Sigursteinn Másson skrifar pistil á Facebook síðu sinni í dag þar sem hann fer yfir niðurstöðu endurupptökudóms í máli Erlu Bolladóttur. Sigursteinn framleiddi og skrifaði handrit að heimildarmyndinni Aðför að lögum, sem fjallar um Guðmundur- og Geirfinnsmálið.
Pistillinn fylgir hér:
„Það eru nokkrar mjög skýrar ástæður fyrir því að höfnun Endurupptökudóms á endurupptökukröfu Erlu Bolladóttur gengur ekki upp.
Í fyrsta lagi telur dómurinn að ekki séu komnar fram nýjar upplýsingar eða gögn sem máli skipta frá því Hæstaréttardómurinn var kveðinn upp árið 1980. Til upplýsinga fyrir dómarana þrjá þá voru allir hinir dæmdu sýknaðir af aðild að mannshvörfunum í Hæstarétti Íslands fyrir fjórum árum. Röngu sakargiftirnar, sem eftir standa, snérust alltaf um það eitt að Erla en einnig Sævar og Kristján Viðar, hefðu verið að koma eigin sök yfir á aðra. Eftir sýknudóm Hæstaréttar er engin slík sök til staðar til að koma yfir á aðra og þar með falla þessar röngu sakargiftir um sjálft sig. M.ö.o. Ungmennin þrjú höfðu nákvæmlega enga ástæðu til að plotta það í kjallara ömmu Kristjáns Viðars, eins og dómurinn frá 1980 lýsir, að benda á einhverja þrjá viðskiptamenn og hálfbróður Erlu enda viðurkennt af Hæstarétti að þau höfðu ekkert með hvarf Geirfinns að gera. Er þetta ekki ljóst hverju sex ára barni?
Í öðru lagi fer Endurupptökudómstóllinn þá leið að einangra mál Erlu og slíta úr samhengi við málið í heild sinni. Þannig er litið fram hjá því að viðurkennt er af Endurupptökunefnd í úrskurði hennar árið 2014 að ólögmætum rannsóknaraðferðum hafi verið beitt og óeðlilegum þrýstingi sem leitt hafi af sér ósannar og falskar játningar. Lítið er gert úr sjö daga gæsluvarðhaldsvist Erlu í desember 1975 þegar hún, tvítug að aldri, var tekin frá 11 vikna gamalli dóttur sinni og Póstsvikamál af lögreglu og fulltrúa Sakadóms þróað yfir í Guðmundarmál. Dómurinn heldur því fram að Erla hafi ekki verið í einangrun þá viku heldur meira svona í einskonar félagslegri einangrun eins og það er orðað. Dómararnir hefðu betur kynnt sér þær skýrslur og upplýsingar í Fangelsisdagbók sem fyrir liggja.
Endurupptökudómstóllinn gerir enga tilraun til að útskýra þá staðreynd að fyrsti skjalfesti framburðurinn, þar sem viðskiptamennirnir fjórir og Einar Bollason koma við sögu, kemur frá Sævari en ekki frá Erlu. Það gerðist degi áður en Erla og Kristján Viðar skrifuðu undir ruglingslegar skýrslur sínar. Skýrsla Sævars er óundirrituð. Þetta gerist allt 22. og 23 janúar 1976 eða rúmum 15 mánuðum eftir að þau áttu að hafa komið sér saman um að nefna mennina. Öll þrjú á sama sólarhringnum, þeir í sitthvoru lag í gæsluvarðhaldi og alveg þvingunarlaust að mati Endurupptökudómstólsins. Það þótt viðurkennt sé að þau komu hvergi nærri hvarfi Geirfinns og höfðu þar með enga ástæðu til að koma sök yfir á aðra.
Í þriðja lagi gerir Endurupptökudómstóllinn mikið úr því að Erla hafi ekki verið í gæsluvarðhaldi þegar fyrstu framburðir hennar í Geirfinnsmáli koma fram síðla janúar 1976. Dóttir hennar var um þriggja mánaða gömul og barnsföður hinnar tvítugu Erlu lýst sem stórhættulegum morðingja, jafnvel fjöldamorðingja, af lögreglumönnum og fulltrúa Sakadómara sem dúkka stöðugt upp á heimilinu þegar móðir Erlu er í vinnu. Þeir láta ekki þar við sitja heldur er hún líka keyrð niður í Síðumúlafangelsi í yfirheyrslur sem hún upplifði augljóslega sem ógn. Erla var meðvituð um að það væri hætta á að hún yrði aftur tekin frá dóttur sinni og færð í gæsluvarðhald ef hún þóknaðist þeim ekki. Eftir símhringingar á heimilið, þar sem skellt er ítrekað á, brást lögreglan við með því að segja að hún væri í mikilli hættu og vopnaður lögregluvörður var hafður um heimilið heilu sólarhringana. Ógnin og óttinn var allt umlykjandi þegar lögreglan tók að sýna Erlu myndir af sextán mönnum, þeirra á meðal Klúbbsmönnum. Þessu öllu saman líta karldómararnir þrír í Endurupptökudómi fram hjá í úrskurði sínum.
