Glæpaleiti: breytt fréttastefna Stefáns

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Ákærur verða gefnar út í RSK-sakamálinu á næstunni. Miðstöð glæpsins gegn Páli skipstjóra Steingrímssyni var á RÚV. Málsgögn, sem þegar eru kunn, staðfesta það. Tveir starfsmenn RÚV, annar fyrrverandi, eru meðal sakborninga. Þá er verktaki RÚV sakborningur.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur ekki gert grein fyrir aðkomu og ábyrgð RÚV. Á bakvið tjöldin er Stefán iðinn við kolann. Í sumar tók hann sér alræðisvald í siðamálum stofnunarinnar.

Í nýjustu fundargerðum stjórnar RÚV, sem birtust í fyrradag, kemur fram að Stefán hyggst breyta fréttastefnu ríkisfjölmiðilsins. Í fundargerð 25. maí segir í umræðu um minnisblað útvarpsstjóra í a-lið að áhersla í stefnumótun sé ,„fréttir og fréttatengd umfjöllun“. Í b-lið sömu umræðu eru nýjar siðareglur spyrtar við „fréttir og dagskrárefni þeim tengt.“

Ekki verður ráðið að umræða hafi orðið um minnisblað útvarpsstjóra. Seta í útvarpsráði er þægileg aukavinna flokksgæðinga. Ráðsmenn skilja siðvit og dómgreind eftir heima þegar farið er á fund útvarpsstjóra og spyrja ekki um innanhússmál á Glæpaleiti. Það væri eins og að nefna snöru í hengds manns húsi.

Stefán bar ábyrgð á starfsemi RÚV þegar aðförin að Páli skipstjóra var skipulögð og framkvæmd. Líklega ætlar Stefán að leika hlutverk Þóru þegar ákærur verða birtar og þykjast voða hissa.

Í beinu framhaldi mun Stefán boða breyttar áherslur RÚV og lofa bót og betrun. Þannig hyggst útvarpsstjóri freista þess að bjarga sjálfum sér og stofnuninni.

Mun herfræði útvarpsstjóra ganga upp? Ekki seinna en í október í fyrra vissi hann um aðild starfsmanna sinna að alvarlegum brotum á hegningarlögum. Fyrstu yfirheyrslur lögreglu voru 5. október. Tíu dögum síðar, þann 15. október, skipulagði RÚV hallærislegustu fjölmiðlagagnsókn sögunnar, með viðtali Gísla Marteins við Helga Seljan.

Erfitt er að sjá fyrir trúverðug svör við aðgerðaleysi yfirstjórnar RÚV í heilt ár. Stuðningsyfirlýsingar Stefáns við sakborninga verða rifjaðar upp. Í stað þess að taka til á stofnuninni sópaði hann óþægilegum staðreyndum undir teppið. Þessi orð Stefáns, sögð í janúar í ár, eldast illa:

Hvað Helga Seljan varðar sérstaklega þá er það sigur fyrir íslenska þjóð og blaðamennsku að þessi öflugi blaðamaður haldi áfram sínum störfum.

Þegar Stefán sagði þessi orð vissi hann vel að starfsmenn RÚV hefðu framið alvarleg afbrot. Útvarpsstjóri varð að láta Helga taka pokann sinn eftir harðan dóm siðanefndar RÚV. (Sem Stefán lagði niður í sumar). Í kveðjuskyni sigar útvarpsstjóri Helga á samfélagið með hvatningarorðum um að halda ferlinum áfram, bara ekki á Glæpaleiti. Það sé kappnóg að hafa Þóru á þeirri vakt. Hvers á þjóðin að gjalda?

Lipur tunga, lítilsiglt útvarpsráð og auðsveipir fjölmiðlar eru verkfæri Stefáns. Verkfærin bíta ekki á hrollvekjuna um skipulegt samsæri þar sem líkamsárás/manndrápstilraun með byrlun, gagnastuldur, stafrænt kynferðisofbeldi, friðhelgisbrot og misnotkun á andlega veikri kona eru rauður þráður.

Nokkuð seint er að breyta fréttastefnunni á Glæpaleiti til að hún rími við nýjar siðareglur útvarpsstjóra um „ábyrgð, heilindi og heiðarleika.“ Siðblind afbrot, s.s. byrlun, stuldur og stafrænt kynferðisofbeldi, eru illu heilli samofin ríkisfjölmiðlinum. Undir stjórn Stefáns Eiríkssonar.

Skildu eftir skilaboð