Eftir Arnar Þór Jónsson lögmann. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16.sept. 2022.
„Með þögninni kallar „lögfræðingasamfélagið“ yfir sig áfellisdóm og tortryggni, líkt og sá sem ber í bresti niðurníddrar byggingar.“
Hér er sönn saga. Ég kom einu sinni í niðurnítt hús, sem virtist hvorki halda vatni né vindum. Inni mætti ég eigandanum sem var upptekinn við „endurbætur“ með lítinn sparslspaða að vopni. Þetta rifjaðist upp þegar ég fékk senda auglýsingu um „Lagadaginn“ 23. september nk., „stærsta viðburð lögfræðingasamfélagsins 2022“. Samkvæmt útgefinni dagskrá stendur ekki til að ræða þar um mál málanna, þ.e. augljósa hnignun réttarríkisins í kórónuveirufárinu. Með þögninni kallar „lögfræðingasamfélagið“ yfir sig áfellisdóm og tortryggni, líkt og sá sem ber í bresti niðurníddrar byggingar með því að sparsla í sprungurnar.
Viðfangsefnið
Í útvarpsviðtali 12. september sl. sagði forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að „hræðsluáróðri“ hefði verið beitt til að magna upp ótta við kórónuveiruna (Covid-19) „til að ná til fólks“ og að það hefði „gengið ákaflega vel“.
Þessi ummæli staðfesta að yfirvöld hér á landi hafa beitt stjórnarfarslega ólögmætum aðferðum til að stýra hegðun borgaranna; með öðrum orðum inngripum og athöfnum sem hvorki eiga sér viðhlítandi lagastoð né byggjast á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum auk þess að falla á margþættum prófum meðalhófsreglu sem einnig hefur talist til mikilvægustu forsendna mannréttindaverndar.
Grundvallarreglur stjórnskipunarinnar og undirstöður lýðræðis og mannréttinda eins og lögmætisregla, hlutlægnis- og réttmætisregla, sem og meðalhófsreglur virðast hafa verið mölbrotnar á altari faraldursfræði og rörsýni sem hvorki á skylt við lýðræði né lögmætisforsendur. Hvert sem litið er má sjá hvernig stjórnvöld, með dyggri aðstoð meginstraumsfjölmiðla, hafa beitt áróðri og ritskoðun.
Skipulega hefur verið alið á ótta, vísindaleg rökræða bæld niður, pólitísk rökræða vængstýfð og heilbrigðar efasemdir úthrópaðar. Ríki sem hingað til hafa kennt sig við lýðræði og frjálslyndi hafa beitt lögregluvaldi til að berja niður lögmæt mótmæli. Í reynd má segja að frá árinu 2020 hafi átt sér stað raunverulegt lýðræðishrun á Vesturlöndum, sem ekki sér enn fyrir endann á.
Fjölmiðlar hafa útvarpað áróðri, ýkt hættuna af veirunni og kæft niður umfjöllun um sprautuskaða, í þeim tilgangi að afla stuðnings við sóttvarnaaðgerðir. Aðgerðir þessar grófu undan lýðræðislegu stjórnarfari með því að koma á fámennisstjórn þar sem hlýðni við valdhafa yfirtrompar sjálfræði einstaklingsins.
Samfélagsmiðlum hefur verið beitt gegn málfrelsinu með ritskoðun og hugtakið „falsfréttir“ notað um allt sem ekki samræmist viðurkenndum kennisetningum yfirvalda. Lýðræðinu hefur verið kippt úr sambandi með vísan til ýkts hættuástands. Þingræðið var gert óvirkt með vísan til sóttvarna. Borgaraleg réttindi og stjórnarskrárvarið frelsi hafa verið vanvirt í stórum stíl.
Ráðherrar hafa afhent allt of mikið vald til sérfræðinga á þröngu sviði. Dómstólar hafa ekki sinnt stjórnarskrármæltu aðhaldshlutverki og endurskoðunarvaldi með viðunandi hætti. Alþingi hefur í reynd verið gert áhrifalaust og hendur þess bundnar á sviðum sem verulegu máli skipta.
