Árlegur kostnaður vegna hælisleitenda mun meiri en 10 milljarðar

frettinHælisleitendur, StjórnmálLeave a Comment

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var gestur Péturs Gunnlaugssonar á Útvarpi Sögu fyrr í mánuðinum þar sem fram kom að kostnaður vegna komu hælisleitenda hingað til lands væri mun meiri en þeir tíu milljarðar sem settir eru í málaflokkinn á ársgrundvelli.

Sigmundur sagði að þeir tíu milljarðar sem væru settir í málaflokk hælisleitenda væri einungis beinn kostnaður sem málaflokkurinn útheimti nú á hverju ári og færi vaxandi samhliða auknum fjölda hælisleitenda sem til landsins leitar. Í þeirri tölu er ekki sá kostnaður sem óbeint stafar af komu hælisleitenda hingað til lands. Sá kostnaður er ekki síður hár, til dæmis í auknum fjárútlátum til annara málaflokka sem varða ýmis konar þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, samgöngum, félagsþjónustu, kostnaðar vegna aukins álags á skólakerfið, löggæslu og svo framvegis. Þar af leiðandi gefi beini kostnaðurinn sem þegar sé hár í raun ekki rétta mynd af heildarkostnaði sem hlýst af komu hælisleitenda til landsins.

Sigmundur segist lengi hafa bent á þá tilhneigingu kerfisins til að fela kostnaðinn varðandi málaflokkinn með því að greina aðeins frá beinum kostnaði en sleppa afleiddum kostnaði. Hann sagði að fyrir nokkrum árum þegar beini kostnaðurinn hafi verið mun minni en nú og verið var að koma honum fyrir í fjárlögum hafi menn oft efast um að sá beini kostnaður væri rétt metinn. Síðar hafi svo komið í ljós að kostnaðurinn hafi verið ranglega metinn og reynst mun hærri og því hafi óbeini kostnaðurinn sömuleiðis verið mun hærri.

Sigmundur segir nauðsynlegt að horft sé til afleidds kostnaðar eins og allra annara ríkisútgjalda þar sem það sé hlutverk þingmanna að forgangsraða og velja í hvað fjármagnið nýtist best. Hann nefndi einnig að þegar kostnaður vegna hælisleitenda sé borinn saman við stöðu eldri borgara og öryrkja vakni upp mikil reiði af hálfu sumra sem þykir ekki rétt að bera þetta tvennt saman. Sigmundur bætti við að menn verði að átta sig á að eðlileg og skynsamleg umræða um þessi mál sé algerlega nauðsynleg og þess vegna sé mjög bagalegt að hafa ekki sýn yfir heildarkostnað vegna hælisleitenda.

Viðtalið við Sigmund má hlusta á hér á vef Útvarps Sögu.

Skildu eftir skilaboð