Eftir Geir Ágústsson:
Við á Norðurlöndunum sögðum að mestu bless við veiruhræðslu, grímur og glundur í upphafi þessa árs, yfirleitt í kringum febrúar og mars. Fólk hætti að mæta í sprautur, yfirvöld gáfust upp á hræðsluáróðrinum og veira fékk að gera það sem allar kórónuveirur gera: Smita og stökkbreytast í kvefpest.
En brjálæðið stendur enn víða yfir. Kína er þar fremst í flokki að grýta eigin höfn. Víða í Bandaríkjunum er fólki ennþá sagt að það sé hægt að sprauta sig til mannréttinda. Í Kanada leggja spekingar til að sprauta fólk á 90 daga fresti, og er geðveikin þó næg þar nú þegar.
Aðspurðir segja spekingar á Norðurlöndum - meira að segja þeir sem trommuðu hvað fastast í trommur hræðsluáróðurs - að þeir sjái nú ekki endilega fyrir sér takmarkanir í vetur. Það er jú búið að sprauta svo marga með glundrinu sem virkar ekki! Og nýja glundrið er á leiðinni, þetta sem mýsnar átta eiga að staðfesta að virki betur en ekkert gegn nýjustu afbrigðum.
Heldur þú að lyfjaframleiðendur leggist flatir á bakið og sjái á eftir mörgum tugum milljarða þegjandi og hljóðalaust? Það væri nýbreytni! Heldur þú að athyglissjúkir embættismenn, sem flestir vissu ekki að væru til fyrir tveimur árum, láti slökkva á sviðsljósinu án viðspyrnu? Heldur þú að græningjarnir, sem dreymir um orkuskort og mannfall, sleppi tækifærinu sem gagnslausar sóttvarnir veittu þeim og þeirra markmiðum? Heldur þú að stjórnmálamenn í leit að meiri völdum gefist bara upp og vilji allt í einu byrja að þjóna frekar en stjórna? Heldur þú að hrædda fólkið sem gleypir fréttir RÚV og systkinafjölmiðla sé búið að vakna og orðið ónæmt fyrir ótta?
Undanfarnar vikur er búið að lauma að okkur litlum fréttatilkynningum um uppfært glundur og álit spekinga um að það sé nú alls ekki víst að samfélagið verði sett í spennitreyju aftur. Smátt og smátt verður hitinn hækkaður undir þessum potti. Það tekur tíma að sjóða frosk, en það er búið að kveikja undir.