Í fjórða lagi er alveg litið fram hjá því að allir sakborningar, þ.m.t. Erla, voru í desember 1975 búin að játa á sig aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar en viðurkennt frá 2018 að það átti ekki við nein rök að styðjast. Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur hefur sýnt fram á að það er hægt að rugla og þvinga sakborninga í gæsluvarðhaldi til að játa á sig allskyns sakir á örfáum sólarhringum, hvað þá að bera aðra sökum, í því skyni að sleppa út eða fá betri meðferð. Þar með var búið að brjóta þau öll niður, líka Erlu, sem var augljóslega í mjög viðkvæmri og veikri stöðu gagnvart lögreglunni allan tímann og sérstaklega í janúar 1976.
Í fimmta lagi liggur skjalfest fyrir að fulltrúi ríkissaksóknara var búinn að reyna að ná Klúbbsmönnum frá árinu 1972 þegar deildarstjóri tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli lýsir fyrir ýmsum háttsettum embættismönnum löngum njósnum hans um Klúbbinn og áfengisflutninga þangað. Staðnum var lokað en Ólafur Jóhannesson dómsmálaráðherra hlutaðist til um að lögreglustjórinn í Reykjavík léti opna Klúbbinn að nýju við litla hrifningu í Saksóknaraembættinu og Tollinum. Þegar Geirfinnur hverfur í Keflavík, tveimur árum síðar, voru birtar myndir í fjölmiðlum sem teiknaðar voru eftir ljósmynd af framkvæmdastjóra Klúbbsins og leirhöfuð búið til sem líktist honum mjög. Hann var kallaður til yfirheyrslu vegna þessa þótt vitni teldu af og frá að framkvæmdastjórinn hafi verið í Hafnarbúðinni að hringja í Geirfinn kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Ekkert kom út úr Keflavíkurrannsókninni og henni lokað 5. júní 1975.
Þann 20. október 1975, þremur mánuðum áður en Sævar kemur með fyrsta óundirritaða framburð sinn í Geirfinnsmáli og nefnir Klúbbsmenn, verður til skýrsla sem tekin er af Guðmundi Agnarssyni nokkrum sem máli skiptir í samhenginu. Guðmundur hafði verið að blaðra um að hann hafi farið til Keflavíkur með þeim Klúbbsmönnum og út á bát með Geirfinni að sækja smygl en Geirfinnur fallið fyrir borð og drukknað. Þetta var talið raus og honum sleppt. Það merkilega er að skýrslan var í öllum aðalatriðum, og nánast orðrétt, í takt við þá framburði sem ungmennin þrjú gáfu svo þremur mánuðum síðar. Ekkert bendir til að að þau hafi nokkru sinni heyrt sögu Guðmundar Agnarssonar frá honum eða neinum i kringum hann en rannsóknaraðilarnir þekktu þessa sögu hans hins vegar vel.
Hallvarður Einvarðsson kallar eftir öllum gögnum úr Keflavíkurrannsókninni á sjálfan gamlársdag 1975, rúmum þremur vikum áður en fyrstu framburðir komu fram. Hvert var tilefnið og hvernig stóð á því að saga Guðmundar Agnarssonar verður grunnur þeirrar sögu sem ungmennin þrjú eiga þremur mánuðum síðar að hafa komið upp með að eigin frumkvæði? Þetta hefur aldrei verið skýrt. Augljóst er að áherslan á Klúbbsmenn er ekki komin frá Erlu og strákunum.
Margt fleira mætti týna til en fram hjá þessu öllu lítur Endurupptökudómstóllinn. Það er engu líkara en að karldómararnir þrír hafi verið búnir að ákveða fyrirfram niðurstöðuna og farið síðan mikla Fjallabaksleið til að leiða rök að henni. Marga skrýtna dóma hef ég séð um ævina en engan eins og hann þennan.
Úr því sem komið er held ég að tvennt sé helst í stöðunni. Annars vegar að Alþingi skipi óháða rannsóknarnefnd, helst skipaða erlendum sérfræðingum, sem fari ofan í saumana á málunum. Þessum nýjasta dómi verður ekki áfrýjað. Þannig hefur íslenskt réttarfarskerfi sýnt að það er ófært um að leiða réttláta og sanna niðurstöðu í ljós. Réttarríkið hefur brugðist. Jafnframt tel ég einsýnt að málið fari fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.“