Eftir Arnar Sverrisson:
Fyrir skemmstu sagði fréttastofa RÚV okkur frá því, að Úkraínumenn hefðu unnið stórsigur á Rússum í suðri og lagt undir sig víðáttumikil, hernumin landsvæði. En það láðist að geta þess, að áður höfðu Rússar boðið þeim, sem vildu, skjól fyrir þeim hamförunum, sem í vændum væru. Svæðisins var gætt af herlögreglu. Sumir – eins og bandarískur hermaður, Russel að nafni, búsettur í Donetsk, ávítar Rússa fyrir að greiða þar með götu úkraínska Natóhersins til héraðsins.
Eins og áður hefur gerst, þegar Rússar hörfuðu, fundu Úkraínumenn „fjöldagröf,“ í þetta sinn í Izyum, þar sem Volodomyr lét mynda sig með nasistamerktum hermönnum. Það fylgdi heldur ekki þeirri sögu, að trúlega er um þriðjungur herliðsins, sem nefnda dáð vann, beinlínis á vegum Nató.
Um er að ræða nýja tegund „fjöldagrafar,“ þ.e. grafreit í skóglendi, þar sem leiði eru merkt. Eitt þeirra er merkt með tölunni 17. Það er að sögn fjöldagröf úkraínskra hermanna, sem rússneskir þjáningabræður þeirra sveipuðu plasti og grófu, svo lík þeirra yrðu ekki villidýrum að bráð. Þeir segja, að úkraínsk hernaðaryfirvöld hafi neitað að sækja líkin. En vonandi sker Alþjóðadómstóllinn úr um sekt og sakleysi. Stríðið er jafn hræðilegt og hörmulegt, eftir sem áður, og skrifast á reikning misviturra stjórnmálamanna og stríðsæsingamanna.
Það er varla um leyni- eða staðgengilsstríð að ræða lengur. Þessi þróun dregur dilk á eftir sér eins og búast mátti við. Rússar hyggjast nú vígbúa fleiri hermenn en áður, en þeir hafa sem kunnugt er, sótt inn í Úkraínu með fámennt herlið að tilltölu gegn þjálfaðasta her Evrópu, sem var miklu stærri.
Eins og stundum áður leiddi RÚV fram á vígvöll upplýsingastríðsins annan tveggja sérfræðinga þess í „öryggis- og varnarmálum.“ Í einhvern tíma sagði þessi vitringur RÚV, að innrás Rússa í Úkraínu væri einsdæmi á friðartímum. Hann útskýrði undanhald Rússa m.a. á grundvelli hnignandi siðferðis rússneskra hermanna, því þeir hefðu ekki fengið útborguð launin sín. Þess vegna hefðu þeir lagt á óskipulegan flótta, samkvæmt vitnisburði ónefnds þorpsbúa.
Jafnframt staðhæfir títt nefndur sérfræðingur, að fyrirhuguð atkvæðagreiðsla nokkurra sjálfsstjórnarhéraða í Úkraínu séu „þjóðréttarþvæla.“ Það kæmi ekki að sök að kynna sér samþykktir Sameinuðu þjóðanna, sem komast næst því að heita alþjóðalög. Þar er kveðið á um rétt þjóðarbrota til sjálf að ákveða um ríkjaaðild.
Annað ákvæði heimilar varnarþátttöku eins ríkis í öðru, hafi þau gert sáttmála þar um. Þetta eru beinlínis sorgleg sérfræði, sem RÚV býður skylduáskrifendum sínum. Þau aðhyllast fá ríki í veröldinni. Einungis um fjórðungur ríkja eða tæp níutíu af hundraði jarðarbúa styðja Vesturlönd í þessu skelfilega stríði, sem auðveldlega gæti orðið að algleymiskjarnorkustríði. Og við skulum ekki gleyma því, að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ber ríka ábyrgð.
Efnahagsstríð Íslendinga og annarra Vesturlanda gegn Rússum hefur snúist upp í andhverfu sína með hækkandi verðbólgu, fátækt og eymd í Vestur-Evrópu - og í Bandaríkjunum reyndar líka. Margir telja þau vera á barmi borgarastyrjaldar. Tyrkir og Ungverjar versla nú meira við Rússa en áður í trássi við bann Evrópusambandsins. Einungis um fjórðungur arðvænlegra alþjóðafyrirtækja hafa horfið frá Rússlandi. Japanar neituðu að hlýða kalli G7 og gefa upp á bátinn samvinnu við Rússa um olíu- og gasverkefnið, Sakhalin-2.
Hræsnin í upplýsinga- og áróðursstríðinu er víða áberandi. Hún glóir m.a. glatt í fréttum RÚV og í málflutningi sérfræðings þess (nema um vanþekkingu sé að ræða). Fréttastofan á enn eftir að skýra eignarhald bandarískra fyrirtækja á jarðnæði í Úkraínu og hvers vegna „hernumda“ kornið var að mestu leyti flutt á markaði á Vesturlöndum.
Það er margt rætt og ritað um hið ógæfusamlega stríð í Úkraínu, þar sem tugþúsundum ungra karla er slátrað. Ég leyfi mér að nefna tvo menn til sögu; Scott Ritter, menntaðan og þrautreyndan hernaðarsérfræðing frá Bandaríkjunum og M.K. Bhadramumar, indverskan stjórnmálamann og fyrrum sendiherra:
Scott Ritter: Á líðandi stundu verðum við vitni að því, hvaða áhrif fjármagn (frá Vesturlöndum) hefur í Úkraínu. Afleiðingarnar eru fleiri dauðir hermenn, úkraínskir og rússneskir, fleiri dauðir almennir borgarar og meiri eyðilegging á búnaði. Í ljósi hins ógnarlega taps, sem Úkraínumenn hafa mátt þola miðað við takmarkað tjón, sem þeir hafa valdið Rússum, ber að líta á sókn Úkraínumanna í Kharkov sem fórnarsigur (Pyrrhúsarsigur - Pirrhic victory). Hann breytir ekki þeim grundvallarraunveruleika, að Rússar eru sigurreifir og munu vinna skærurnar (conflict) í Úkraínu.
M.K. Bhadrakumar segir m.a.: Ennþá einu sinni láta rússnesk yfirvöld bandarískum blaðamönnum eftir leiksýninguna, meðan þeir einbeita sér að endanlegum árangri. Hann er þrískiptur: ljúka við brottflutning íbúa á Balakleysko—Izyum svæðinu, án þess að lífum sé fórnað; gera gagnárás á úkraínska herinn, sem hætti sér út á opið landsvæði úr víghreiðrum sínum á Kharkov svæðinu; einbeita sér að bardögum í Donetsk.
Mætti guð og góðir menn hlífa okkur við dómgreindarlausum stríðshaukum og stjórnmálamönnum.
Tilvísanir með grein má finna hér.