Nýtt tungl – ný markmið

frettinGuðrún Bergmann, StjörnuspekiLeave a Comment

Guðrún Bergmann skrifar:

Jafndægur á hausti verða þann 23. september, en Jafndægur marka upphaf að nýjum hluta af árinu okkar svo það er margt á upphafsreit. Ýmislegt bendir til þess að næstu þrír mánuðir verði umbyltingasamir, þótt við séum að stíga inn í Vogina sem vill jafnvægi.

Einungis tveimur dögum eftir Jafndægrin kveiknar nýtt Tungl í Vog, en Vogin hjálpar okkur að stuðla að jafnvægi í lífi okkar. Hún hvetur okkur til að vega og meta hlutina áður en við veljum, sama hvað það er, því Vogin vill leggja áherslu á sanngirni og réttlæti.

Hvort sem við náum að halda jafnvægi eða ekki, er frábært að setja sér markmið á nýju Tungli. Með því erum við að sá fræjum þess sem við viljum að verði að veruleika í lífi okkar. Vaxtaferli nýrra hluta tekur yfirleitt um sex mánuði, þannig að við ættum að sjá drauma okkar verða að veruleika þegar Tunglið verður næst fullt í Vog, þann 6. apríl 2023.

PLÁNETUR Á FERÐ AFTUR Á BAK

Þann 9. september breytti Merkúr um stefnu og er nú á ferð aftur á bak um sporbaug sinn. Hann er ekki eina plánetan á þessu ferðalagi, því pláneturnar Júpiter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus og Plútó eru allar á ferð aftur á bak.

Þegar pláneturnar eru á ferð aftur á bak um sporbaug sinn, er það táknrænt fyrir endurmat og endurskoðun á hlutunum. Mat á því sem við höfum gengið í gegnum síðustu mánuði og ár og mat á því hvort við höfum valið rétt. Margt snýst því um val okkar nú í september þegar okkur gefst tækifæri til að leggja hlutina á Vogarskálarnar.

Þegar plánetur eru á ferð aftur á bak um sporbaug sinn eru þær nær Jörðinni en þegar þær fara fram á við. Við það verður táknmynd þeirra mikilvægari. Þegar Merkúr er í slíku ferli má nánast líkja þörf hans fyrir að komast til botns í málum sem hulin hafa verið við þráhyggju.

NÝJA TUNGLIÐ

Kort fyrir nýtt Tungl 25.09.22 miðað við Reykjavík.

Nýja Tunglið kveiknar kl. 21:54 þann 25. september á 3° í Vog hér á landi. Eitt af því sem er mikilvægt á þessu nýja Tungli er að Merkúr er á 27° í Meyju, í nokkuð nákvæmri 120° samhljóma afstöðu við Plútó sem er á 26° í Steingeit. Þetta er enn eitt merkið um að það þurfi að grafa virkilega djúpt til að komast til botns í málunum og að ná upp sannleikanum.

Annað sem er mikilvægt í þessu korti er að Mars er á 18° í Tvíbura og kemur til með að vera þar næstu sjö mánuði. Mars magnar upp orkuna alls staðar þar sem hann er og Tvíburinn er mjög tengdur huganum, samskiptum, samfélagsmiðlum, orðum og orðasamskiptum.

Hann hjálpar því mikið til við að örva huga okkar og getur verið mikil innspýting fyrir sköpunarkraft okkar, einkum vegna þess að hér er um T-spennuafstöðu að ræða, því Mars á 18° er í víðri 90° spennuafstöðu við Neptúnus á 24° í Fiskum, auk þess sem hann er í spennuafstöðu við Venus og Merkúr.

Afstaðan við Merkúr á 28° í Meyju er kannski aðeins of víð, en ekki eins víð við Venus sem er á 25° og 27 mínútum í Meyju. Þessi afstaða getur aukið ímyndunarafl okkar og mat á fegurð og fallegum hlutum, svo og öllum smáatriðum í tengslum við fegurð.

MARS Í TVÍBURA FYLGIR HVATVÍSI

Mars í Tvíbura getur verið mjög hvatvís. Sú hvatvísi er nokkuð áberandi á samfélagsmiðlunum, þar sem fólk stekkur til og skrifar athugasemdir við pósta, sem það virðist ekki hafa lesið eða skilið almennilega. Á næstunni gæti því verið gott að hefja sig upp fyrir þrasið á samfélagsmiðlunum, því það er líklegt til að þjóna öllum betur sem að málum koma að stíga bara til baka og láta hlutina líða hjá.

ÞVERSAGNARKENNDAR UPPLÝSINGAR

Við komum ekki bara til með að fá mikið af upplýsingum heldur ruglandi upplýsingum. Það tengist ekki bara því að Neptúnus er í 90° spennuafstöðu við Mars og að Neptúnusi fylgir oft þoka, svo erfitt er að greina hvað sé rétt og hvað ekki – heldur líka því að Merkúr er í 180° spennuafstöðu við Neptúnus, sem er frábært fyrir ímyndunarflið og sköpunina, en ekki svo gott þegar kemur að skýrleika hugans.

Þess vegna er mjög mikilvægt að nota dómgreind sína vel til að fara huglægt í gegnum þær upplýsingar sem fram koma og vega þær og meta. Svo er gott að leita til hjartans, því hjartað er hinn raunverulegi leiðsögumaður í gegnum þetta allt. Því getur á næstunni verið gott fyrir okkur að koma okkur sem oftast út úr heilanum og yfir í hjartað, slökkva á fréttunum og öðru utanaðkomandi áreiti, og halda okkur bara í kærleiksorkunni.

Í tengslum við kærleiksorkuna vil ég minnast á að væntanleg bók  mín LEIÐ HJARTANS fer í forsölu föstudaginn 23. september, en í henni fjalla ég mikið um kærleiksorkuna og mikilvægi hennar í þeim umbreytingum sem framundan eru hér á Jörðinni.

Skildu eftir skilaboð