Hallur Hallsson skrifar:
Rússland á uppruna í Garðaríki þar sem nú er Kænugarður eða Kyiv. Sagt er að Rússland hafi fæðst í Kievan-Rus. Víkingar sigldu Eystrasalt austur rússnesku ána Dvínu. Þeir sigldu „fjarlæga“ Nepurfljót – Dnjeprfljót suður til Kænugarðs niður til Svartahafs yfir til Miklagarðs í Býzan. Volga rennur í Kaspíahaf, Dóná í Svartahaf. Kænugarður var fyrsta höfuðborg Rússlands, stofnuð AD 882. Rúrik [Hrærekur] var fyrsti konungur Kievan-Rus og ríktu afkomendur hans í rúm 700 ár. Rúrik dó 879. Oleg eða Helgi gerði Kænugarð að höfuðborg.
Mongólar rústuðu Kænugarði á 13. öld þannig að Rúrikar fluttu sig norður til smábæjar nefndur Moskva. Valdatíma Rúrika lauk um 1600. Rómanóvar komust þá til valda. Garðaríki sætti árásum um aldir; Mongólar, Tyrkir, Litháar, Pólverjar, Svíar. Úkraína þreifst ekki sem þjóðríki fyrr en með rússnesku byltingunni fyrir rúmri öld þegar Úkraína varð sovéskt sósíalískt lýðveldi. Vladimir Lenín renndi iðnaðarsvæðum Donbass inn í Úkraínu. Holomodyr skipulögð hungurneyð georgíumannsins Jósefs Stalíns 1932-33. Miðstýrður samyrkjubúskapur leiddi til dauða átta milljón bænda. Þegar Hitler og Stalín skiptu Póllandi milli sín 1938 renndi Stalín pólska hlutanum inn í Úkraínu þar sem Lviv er stærst borga. Hitler réðst inn í Sovétríkin í júní 1941. Hitler galt afhroð við Stalíngrad á bökkum Volgu. Stephan Bandera stofnaði nazískt leppríki í Lviv þar sem vinur minn Margeir Pétursson rekur Bank Lviv. Bandera gekk vasklega fram í fjöldamorðum svo jafnvel þýskum ofbauð. Rætur nazisma eru djúpar. Bandera var lýstur þjóðhetja Úkraínu fyrir rúmum áratug.
GERVI-RÍKIN ÚKRAÍNA & HVÍTA RÚSSLAND
Úkraína og Hvíta-Rússland voru stofnríki Sameinuðu þjóðanna; Ukraine Soviet Socialist Republic, Belo-Russian Socialist Republic gerviríki til að fjölga atkvæðum Stalíns á Allsherjarþingi og í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Krímskagi heyrði undir Rússland innan sovéska ríkjasambandsins þar til Nikita Krútsjoff fékk þá grillu í höfuðið að færa Krím undir úkraínska sovétlýðveldið árið 1954.
ÞEGAR KREMLARMÚRAR OPNUÐUST
Ég var í Moskvu 1985. Mér var sögð sú saga að á Sovét-tímanum hefðu Kremlarmúrar opnast að morgni 17. júní og sendinefnd ekið um Moskvu að íslenska sendiráðinu til að samfagna Íslendingum á þjóðhátíðardaginn, norrænum vinum til gremju. Pétur Thorsteinsson var sendirráðsritari í Moskvu 1944-47, sendiherra 1953-61 í miklum metum. Ísland er Rússum hugstætt vegna Heimskringlu og Eddu-kvæða Snorra Sturlusonar. Völuspá segir frá Ragnarökum þar sem bræður berast á banaspjót. Snorri kvað Óðinn koma frá Tanakvísl í Ásheimi þar sem Dóná rennur í Svartahaf við borgina Odessu. Njála, Egla, Laxdæla, Kristnisaga segja frá Gunnari á Hlíðarenda og Kolskeggi herja í Austurvegi þaðan sem þeir sigldu með fé mikið; sömuleiðis Egill og Þórólfur Skalla-Grímssynir í Kúrlandi. Laxdæla segir af Bolla í Austurvegi; sonur Bolla Þorleikssonar og Guðrúnar Ósvífursdóttur. Kristnisaga segir af Þorvaldi víðförla Konránssyni í Jórsölum og Miklagarði, sigldi Nepurfljót til Kænugarðs. Víkingar voru Rús, væringjar í Miklagarði.
Sovétríkin hrundu eins og spilaborg í ágúst 1991 þegar harðlínuklíka fangelsaði Gorbatsjov þar sem hann dvaldi á Krímskaga. Valdaránið fór út um þúfur þegar Boris Yeltsin klifraði upp á skriðdrekann í Moskvu. Sovétríkin liðuðust í sundur. Rússland og Úkraína urðu til ásamt lýðveldunum í Kákasusfjöllum og við Eystrasalt. Vladimir Pútin komst til valda um aldamótin. Hann hefur puðað við að sameina Rússa eftir hroðaskaða kommúnista. Þetta er örsaga Rússlands og Úkraínu í 500 orðum í bland við íslensk tengsl.
