Eftir Þorstein Siglaugsson. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30.sept. 2022
„Stjórnvöld sem beita sér fyrir höftum á tjáningarfrelsi, annað hvort beint, eða bak við tjöldin með því að þrýsta á einkafyrirtæki, hafa í raun glatað lögmæti sínu.“
Hinn 15. september sl. lokaði greiðslumiðlunin Paypal reikningum breska blaðamannsins Toby Young, Daily Sceptic-vefmiðilsins, sem er gagnrýninn á stefnu stjórnvalda í ýmsum málum, og Free Speech Union, sem eru samtök til varnar málfrelsi. Toby Young er í forsvari fyrir bæði Daily Sceptic og Free Speech Union. Tilraunir til að fá haldbærar skýringar á ákvörðun fyrirtækisins eða snúa henni við báru engan árangur og 22. september var greint frá málinu opinberlega.
Breskir stjórnmálamenn bregðast við haftatilburðum Paypal
En í þetta skipti kom háttsemi Paypal í bakið á fyrirtækinu. Toby Young, sem einnig er aðstoðarritstjóri hins þekkta vikurits Spectator, vakti strax athygli á málinu, hópur þingmanna skoraði á viðskiptaráðherrann að bregðast við. Hinn 27. september fordæmdi svo ráðherrann, Jacob Rees-Mogg, aðgerðir Paypal og krafðist þess að fyrirtækið léti tafarlaust af tilraunum til að hefta tjáningarfrelsi viðskiptavina sinna. Í kjölfarið opnaði Paypal alla reikningana að nýju. Nú má búast við löggjöf gegn slíku framferði á Bretlandi.
Toby Young er svo sannarlega ekki einn um að hafa orðið fyrir barðinu á tilraunum greiðslumiðlunarfyrirtækja til að hefta tjáningarfrelsi. Samtök sem berjast fyrir rétti barna til menntunar, vinstrisinnaðir vefmiðlar, samtök samkynhneigðra og fleiri aðilar hafa lent í því sama. Kannski varð það tjáningarfrelsinu til happs í þetta sinn að Paypal valdi sér þarna óheppilegan andstæðing, þekktan blaðamann með sterk pólitísk tengsl.
Ritskoðunariðnaðurinn heftir frjálsa umræðu
Flest höfum við væntanlega orðið vör við ritskoðun samfélagsmiðla gagnvart öllu efni sem fer í bága við stefnu og aðgerðir stjórnvalda í heilbrigðismálum undanfarin tæp þrjú ár, sama hversu misráðnar aðgerðirnar eru og á hversu veikum vísindalegum grunni stefnan byggist. Þessi ritskoðun byggist að mestu á fullyrðingum hinna vel fjármögnuðu „fact-check“-upplýsingaveitna.
Það er kaldhæðnislegt að tveimur dögum áður en upplýsingar um aðgerðir Paypal gegn Daily Sceptic voru gerðar opinberar stóð ég í ströngu við að hrekja rangfærslur einnar slíkrar veitu, sem hafði ákveðið að umfjöllun um þá ákvörðun danskra yfirvalda að neita þorra fólks undir fimmtugu um bólusetningu gegn Covid-19 fæli í sér „falsfréttir“. Grein mín í Daily Sceptic um efnið nokkrum dögum áður, tíst Tobys Youngs um greinina og öll önnur umfjöllun sem vísaði til ákvörðunar Dana fékk nú stimpilinn „rangar upplýsingar“ á samfélagsmiðlum.
Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um ritskoðunina. Ummerki hennar sjást glöggt á efnisvali flestra fjölmiðla, sem ekki þora að ganga gegn ritskoðurunum. Jafnvel höfundar vísindagreina virðast telja sig þurfa að beita sjálfsritskoðun. Nýlegt dæmi um þetta er íslensk rannsókn sem sýndi að líkur á Covid-19-smiti meðal bólusettra væru 42% hærri en annarra, og sem aðrar rannsóknir hafa síðan staðfest, en í inngangi lýstu höfundar muninum sem „smávægilegum“!
Atlagan að tjáningarfrelsinu komin á annað stig
Þegar réttar upplýsingar fá ekki að koma fram eru rangar ákvarðanir teknar. En með aðgerðum fjármálastofnana er atlagan að tjáningarfrelsinu komin á annað og alvarlegra stig, því þar er ráðist beint gegn lífsafkomu fólks. Þess er skemmst að minnast að snemma á árinu þröngvuðu kanadísk stjórnvöld bönkum til að frysta reikninga fólks sem stutt hafði mótmæli vörubílstjóra gegn þvingaðri lyfjagjöf að viðlögðum atvinnumissi.
Eftir að mál Free Speech Union og Daily Sceptic kom upp hefur komið á daginn að fleiri greiðslumiðlunarfyrirtæki hafa stundað svipuð vinnubrögð. Verði áform um afnám reiðufjár og opinberar rafmyntir að veruleika geta stjórnvöld vandræðalaust beitt fólk fjárhagslegum þvingunum vegna skoðana þess. Ekki þarf þá lengur á því samráði við einkafyrirtæki að halda, líkt og upplýst hefur verið um í málaferlum vísindamannanna Martins Kulldorffs, Jays Bhattachariya og fleiri gegn bandarískum stjórnvöldum og samfélagsmiðlum.
Skylda stjórnvalda að verja tjáningarfrelsið, ekki að vega að því
Það er grunnhlutverk stjórnvalda að verja tjáningar- og persónufrelsi almennings. Stjórnvöld sem beita sér fyrir höftum á tjáningarfrelsi, annaðhvort beint, eða bak við tjöldin með því að þrýsta á einkafyrirtæki, hafa í raun glatað lögmæti sínu. Breskir þingmenn virðast nú hafa risið upp og vonandi gerist það víðar, og sem fyrst. En á endanum er það hlutverk okkar, almennings í hverju landi, að standa vörð um réttindi okkar. Hér er um sjálfan grundvöll hins frjálsa lýðræðissamfélags að tefla.
Höfundur er hagfræðingur og pistlahöfundur hjá The Daily Sceptic, Brownstone Institute, The Epoch Times og fleiri erlendum miðlum. Hann er formaður Málfrelsis – samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi.