja sinn á vegum stofunnar. Henni er ítrekað tjáð að það hafi enginn sjúklingur komið jafn oft í ábyrgðarviðgerð eins og hún sem henni þótti furðulegt, því ekki var það hún sem stórnaði aðstæðum.

Aftur hittir hún yfirtannlækninn sem var afskaplega dónalegur og segir við hana að hann vildi óska þess að hún hefði aldrei komið þangað.

Harpa lætur ráðgjafa stofunnar vita af þessu og spyr hvort það sé ekki einhver annar sem geti gert við tönnina en það væri ekki hægt, yfirlæknirinn væri yfir stofunni og réði því hver tæki að sér verkið og hann vildi gera þetta sjálfur.

Harpa óskaði eftir því að einhver skil yrðu fyllt og pússuð en yfirlæknirinn vildi ekki gera neitt annað en að laga  þessa einu tönn. Brotna tönnin var því fest við þá næstu og Harpa send heim. Allt annað óbreytt, bitið eins.

Ekki líður að löngu þar til Harpa finnur að eitthvað er laust. Hún lætur vita af því að hún haldi að tönnin hafi aftur brotnað en hangi í raun í tönninni sem hún var fest við.

Hörpu er tjáð að hún sé í ábyrgð hjá Íslensku klínikinn til 5. júlí og að hún yrði því að vera komin aftur út fyrir þann tíma.

Harpa var búin að festa kaup á ferð til Búdapest 2. júlí sl.og átti pantaðan tíma á annarri stofu til að fá á nokkra jaxla í neðri góm og segir það vera lítið mál að koma við hinni stofunni.

Fjórða ferðin til Búdapest 2022

Harpa er komin til Búdapest í fjórða sinn og talar við Hjalta, eiganda stofunnar sem er staddur á flugvellinum til að taka á móti kúnnum og biður hann um að skila því til ráðgjafans að hún sé komin út og verði í sambandi fyrir tímann um leið og hún viti hver áætlunin hjá nýju stofunni sé.

Harpa biður Hjalta um að skoðunin á stofunni fari fram með opnum hug, án þess að áætla að þetta sé einhverskonar vanræksla af hennar hálfu þar sem henni fannst það vera það sem ráðgjafinn gæfi í skyn í seinasta samtali, þar sem enn og aftur væri verið að ítreka að Harpa væri jú sú sem oftast hefði komið í ábyrgðarviðgerð.

Hjalti segir við Hörpu að þessi yfirtannlæknir hafi verið rekinn sem var mikill léttir fyrir hana. Síðan líða nokkrir dagar eftir að Harpa er komin til Búdapest, með bókaðan tíma á stofunni þann 5. júlí þegar hún fær skyndilega skilaboð um að það hafi verið haldinn fundur vegna ágreinings Hörpu við tannlækni og af því að hún hafi farið á aðra stofu vegna annars konar viðgerðar, sé henni sagt úr ábyrgð.

Harpa segir að á þessum tímapunkti hafi hún orðið afar hissa, ábyrgðin væri í fyrsta lagi lögbundin fyrst hún væri gefin út og það er ekki hægt að hætta að ábyrgjast eitthvað bara af því það er fundað um málið, hvað þá vegna tannlæknis sem búið er að reka. Harpa segir þeim að ekki sé búið að hreyfa við neinu og verið sé að vinna í neðri gómi, sem hafi ekkert með þeirra viðgerðir að gera.

Í framhaldinu lætur hún stofuna vita að þetta verði ekki mál sem hún muni láta kyrrt liggja, þetta færi í fjölmiðla, og að hún væri mjög ósátt. Viðbrögðin voru þau að hún gæti gert það sem hún teldi að væri henni fyrir bestu.

Þar með var búin til facebooksíða með sama nafni og stofan, en fyrir slæmar reynslusögur. Stofan heldur sjálf uppi spjallsíðu þar sem eingöngu ánægðir viðskiptavinir fá að vera á, aðrir eru „blokkaðir“ og þeim hent út.

Hjalti vildi láta eyða síðunni

Ekki líður að löngu þar til Hjalti hefur samband við Hörpu og spyr hvað hann geti gert til að þessari síðu verði eytt. Harpa segir að hún væri sátt við að hann myndi greiða kostnaðinn vegna viðgerðarinnr, því í ljós hafi komið að undir krónunum sem yfirtannlæknirinn hafði sett upp í flýti þarna um árið höfðu verið miklar skemmdir og því þurfti að draga úr eina framtönn rótafylla 4 tennur og gera 6 tanna brú. Harpa þarf því að fara út í fimmta sinn og í það skipti eingöngu til að klára að laga fúskið eftir fyrrum yfirtannlækninn í Íslensku klíníkinni.

Reikningurinn ásamt áætluðum kostnaði á flugi og gistingu í október, væri því samtals 8000 evrur eða um það bil 1.170.000.

Harpa segir við Hjalta að hún geti sent honum alla pappíra um það sem hún væri búin að greiða og aðgerðaráætlun fyrir næstu ferð í október. Hann samþykkir að greiða þetta en biður um smá frest sem Harpa samþykkir.

Harpa er því ekkert að auglýsa facebooksíðuna þar sem hún eigi á von á griðslu, stutt skilaboð fara fram þarna í nokkur skipti, allt lítur út fyrir að Hjalti ætli að ganga í málið. Þegar líður að mánaðarmótum sendir Harpa skilaboð á Hjalta og spyr hvort greiðslan fari ekki að berast, hún þurfi jú að greiða háan kreditkortareikning eftir ferðina, tannlæknakostnaðurinn hafi orðið töluvert hærri en gert var ráð fyrir í upphafi.

Þá fær Harpa þau skilaboð að stofan hafi falið lögmanni sínum að kæra hana til lögreglu vegna tilraunar til fjárkúgunar. Harpa segir blaðamanni að aftur hafi hún orðið orðlaus. „Þeir ætla sem sagt að kæra mig fyrir fjárkúgun vegna peninga sem þeir buðu mér.“

„Auk þess þá er ekkert sem bannar fólki að semja um bætur, ekkert ólöglegt við það, það var heldur ekki ég sem bað upphaflega um þessar bætur, ég sagðist bara ætla að með þetta í fjölmiða,“ sagði Harpa.

Harpa tekur fram að engin kæra hafi borist þrátt fyrir að Hjalti hafi staðhæft það í hótunarpóstum sem hann hefur sent á fólk sem tjáði sig á síðunni hennar "Íslenska Klínikin í Búdapest - slæmar reynslusögur"

Skjáskot af samskiptum Hörpu og Íslensku klíníkarinnar, sem má sjá hér neðar, staðfesta að Harpa átti tíma í ábyrgðarskoðun innan marka ábyrgðar, ásamt uppsögn á ábyrgð. Að lokum staðfesting um að Hörpu hafi verið tjáð að lögmanni stofunnar hafi verið falið að kæra Hörpu vegna tilraunar til fjárkúgunar og staðfesting á að Íslenska klínikin tæki yfir ábyrgð stofunnar við kaupin árið 2021. Skilmála Íslensku klínikarinnar má sjá hér:

Svör Íslensku klínikarinnar

Fréttin hafði samband við tannlæknastofuna og svaraði Hjalti Garðarson því að „þetta sorglega mál væri í lagalegu ferli af þeirra hálfu og að því miður hafi Harpa aðeins birt þau samskipti sem henni hentar. Hún birtir ekki samskipti frá 27. apríl 2021 þar sem henni er tilkynnt um að ábyrgðin hennar sé fallin úr gildi vegna vanefnda hennar. Þar að auki hafi hún aldrei verið viðskiptavinur Íslensku Klíníkurinnar, sem var stofnuð 2021, heldur hjá norskri tannlæknastofu sem heitir Budapest Klinikken. Ég get hrakið hverja einustu fullyrðingu Hörpu og það verður gert fyrir dómi, ekki í fjölmiðlum, svarði Hjalti í tölvupósti.“

Viðbrögð Hörpu við svari Hjalta Garðarsonar voru:  „Ég veit ekki hvernig þeir ætla að tala sig út úr þessu eða rekja þetta allt fyrir dómi, þetta er allt í skilaboðum frá þeim. Þeir margviðurkenna ábyrgð og samþykkja að framtennurnar séu í ábyrgð alveg frá því hún brotnar fyrst. Ég er með staðfestingu fyrir þessu öllu og þann 27.apríl 2021 er hvergi minnst á að ég sé búin að missa ábyrgðina, það er meira að segja sagt að það verið framkvæmdar þær ábyrgðir sem búið er að samþykkja.“

Hluta af samskiptunum sem blaðamaður Fréttarinnar fékk að sjá má sjá hér; staðfestingu á ábyrgð þegar stofan var keypt, uppsögn þeirr á ábyrgðinni, tímabókun Hörpu í ársskoðun og tilkynning um að Harpa yrði kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar.

 

Skildu eftir skilaboð