Lára, RSK-miðlar og veika konan

frettinPáll VilhjálmssonLeave a Comment

Í gögnum lögreglu í RSK-sakamálinu er tölvupóstur frá andlega veikri konu dagsettur 3. október í fyrra. Viðtakendur eru Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, Þóra Arnórsdóttir á RÚV, Aðalsteinn Kjartansson og Ingi Freyr Vilhjálmsson, báðir á Stundinni. Texti tölvupóstsins er eftirfarandi:

Sæl Lára.
Ég gef hér með Þóru Arnórsdóttur og Aðalsteini Kjartanssyni umboð til að ná í símkortin mín til þín ef þau óska eftir því að fá þau í hendur ásamt öðru efni sem þú kannt að hafa frá mér.

Lára er skilnaðarlögfræðingur veiku konunnar. Hversu eðlilegt er að skilnaðarlögfræðingur fái símkort skjólstæðinga sinna? Símkortin eru í fleirtölu, konan hafði a.m.k. tvo síma, líklega sinn eigin og afritaðan síma skipstjórans. Hversu algengt er að fólk veiti blaðamönnum að öllu sínu persónulegasta?

Hvorki er þetta eðlilegt né algengt. Andleg veikindi þarf til.

Veika konan er eins og leir i höndum RSK-blaðamanna sem fá umboð til að hnýsast í einkagögn konunnar, væntanlega til að eyða upplýsingum fyrri samskipti þegar lagt var á ráðin með að byrla Páli skipstjóra, stela síma hans og afrita.

Dagsetningin 3. október er mikilvæg. Samkvæmt greinargerð lögreglu var veika konan í sinni fyrstu yfirheyrslu tveim dögum síðar, 5. október. Slíkar yfirheyrslur eru boðaðar með minnst tveggja daga fyrirvara. Lára og RSK-miðlar vissu um yfirheyrsluna. Innköllun Láru á símkortunum átti að girða fyrir að upplýsingar í sakamáli kæmust til lögreglu.

Blaðamennirnir ætluðu að mæta á lögfræðistofu Láru, allir með umboð, til að fletta upp á fyrri samskiptum við veiku konuna og eyða til að lögreglan sæi ekki aðild þeirra að byrlun og gagnastuldi. Án efa var lögreglan viðbúin og vissi hvers kyns yrði, hún hafði verið með málið í rannsókn frá miðjum maí.

Hver var verjandi veiku konunnar í yfirheyrslu lögreglunnar? Jú, skilnaðarlögfræðingurinn Lára V. Í greinargerð lögreglu segir:

X [veika konan] var yfirheyrður 5. október sl. Í þeirri yfirheyrslu viðurkennir X að hafa óskað eftir að fá að skoða síma brotaþola [Páls skipstjóra] og þegar hann neitaði því kveðst X hafa snöggreiðst og farið fram og náð í svefnlyf sem hann vissi ekki hvaða tegund var og sett út í drykk brotaþola. Þegar þarna var komið í yfirheyrslunni greip verjandinn inn í og truflaði yfirheyrsluna með þeim afleiðingum að X tjáði sig ekki frekar.

Lára V. skilnaðarlögfræðingur og verjandi er með öll ráð veiku konunnar í hendi sér. Lára er milligöngumaður um að afhenda RSK-blaðamönnum aðgengi að persónulegu lífi skjólstæðings, símkortunum og „öðru efni“, og kemur í veg fyrir að konan tjái sig um nánar málsatvik eftir að hún byrlaði Páli skipstjóra. Það er andstætt reglum um stöðu verjenda við yfirheyrslur sakborninga að þeir grípi frammí og stöðvi yfirheyrslur. En Láru lá á að hylma yfir aðild RSK-blaðamanna. Hér var meira í húfi en æra og orðspor fjölmiðlamanna.

(Innan sviga: hér að ofan er játning á glæp sem Þórður Snær ritstjóri segir að hafi ekki verið framinn. Ritstjórinn er sá veruleikafirrtasti norðan Alpafjalla, - en mun ekki vera geðveikur.)

Lára er, eins og áður hefur komið fram, einn af flokkseigendum Samfylkingar. Hún er frá stofnun flokksins innsti koppur í búri valdakjarnans. Þingmenn Samfylkingar voru í startholunum eftir að veika konan stal síma Páls skipstjóra og fór með hann til afritunar á Efstaleiti áður en hún skilað tækinu aftur á sjúkrabeð skipstjórans - til að hann skyldi ekki gruna neitt misjafnt.

Um leið og Stundin og Kjarninn fengu fréttir frá Glæpaleiti, unnar upp úr síma Páls, til að birta samtímis þustu þingmenn Samfylkingar á opinberan vettvang til að blása upp málið um meinta deild Samherja. Þingmenn Samfylkingar höfðu forskot. Skæruliðadeildin átti að verða stóra málið í haustkosningunum í fyrra.

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar var fljót til, „Er þakklát fyrir fjölmiðlafólk sem þorir,“ skrifaði hún á Twitter. Þingmaður sem þakkar glæpi ætti kannski að leita sér að öðru starfi. Ef Helga Vala vill vera í návist við fólk sem hún er þakklát gætu verið lausar stöður á Hólmsheiði eða Litla-Hrauni.

Notaði Lára aðstöðu sína sem skilnaðarlögfræðingur að koma á sambandi milli RSK-miðla og veiku konunnar? Lögreglan hefur enn ekki skilað af sér gögnum sem eru eldri en frá ágúst í fyrra. En það var í apríl og byrjun maí sem atlagan að Páli skipstjóra var skipulögð og framkvæmd. Gögn um þá atburðarás eru enn ekki lögð fram, verða mögulega ekki kynnt fyrr en í réttarsal. Með umboðinu sem blaðamenn fengu 3. október til að lúslesa eldri samskipti sín við tilræðismanninn er augljóst að þeir voru verulega áhyggjufullir að sannleikurinn yrði opinberaður. Blaðamenn sem óttast sannleikann eru verr settir en þorskur á þurru landi. Enginn spyr þorsk um heiðarleika.

Stjórnmálaflokkar geta skipt um nafn. En það verður erfiðara fyrir brotamenn RSK-sakamálsins að breiða yfir nafn og númer þegar öll gögn málsins verða lögð fram. Um RÚV og hjáleigurnar, Stundina og Kjarnann, þarf ekki að hafa mörg orð. Fjölmiðlar sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru feigðinni merktir.

Skildu eftir skilaboð