Rendlesham er þorp nálægt bænum Woodbrigde í Suffolk í Englandi. Í þorpinu er að finna lítið 80 manna samfélag, Maharishi Garden Village, þar sem aðeins iðkendur innhverfrar íhugunar (e. transcendental meditation) búa.
Þar stendur einnig Friðarhöllin, sem kennd er við Maharishi Mahesh Yogi, uppfinningamann innhverfrar íhugunar. Í Friðarhöllina kemur fjöldi manns ár hvert til að iðka Innhverfa íhugun, sækja fyrirlestra og fara í svonefnt hlédrag (e. retreat).
Hjónin Dorry og Nigel Kahn eru meðal íbúa Maharisi Garden Village samfélagsins og hafa iðkað innhverfa íhugun í 50 ár ásamt því að kenna öðrum tæknina.
Blaðamaður Fréttarinnar átti leið um þorpið og hitti þessi glaðlegu hjón og spurði út í Innhverfa íhugun.
Í stuttu máli, hvað er Innhverf íhugun?
„Innhverf íhugun er tækni sem kyrrir hugann, þar sem hugurinn fer að lokum út fyrir svið hugsana. Aðferðina er mjög auðvelt að læra, hún er þægileg og náttúruleg. Iðkandinn situr í stól, með lokuð augu, tvisvar á dag í 15-20 mínútur í senn. Tæknin er áreynslulaus og allir geta lært hana. Hugurinn fær að flæða sem er mjög ánægjuleg upplifun, því í eðli sínu leitar hugurinn eftir hamingju og fyllingu sem hann finnur í kyrru hugarástandi, ofar öllum hugsunum.
Hvers vegna kemur fólk til að læra Innhverfa íhugun?
„Fólk lærir af ýmsum ástæðum, en allt á það sameiginlegt að vilja auðga líf sitt. Til dæmis vilja sumir draga úr streitu eða hefur heyrt frá öðrum að ástundunin geri þeim gott. Flestir vilja minnka álagið sem þeir finna fyrir dags daglega eða bæta samskipti og sambönd, heima fyrir eða á vinnustað. Sumir eru að sækjast eftir uppljómun, án þess kannski að vita nákvæmlega hvað það þýðir, eða einhverskonar andlegri fyllingu. Aðrir vilja nýta tæknina til að komast lengra í lífinu og uppfylla langanir sínar.“
„Öll viljum við eitthvað meira: hamingju, heilbrigði, velmegun, ást, þekkingu...löngunin til að vilja meira og meira er náttúrlegt fyrirbæri. Innhverf íhugun auðveldar þennan vöxt eða þetta ferli.“
Hvaða breytingum tekur fólk fyrst eftir að það lærir tæknina?
„Nánast allir verða fyrir jákvæðum áhrifum sem þeir áttu ekki beint von á, breytingin getur verið mjög „lúmsk.“ Til dæmis finnur fólk fyrir minni þreytu, andrúmsloftið á heimilinu eða vinnustað verður betra, fólk er frískara, það sefur betur, minnið er betra, það hefur meiri þolinmæði...lífið verður aðeins auðveldara,“ útskýrðu hjónin.
„Einhverjir koma kannski til að læra í von um að blóðþrýstingurinn lækki en síðan taka þeir kannski eftir annars konar breytingum (hvort sem blóðþrýstingurinn hafi lækkað eða ekki),“ bættu þau við.
Hafa vísindin sýnt fram á gagn eða jákvæð áhrif Innhverfrar íhugunar?
„Já, til dæmis skoðuðu bandarísku hjartasamtökin u.þ.b. 10 mismunandi hugleiðsluaðferðir og komust að því að Innhverf íhugun væri sú eina sem þeir gætu mælt með til að lækka blóðþrýsting, vegna þeirra fjölda rannsókna sem hafa verið gerðar.“
„Það eru til um 700 rannsóknir á Innhverfri íhugun, u.þ.b. helmingur þeirra eru ritrýndar sem sýna jákvæð áhrif á heilastarfsemi iðkenda. Í stuttu máli verður meira samræmi í heilastarfseminni sem leiðir til þess að manneskjan verður sáttari við sjálfa sig og umhverfið.“ Hér má sjá nánar um rannsóknir.
„Rannsóknir hafa einnig sýnt að glæpatíðni hefur lækkað á þeim stöðum þar sem ákveðinn fjöldi fólks (a.m.k. 1% af heildarfjölda íbúa) iðkar Innhverfa íhugun og jafnvel minna hlutfall ef um er að ræða lengra komna, svokallaða TM-Sidhis.“
Eru dæmi um íþróttafólk sem stundar þessa tækni?
„Já, við vitum a.m.k. um þessa fyrrverandi eða núverandi íþróttamenn:“
Arthur Ashe (tennis)
Buddy Biancalana (hafnabolti)
Brock Bond (hafnabolti)
Larry Bowa (hafnabolti)
Tom Brady (amerískur fótbolti)
Pete Broberg (hafnabolti)
Mark Bunn (amerískur fótbolti)
Giles Gratton (hokkí)
Jerry Grote (hafnabolti)
Justin Langer (krikket)
Jim Longborg (hafnabolti)
Joe Maddon (hafnabolti)
Pete Maravich (körfubolti)
Jim Marshall (amerískur fótbolti)
Brent Mayne (hafnabolti)
Willie McCovey (hafnabolti)
Joe Namath (amerískur fótbolti)
Martina Navratilova (tennis)
Bill Robinson (hafnabolti)
Jonathan Rowson (skák)
Arnold Schwarzenegger (vaxtarækt)
Willie Stargell (hafnabolti)
Del Unser (hafnabolti)
Bill Walton (hafnabolti)
Shane Watson (krikket)
Barry Zito (hafnabolti)
Að lokum, hvernig er aðferðin kennd?
„Þetta er fjögurra daga námskeið. Áður en það hefst er kynningarfyrirlestur. Á fyrsta degi, sem er alltaf einkatími, útskýrir kennarinn hvernig eigi að hugleiða. Hina þrjá dagana fá nemendur nánari leiðbeiningar og skilning á því hvernig eigi að hugleiða áreynslulaust. Síðan, um viku síðar, er eftirfylgni,“ sögðu þau Dorry og Nigel Kahn að lokum.
Meira um Innhverfa í íhugun má lesa hér.