Snorri Óskarsson skrifar:
Fyrir 10 árum greip ,„rétttrúnaðargrýlan“ bæjarstjórn Akureyrar kverkataki. Ég var látinn finna fyrir „mínu afturhaldi og hatursorðræðu“. Mér var vísað úr skóla fyrir þá sök að kalla samkynhneigðina synd og að,,laun syndarinnar væru dauði.“ Meira þurfti ekki þá. Leiðin var lögð til dómsstóla landsins því þöggunartilburðirnir áttu lagalegan rétt til kúgunar.
Enn í dag glímir bæjarstjórn Akureyrar við vandræða orðræðu sem er sögð hafa komið frá fulltrúa Flokks Fólksins. Hann á sæti í Bæjarstjórninni.
Eftir áratuga baráttu bæjaryfirvalda gegn málfari og tjáningarfrelsi starfsmanna bæjarins er bardaginn kominn til fulltrúanna sjálfra.
Hvernig þeir taka á málum í dag og hvaða „hausar verða látnir fjúka“ núna verður forvitnilegt að sjá því alltaf er tjáningarfrelsið „vígvöllurinn“!
Það hefur ekki endilega verið flokkað sem hatursorðræða þó læknir gefur út sjúkdómsgreiningu. En konurnar í Flokki Fólksins eru kannski reiðar af því að þær voru ekki að leita sér lækninga á geðsviðinu. Ekki voru þær að biðja um sagnfræðilegar tengingar við flokksstarfið og ekki var óskað eftir áliti Hjörleifs fyrrum kaupmanns á þeim. Svo allur Flokkur fólksins um land allt er í uppnámi. Hvað má ekki segja, verður næsta mál á dagskrá!
Nú reis upp annað mál upp í prestastétt þar sem konur afsögðu formann prestafélagsins vegna útvarpsviðtals á Sögu. Konur hafa greinilega verið að hasla sér völl bæði í pólitík og prestskap. Nú skulu bændur láta af karlmennskunni og „feðraveldið“ skal lúta rétttrúnaði samtímans.
Það sem byrjaði sem mál til varnar samkynhneygðum fyrir áratug er farið að skekja grundvöll karlmennskunnar hjá fólki og prestum.
Íþróttahreyfingin hefur einnig gengið í gegnum hreinsunareld í samskiptum kynjanna svo þjóðin ætti að vera orðin nokkuð fær að taka rétt á málum þó svo að karlar tjái sig með öðrum hætti en konur gera.
Auðvitað er dólgsháttur ekki tilhlýðilegur. Auðvitað þurfa menn að gæta tungu sinnar en það á líka við um konur hvort sem þær eru í sama flokki eða í prestastétt. Það er bara mjög aðkallandi að fulltrúar á opinberum vettvangi varðveiti mannréttindin til „tjáningarfrelsisins“!
Hvar lendir stjórnmálaflokkur sem vegur að eigin fulltrúum vegna tjáninga? Hvar endar „presturinn" sem missir tjáningarfrelsið? Ég fæ ekki betur séð en að sú vegferð sem Akureyrarbær hóf á að svipta mig tjáningarfrelsinu er nú farin að brjóta allt og bramla í ranni bæjarstjórnar.
Má ekki fara fram á það að fólk hækki þröskulda sína og auki þol sitt við óþægilegum orðum? Sumt er sagt án þess að illska liggi undir annað er sagt sem betur hefði verið sleppt en lækningin fyrir hvorttveggja er fyrirgefningin. Bæði prestar, sagnfræðingar og geðlæknar eiga að kunna á þetta tæki. Meistarinn sagði: „Faðir, fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera“!
Orð í tíma töluð sérstaklega fyrir fólkið!