Réttarríkið riðar á fótunum

frettinPistlar4 Comments

Eftir Arn­ar Þór Jóns­son lögmann. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16.sept. 2022.

„Með þögn­inni kall­ar „lög­fræðinga­sam­fé­lagið“ yfir sig áfell­is­dóm og tor­tryggni, líkt og sá sem ber í bresti niður­níddr­ar bygg­ing­ar.“

Hér er sönn saga. Ég kom einu sinni í niður­nítt hús, sem virt­ist hvorki halda vatni né vind­um. Inni mætti ég eig­and­an­um sem var upp­tek­inn við „end­ur­bæt­ur“ með lít­inn sparsl­spaða að vopni. Þetta rifjaðist upp þegar ég fékk senda aug­lýs­ingu um „Laga­dag­inn“ 23. sept­em­ber nk., „stærsta viðburð lög­fræðinga­sam­fé­lags­ins 2022“. Sam­kvæmt út­gef­inni dag­skrá stend­ur ekki til að ræða þar um mál mál­anna, þ.e. aug­ljósa hnign­un rétt­ar­rík­is­ins í kór­ónu­veiruf­ár­inu. Með þögn­inni kall­ar „lög­fræðinga­sam­fé­lagið“ yfir sig áfell­is­dóm og tor­tryggni, líkt og sá sem ber í bresti niður­níddr­ar bygg­ing­ar með því að sparsla í sprung­urn­ar.

Viðfangs­efnið

Í út­varps­viðtali 12. sept­em­ber sl. sagði for­stjóri Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins að „hræðslu­áróðri“ hefði verið beitt til að magna upp ótta við kór­ónu­veiruna (Covid-19) „til að ná til fólks“ og að það hefði „gengið ákaf­lega vel“.

Þessi um­mæli staðfesta að yf­ir­völd hér á landi hafa beitt stjórn­ar­fars­lega ólög­mæt­um aðferðum til að stýra hegðun borg­ar­anna; með öðrum orðum inn­grip­um og at­höfn­um sem hvorki eiga sér viðhlít­andi laga­stoð né byggj­ast á hlut­læg­um og mál­efna­leg­um sjón­ar­miðum auk þess að falla á margþætt­um próf­um meðal­hófs­reglu sem einnig hef­ur tal­ist til mik­il­væg­ustu for­sendna mann­rétt­inda­vernd­ar.

Grund­vall­ar­regl­ur stjórn­skip­un­ar­inn­ar og und­ir­stöður lýðræðis og mann­rétt­inda eins og lög­mæt­is­regla, hlut­lægn­is- og rétt­mæt­is­regla, sem og meðal­hófs­regl­ur virðast hafa verið möl­brotn­ar á alt­ari far­ald­urs­fræði og rör­sýni sem hvorki á skylt við lýðræði né lög­mæt­is­for­send­ur. Hvert sem litið er má sjá hvernig stjórn­völd, með dyggri aðstoð meg­in­straums­fjöl­miðla, hafa beitt áróðri og rit­skoðun.

Skipu­lega hef­ur verið alið á ótta, vís­inda­leg rök­ræða bæld niður, póli­tísk rök­ræða væng­stýfð og heil­brigðar efa­semd­ir út­hrópaðar. Ríki sem hingað til hafa kennt sig við lýðræði og frjáls­lyndi hafa beitt lög­reglu­valdi til að berja niður lög­mæt mót­mæli. Í reynd má segja að frá ár­inu 2020 hafi átt sér stað raun­veru­legt lýðræðis­hrun á Vest­ur­lönd­um, sem ekki sér enn fyr­ir end­ann á.

Fjöl­miðlar hafa út­varpað áróðri, ýkt hætt­una af veirunni og kæft niður um­fjöll­un um sprautuskaða, í þeim til­gangi að afla stuðnings við sótt­varnaaðgerðir. Aðgerðir þess­ar grófu und­an lýðræðis­legu stjórn­ar­fari með því að koma á fá­menn­is­stjórn þar sem hlýðni við vald­hafa yf­ir­tromp­ar sjálfræði ein­stak­lings­ins.

Sam­fé­lags­miðlum hef­ur verið beitt gegn mál­frels­inu með rit­skoðun og hug­takið „fals­frétt­ir“ notað um allt sem ekki sam­ræm­ist viður­kennd­um kenni­setn­ing­um yf­ir­valda. Lýðræðinu hef­ur verið kippt úr sam­bandi með vís­an til ýkts hættu­ástands. Þing­ræðið var gert óvirkt með vís­an til sótt­varna. Borg­ara­leg rétt­indi og stjórn­ar­skrár­varið frelsi hafa verið van­virt í stór­um stíl.