Stjórnar- og eftirlitsstofnanir ríkisins, sem ætlað er að verja almannahagsmuni, hafa snúist gegn almenningi og þeim gildum sem stjórnskipunin er grundvölluð á. Fjölmiðlar hafa í auknum mæli orðið háðir ríkisvaldinu um afkomu sína og gerst gagnrýnislausar málpípur stjórnvalda. Lyfjaiðnaðurinn hefur fengið að láta greipar sópa um almannafé í boði yfirvalda. Læknar og heilbrigðisyfirvöld hafa brugðist hlutverki sínu með því að einblína á sprautur, grímur og innilokun heilbrigðs, einkennalauss fólks í stað þess að mæla með sólarljósi, D-vítamíni, hollu mataræði og fyrirbyggjandi snemmmeðferðum.
Allt hefur þetta gerst án þess að nokkur gagnrýni hafi heyrst frá háskólamönnum og án nokkurrar sjáanlegrar viðleitni stjórnvalda til að framkvæma viðunandi kostnaðar- og ábatagreiningu. Aðgerðir yfirvalda hafa verið réttlættar með vísan til þess að við ættum að „fylgja vísindunum“.
Með því var vísindalegri sannleiksleit ranglega umbreytt í einhvers konar trúarsetningu. Gegn allri skynsemi var reynt að stjórna öllu á grundvelli einnar þröngrar greinar læknisfræðinnar, en láta allt annað lönd og leið. Ókjörnum embættismönnum, sem virðast meta eigin starfsframa meir en skyldur sínar við stjórnarskrána, hefur verið falið að grípa um valdataumana og þannig svipta kjörna fulltrúa völdum í krafti „sérfræðiþekkingar“.
Á bak við embættisvaldið og sérfræðingana standa skuggastjórnendur sem í krafti auðvalds og valdaásælni krefjast undirgefni og samræmdra aðgerða á alþjóðlegan og fordæmalausan mælikvarða. Bæði austan hafs og vestan eru sjáanleg dauðamörk á lýðræðinu. Óheillavænleg skautun (pólarísering) hefur orðið á stjórnmálasviðinu, þar sem vinstri- og hægrimenn skiptast á að væna hver annan um öfgar (fasisma / kommúnisma).
Stöndum upprétt
Ég skora á Íslendinga að varpa af sér ógn alræðis og taka ábyrgð á sinni eigin framtíð með því að verja þau gildi sem best hafa reynst. Það gerum við með því að hafna óttastjórnun, efast um kennivald, neita að fylgja útvöldum vísindamönnum í blindni, leggja sjálfstætt mat á tölur, leita upplýsinga sem víðast, láta ekki mata okkur hugsunarlaust, kalla valdhafa til ábyrgðar, krefjast þess að skattfé sé nýtt til að efla innviði og grunnstoðir samfélagsins og síðast en ekki síst standa vörð um málfrelsið og þar með kjarna alls frelsis. Auk þess að leggja megináherslu á að standa vörð um lýðræði og mannréttindi með því að virða grundvallarreglur um lögmæti allra opinberra inngripa, málefnaleg sjónarmið sem og meðalhóf í hvívetna.
Lokaorð
Vísindin miða að sannleiksleit. Því markmiði verður aldrei náð með ritskoðun, persónuníði eða með því að eyða út sjónarmiðum sem ganga gegn því sem almennt er viðurkennt hverju sinni. Stjórnmálin og vísindin verða að tala inn í samtíma sinn, þau mega aldrei frjósa föst í stífri hugmyndafræði eða óhagganlegum kreddum. Ef við vanvirðum þessi lögmál göngum við gegn öllu því sem reynsla fyrri kynslóða ætti að hafa kennt okkur. Okkur leyfist ekki að taka slíka áhættu. Framtíð barnanna okkar er í húfi.