NATO LEIKUR SÉR MEÐ ELDSPÝTUR
Nú þætti mér vænt um ef vinir mínir, Albert og Óli Björn svari því hvað Nato sé að gera þarna. Zelinskí sagði á dögunum í Washington að Úkraínustríðið sé fjárfesting í öryggi Vesturlanda! Stríð er öryggi á orwellsku. „We will stay with Ukraine as long as it [Úkraína] is there,“ sagði Biden um daginn með Zelinskí sér við hlið[sic]. Lindsey Graham senator hefur sagt að meðan Ameríka láti Úkraínu í té vopn, þá berjist úkranar til síðasta manns[sic]. Blasir ekki við hvaða afleiðingar brjálæðisstefna Biden hefur í för með sér? Úkraína verður afmáð, Evrópu lömuð en hvað um Rússland? Þessa menn varðar ekkert um slavneskt blóðbað. Bræður berjast í amerísku proxy-stríði. Nikita Krútsjoff [1954-64] var alinn upp í A-Úkraínu, Leonid Brezhnev [1964-82] og Mikhail Gorbatsjov [1985-91] úkranir. Albert á útvarpinu ég á sjónvarpinu þegar Gorbatsjov hitti Ronald Reagan í Reykjavík 1986.
Úkraínsk eldflaug féll á Pólland. Zelinskí laug að hún væri rússnesk. Zelinskí kvað Pólland hafa orðið fyrir árás; árás á eitt Natoríki væri árás á öll. Kallað var eftir kjarnorkuvopnum. Hvað er Nato að leika sér með eldspýtur í rússneskum kartöflugarði? Nú berast fregnir af bandarískum hersveitum í Úkraínu ásamt vestrænum málaliðum með hátæknivopn. Voru þeir að baki árás á Mavkívka í Donetsk þegar tugir, jafnvel hundruð rússneskra hermanna féllu í flugskeytaárás? Rússnesk yfirvöld hafa hækkað tölu látinna úr 63 í 89. Að sjálfsögðu er harmur í Rússlandi líkt og í Úkraínu. Það er harmur í heimi.
ORWELLSKA: STRÍÐ ER FRELSI
ESB lætur sig dreyma um evrópskt glóbal stórríki, en stendur frammi fyrir frostavetri, efnahagshruni og upplausn. Enginn nefnir hótun Biden að sprengja Nordstream gasleiðsluna. Er ekki sannleikurinn sá að úkrnazískar hersveitir eru gersigraðar sem Hitlers við Stalíngrad fyrir 80 árum? Úkraína kolmyrkuð, orkulaus, máttvana. Vissulega voru Rússar í útjaðri Kænugarðs í upphafi stríðs, drógu sig baka og héldu til A-Úkraínu sem nú er hluti Rússlands. Það var túlkað sem ósigur. Er það svo? Var tilgangurinn að binda úkraínskar hersveitir við Kænugarð? Vísbendingar eru um að Pólverjar hugsi sér til hreyfings en 4 milljónir úkrana eru í Póllandi svo þar er mikið öngþveiti. Tekur Pólland V-Úkraínu til baka? Hvað verður um Kyiv Oblast?
Herforinginn Douglas Macgregor sagði í vikunni að 35 þúsund úkraínskir hermenn séu týndir, rúmlega 100 þúsund fallnir; sumsé allt að 150 þúsund fallnir og týndir, annar eins fjöldi óvígur og enn eigi rússneski hrammurinn eftir að falla af fullum þunga. Flótti er brostinn á. Liðhlaup kemur niður á félögum í hernum, segir Valeri Zaluzhnyi yfirhershöfðingi úkrana. Liðhlaupum er hótað fangelsi og það ekki Kvíabryggju. Unglingar í hernum hírast í kulda, myrki og vosbúð, hóta að fara eftir Zelinskí, nota bene ekki Pútin: „Varpa okkur í fangelsi? Aðeins þeir segja að menn komist þaðan ekki lifandi.“
Vinir mínir hljóta að þekkja ummæli Angelu Merkel þess efnis að Minsk-samningarnir hafi veitt Úkraínu tíma til hervæðingar. Vinum mínum hlýtur að vera kunnugt um Tölvuna úr Helvíti – Laptop from Hell sem afhjúpar glæpi Biden-feðga; skelfilegt barnaníð, mansal og fordæmalausa spillingu. Vestræn 101 metrópól hylma yfir. Vinir mínir hljóta að hafa kynnt sér valdaránið 2020 þegar Ameríka varð fasísk. Eða er ekki svo?
GEGN ÍSLENSKUM HAGSMUNUM
Utanríkisstefna okkar gengur gegn hagsmunum Íslands, ólíkt frændum okkar í Færeyjum. Við höfðum allar forsendur til að miðla friði í stað þess að senda milljarða í þvottavélar Zelinskí og Biden. Vinir mínir hljóta að átta sig á að vestrænt málfrelsi er ekki lengur við lýði, ritskoðun er sem mara yfir Vesturlöndum.
Stríðið er framhald af því sem í Ameríku er kallað Endalausar styrjaldir; Balkanskagi, Afganistan, Írak, Lýbía, Sýrland, Súdan, Sómalía á 30 árum. Af hverju allar þessar styrjaldir? Þeir sögðu að stríðin væru í nafni frelsis og lýðræðis; stríð er frelsi á orwellsku. Hefur þeim tekist að breiða út frelsi og lýðræði í ríkjum múslima? Til hvers dóu 11 milljónir múslima og tugum milljóna stökkt á flótta? Standa frelsi og lýðræði traustum fótum á Vesturlöndum? Er stefnan að Ameríka deili og drottni. Sjá menn ekki að stríðinu í Austurvegi er beint gegn Rússlandi, kallað Proxy-stríð.