Ráðherr­ar hafa af­hent allt of mikið vald til sér­fræðinga á þröngu sviði. Dóm­stól­ar hafa ekki sinnt stjórn­ar­skrár­mæltu aðhalds­hlut­verki og end­ur­skoðun­ar­valdi með viðun­andi hætti. Alþingi hef­ur í reynd verið gert áhrifa­laust og hend­ur þess bundn­ar á sviðum sem veru­legu máli skipta.

Stjórn­ar- og eft­ir­lits­stofn­an­ir rík­is­ins, sem ætlað er að verja al­manna­hags­muni, hafa snú­ist gegn al­menn­ingi og þeim gild­um sem stjórn­skip­un­in er grund­völluð á. Fjöl­miðlar hafa í aukn­um mæli orðið háðir rík­is­vald­inu um af­komu sína og gerst gagn­rýn­is­laus­ar mál­píp­ur stjórn­valda. Lyfjaiðnaður­inn hef­ur fengið að láta greip­ar sópa um al­manna­fé í boði yf­ir­valda. Lækn­ar og heil­brigðis­yf­ir­völd hafa brugðist hlut­verki sínu með því að ein­blína á spraut­ur, grím­ur og inni­lok­un heil­brigðs, ein­kenna­lauss fólks í stað þess að mæla með sól­ar­ljósi, D-víta­míni, hollu mataræði og fyr­ir­byggj­andi snemmmeðferðum.

Allt hef­ur þetta gerst án þess að nokk­ur gagn­rýni hafi heyrst frá há­skóla­mönn­um og án nokk­urr­ar sjá­an­legr­ar viðleitni stjórn­valda til að fram­kvæma viðun­andi kostnaðar- og ábata­grein­ingu. Aðgerðir yf­ir­valda hafa verið rétt­lætt­ar með vís­an til þess að við ætt­um að „fylgja vís­ind­un­um“.

Með því var vís­inda­legri sann­leiks­leit rang­lega umbreytt í ein­hvers kon­ar trú­ar­setn­ingu. Gegn allri skyn­semi var reynt að stjórna öllu á grund­velli einn­ar þröngr­ar grein­ar lækn­is­fræðinn­ar, en láta allt annað lönd og leið. Ókjörn­um emb­ætt­is­mönn­um, sem virðast meta eig­in starfs­frama meir en skyld­ur sín­ar við stjórn­ar­skrána, hef­ur verið falið að grípa um valdataum­ana og þannig svipta kjörna full­trúa völd­um í krafti „sér­fræðiþekk­ing­ar“.

Á bak við embættis­valdið og sér­fræðing­ana standa skugga­stjórn­end­ur sem í krafti auðvalds og valda­á­sælni krefjast und­ir­gefni og sam­ræmdra aðgerða á alþjóðleg­an og for­dæma­laus­an mæli­kv­arða. Bæði aust­an hafs og vest­an eru sjá­an­leg dauðamörk á lýðræðinu. Óheilla­væn­leg skaut­un (póla­ríser­ing) hef­ur orðið á stjórn­mála­sviðinu, þar sem vinstri- og hægri­menn skipt­ast á að væna hver ann­an um öfg­ar (fas­isma / komm­ún­isma).

Stönd­um upp­rétt

Ég skora á Íslend­inga að varpa af sér ógn alræðis og taka ábyrgð á sinni eig­in framtíð með því að verja þau gildi sem best hafa reynst. Það ger­um við með því að hafna ótta­stjórn­un, ef­ast um kenni­vald, neita að fylgja út­völd­um vís­inda­mönn­um í blindni, leggja sjálf­stætt mat á töl­ur, leita upp­lýs­inga sem víðast, láta ekki mata okk­ur hugs­un­ar­laust, kalla vald­hafa til ábyrgðar, krefjast þess að skatt­fé sé nýtt til að efla innviði og grunnstoðir sam­fé­lags­ins og síðast en ekki síst standa vörð um mál­frelsið og þar með kjarna alls frels­is. Auk þess að leggja megin­á­herslu á að standa vörð um lýðræði og mann­rétt­indi með því að virða grund­vall­ar­regl­ur um lög­mæti allra op­in­berra inn­gripa, mál­efna­leg sjón­ar­mið sem og meðal­hóf í hví­vetna.