Samruni ríkisvalds og stórfyrirtækja, sem nú þegar hefur sogað milljarða úr ríkissjóði, hefur vakið upp gráðugan óvætt og kallað stórkostlegan háska yfir lög okkar og rétt. Ritskoðun, áróður og valdstýring hefur náð því stigi að lýðræðislegt stjórnarfar og borgaralegt frelsi er í stórhættu. Til kollega minna í „lögfræðingasamfélaginu“ vil ég segja þetta: Það er betra að sjá sannleikann þótt hann sé svartur, en að lifa í blekkingu og þegja.
4 Comments on “Réttarríkið riðar á fótunum”
Geggjað hjá þér. Hvatti mig í dag að halda áfram að þora að standa með sjálfum mér og berjast fyrir frelsinu mínu og annarra.
Á Íslandi sem og víðar hefur orðið til Heilög Þrenning gjörspillingar á heilum stéttum sem halda utan um öll völd yfir almenningi í samfélaginu. Þessi völd eru í krafti trausts, virðingar og ótta. Traustið er alið af trú á heiðarleika, virðing í ljósi hlutleysis og ótta í krati valds yfir örlögum fólks ef á bjátar. Þessar stéttir eru læknastettin, lögfræðingar og fjölmiðlafólk. Allar þrjár spilltar af sameiginlegri þöggun til þess að styggja ekki mjólkurkúna sína sem mjólkar æ meir ef hún er ekki trufluð með óþarfa hávaða.
!. Læknastéttin nærist á sjúkdómavæðingu í boði lyfjafyrirtæka sem kæra sig kollótta um heilsu og velferð almennings. 2. Lógræðingarnir þrífast best í þjófélagi ógegnsæis og óskýrra laga og reglna sem kallar sífellt meir eftir þeirra þjónustu og hví að styggja umbjóðendur almenns heilsubrests sem dreift er í sprautum sem stærstur hluti almennings þiggur sjálfviljugur.
Aðhaldið sem þessar gríðarlega valdamiklu stéttir ættu að fá er svo ekki neitt því fjólmiðlastéttin spýr út áróðri sem matreiddur er af fólki í og nátengt þeim tveimur stéttum sem hér að undan voru nefndar til leiks.
3. Fjölmiðlastéttin er nú einungis handbendi þess fjármagns sem að þeim er rétt (með örfáum undantekningum útskúfaðra fjölmiðla með tilliti til ríkisstyrkja). Ríkisfjölmiðlarnir stýrast þó líklegast að mestu af pólitísku ofstæki sem hallar allt á bakborða.
Stjórnmálastéttin skiptir ekki lengu neinu máli heldur er samansafn fólks sem er upptekið að elta kolefnismólíkúl svífandi í andrúmsloftinu og rekur ríkissjóð með hundrað milljarða halla eins og enginn sé morgundagurinn enda strengjabrúður þeirra sem þessir spilltu vanvitar hafa afhent öll völd.
Það kemur því ekki á óvart að lögmannafélagið ákveði að ræða ekki á þingi sínu mál sem gætu valdið því að mjólkurkúin þeirra hrökkvi kút svo nytin skerðist.
Höfundur þessarar greinar er þó undantekning hér á og á það skilið alla þá vifðingu heiðarlegum lögmanni ber. Það er ljós í myrkri að það er til heiðarlegt og.hugrakkt fólk í öllum þremur stéttum sem hefur barist hetjulegri baráttu, lagt heiður og framfærsluöryggi að veði og synt gegn straumi spillingar og alræðistilburða í boði hinnar Heilögu Þrenningar spillingar á Íslandi.
Kærar þakkir Arnar fyrir góðan pistil og að standa vaktina um rétt okkar.
Það er fyrir þá fáu góðu einstaklinga eins og Arnar að ég hef enn trú á framtíð Íslands og að með tímanum mun fólk virkilega sjá þetta valdsjúka siðspillta fólki bæði opinbera og það sem leynist bakvið tjöldin hér og annarstaðar í heiminum..