Eftir Pál Vilhjálmsson blaðamann og kennara:
Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þórður Snær á Kjarnanum birtu greinar (hér og hér) í gær um RSK-sakamálið þar sem báðir eru sakborningar og bíða ákæru. Alli og Doddi eru eins og Síamstvíburar, birta sama efnið á sama tíma. Fréttir þeirra um meinta skæruliðadeild Samherja birtust báðar 21. maí í fyrra. Daginn áður hringdu þeir á sama tíma í Pál skipstjóra. Allt var þetta samkvæmt skipulagi RÚV.
Aðalsteinn fékk Kastljósþátt i gær til að viðra meint sakleysi. RSK-miðlar standa saman.
í grein sinni útskýrir Aðalsteinn ekki hvernig á því stendur að hann hætti skyndilega á RÚV og söðlaði yfir á Stundina 3 dögum áður en Páli skipstjóra var byrlað og síma hans stolið. Þórður Snær áttar sig á mikilvæginu og fer þá leið að neita því að skipstjórinn hafi orðið fyrir byrlun. Fullfrískur Páll missti meðvitund og fór í öndunarvél „af því bara“ í hugarheimi ritstjóra Kjarnans. Alltaf með veruleikann á hreinu hann Doddi blaðamaður. Í nóvember skrifaði hann að lögreglurannsókn á glæpnum gegn Páli skipstjóra væri hugarsmíð nafna hans, tilfallandi bloggara.
Stórfrétt gærdagsins var þó ekki greinarskrif sakborninga heldur svar Páls skipstjóra. Fréttin.is, eini miðillinn ekki undir ofurvaldi RSK-miðla, gerði svarinu skil.
Í svari skipstjórans birtist mynd af tölvupósti frá 3. október. Þar ræða sakborningarnir Þóra og Aðalsteinn við Láru V. Júlíusdóttur lögfræðing um aðgang að símkorti mjög veikrar konu sem byrlaði Páli, stal síma hans og kom afrakstrinum til RSK-miðla.
Lára er ekki bara einhver lögfræðingur út í bæ. Hún er helsti trúnaðarmaður forystu Samfylkingarinnar frá stofnun flokksins og hefur sem slík gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum á opinberum vettvangi. Lára er til áratuga pólitískur handlangari Samfylkingarinnar.
Þingmenn Samfylkingar mættu á krísufund sumarið 2021 til blása lífi Samherjamálið með RSK-miðlum. Velgengni flokksins og trúverðugleiki RSK-miðla eru tvær hliðar á sömu myntinni. Þingkosningarnar um haustið áttu að snúast um Samherja.
Lára var skilnaðarlögfræðingur veiku konunnar. Hvað var hún að ræða við blaðamenn RSK-miðla um símkort og snúru skjólstæðings síns vikur og mánuði eftir að síma Páls var stolið? Er það svo að blaðamenn RSK-miðla hittu reglulega veiku konuna á skrifstofu Láru til að tappa af afrituðum síma skipstjórans? Var þar lagt á ráðin um að gera Páli skipstjóra sem mestan miska?
Hvað er skilnaðarlögfræðingur og pólitískur handlangari að bralla með blaðamönnum sem vilja upplýsingar úr stolnum síma?
Í grein sinni segir Aðalsteinn, og endurtók það í Kastljósi, að hann þurfti ekki síma Páls til að komast í gögnin. En hvers vegna er hann í tölvupóstsamskiptum um að komast í afritaða símannn?
Byrlun Páls, stuldur á síma hans og fréttir um meinta skæruliðadeild eru eitt ferli með orsakasamhengi. Engin byrlun, engar fréttir. RSK-miðlar bera ábyrgð á öllu ferlinu.
Þórður Snær og Aðalsteinn töfðu framgang RSK-sakamálsins í hálft ár með kærum og fjarveru. Engu að síður segjast áfram um að málið fái niðurstöðu sem fyrst. Hljóð og mynd fara ekki saman. Aðalsteinn ætlar núna að kæra málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Rökin eru þau að blaðamenn séu hafnir yfir lög og rétt. Í nafni blaðamennsku megi byrla, stela, brjóta á friðhelgi, stunda stafrænt kynferðisofbeldi og misnota andlega veika. Blaðamennirnir misnotuðu, skrifar Páll skipstjóri, „fárveikan einstakling sem hefur hvorki sjúkdómsinnsæi eða veruleikaskyn.“ Hvað ætli Mannréttindadómstóll Evrópu segi við því?
Þau gögn lögreglu, sem þegar eru komin í umferð lögmanna sakborninga, eru ekki nema hluti málsgagna. Elstu gögnin í pakkanum, sem telur um 400 blaðsíður, eru frá ágúst. Lögreglan hóf rannsókn 14. maí í fyrra þegar Páll skipstjóri kærði byrlun og símastuld. Í þeim gögnum sem eru undanskilin, og birtast sennilega ekki fyrr en með ákæru, er mesta sprengiefnið. Sennilega býður Aðalsteini og Þórði Snæ það í grun og hamast núna á meðan nokkur minnsta von sé til að virkir í athugasemdum trúi samræmdri frásögn Knoll og Tott.