Loka­orð

Vís­ind­in miða að sann­leiks­leit. Því mark­miði verður aldrei náð með rit­skoðun, per­són­uníði eða með því að eyða út sjón­ar­miðum sem ganga gegn því sem al­mennt er viður­kennt hverju sinni. Stjórn­mál­in og vís­ind­in verða að tala inn í sam­tíma sinn, þau mega aldrei frjó­sa föst í stífri hug­mynda­fræði eða óhagg­an­leg­um kredd­um. Ef við van­v­irðum þessi lög­mál göng­um við gegn öllu því sem reynsla fyrri kyn­slóða ætti að hafa kennt okk­ur. Okk­ur leyf­ist ekki að taka slíka áhættu. Framtíð barn­anna okk­ar er í húfi.

Samruni rík­is­valds og stór­fyr­ir­tækja, sem nú þegar hef­ur sogað millj­arða úr rík­is­sjóði, hef­ur vakið upp gráðugan óvætt og kallað stór­kost­leg­an háska yfir lög okk­ar og rétt. Rit­skoðun, áróður og vald­stýr­ing hef­ur náð því stigi að lýðræðis­legt stjórn­ar­far og borg­ara­legt frelsi er í stór­hættu. Til koll­ega minna í „lög­fræðinga­sam­fé­lag­inu“ vil ég segja þetta: Það er betra að sjá sann­leik­ann þótt hann sé svart­ur, en að lifa í blekk­ingu og þegja.

4 Comments on “Réttarríkið riðar á fótunum”

  1. Á Íslandi sem og víðar hefur orðið til Heilög Þrenning gjörspillingar á heilum stéttum sem halda utan um öll völd yfir almenningi í samfélaginu. Þessi völd eru í krafti trausts, virðingar og ótta. Traustið er alið af trú á heiðarleika, virðing í ljósi hlutleysis og ótta í krati valds yfir örlögum fólks ef á bjátar. Þessar stéttir eru læknastettin, lögfræðingar og fjölmiðlafólk. Allar þrjár spilltar af sameiginlegri þöggun til þess að styggja ekki mjólkurkúna sína sem mjólkar æ meir ef hún er ekki trufluð með óþarfa hávaða.
    !. Læknastéttin nærist á sjúkdómavæðingu í boði lyfjafyrirtæka sem kæra sig kollótta um heilsu og velferð almennings. 2. Lógræðingarnir þrífast best í þjófélagi ógegnsæis og óskýrra laga og reglna sem kallar sífellt meir eftir þeirra þjónustu og hví að styggja umbjóðendur almenns heilsubrests sem dreift er í sprautum sem stærstur hluti almennings þiggur sjálfviljugur.
    Aðhaldið sem þessar gríðarlega valdamiklu stéttir ættu að fá er svo ekki neitt því fjólmiðlastéttin spýr út áróðri sem matreiddur er af fólki í og nátengt þeim tveimur stéttum sem hér að undan voru nefndar til leiks.
    3. Fjölmiðlastéttin er nú einungis handbendi þess fjármagns sem að þeim er rétt (með örfáum undantekningum útskúfaðra fjölmiðla með tilliti til ríkisstyrkja). Ríkisfjölmiðlarnir stýrast þó líklegast að mestu af pólitísku ofstæki sem hallar allt á bakborða.
    Stjórnmálastéttin skiptir ekki lengu neinu máli heldur er samansafn fólks sem er upptekið að elta kolefnismólíkúl svífandi í andrúmsloftinu og rekur ríkissjóð með hundrað milljarða halla eins og enginn sé morgundagurinn enda strengjabrúður þeirra sem þessir spilltu vanvitar hafa afhent öll völd.

    Það kemur því ekki á óvart að lögmannafélagið ákveði að ræða ekki á þingi sínu mál sem gætu valdið því að mjólkurkúin þeirra hrökkvi kút svo nytin skerðist.

    Höfundur þessarar greinar er þó undantekning hér á og á það skilið alla þá vifðingu heiðarlegum lögmanni ber. Það er ljós í myrkri að það er til heiðarlegt og.hugrakkt fólk í öllum þremur stéttum sem hefur barist hetjulegri baráttu, lagt heiður og framfærsluöryggi að veði og synt gegn straumi spillingar og alræðistilburða í boði hinnar Heilögu Þrenningar spillingar á Íslandi.

  2. Kærar þakkir Arnar fyrir góðan pistil og að standa vaktina um rétt okkar.

  3. Það er fyrir þá fáu góðu einstaklinga eins og Arnar að ég hef enn trú á framtíð Íslands og að með tímanum mun fólk virkilega sjá þetta valdsjúka siðspillta fólki bæði opinbera og það sem leynist bakvið tjöldin hér og annarstaðar í heiminum..

Skildu eftir skilaboð