Fullt tungl í krabba

frettinGuðrún Bergmann, StjörnuspekiLeave a Comment

Eftir Guðrúnu Bergmann:

Áður en kemur að umfjöllum um orkuna í kringum næsta fulla Tungl er rétt að fjalla um nokkur atriði er varða árið 2023. Væntanlega verður þetta árið þar sem allt gengur hratt fyrir sig – og við munum sjá meiri breytingar á þessu ári en við höfum séð undanfarin þrjú ár, enda markast árið 2023 af mjög skýrum endalokum og nýju upphafi.

Við eigum að öllum líkindum eftir að verða vitni að þýðingarmiklum og mikilvægum breytingum, þegar ytri pláneturnar (Júpiter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus og Plútó) fara inn í merki sem þær verða í sumum tilvikum í út ævi margra. Við eigum líka eftir að sjá mun meira af breytilegri orku, sem á eftir að knýja okkur áfram í framþróunar- og umbreytingarferli okkar. Allt á eftir að gerast hratt, einkum fyrstu fimm mánuðina, þar sem Júpiter verður í Hrút.

HRAÐINN EYKST

Strax í síðari hluta janúar, þegar Úranus breytir um stefnu og fer beint fram á við um sporbaug sinn, fara hlutirnir svo sannarlega á skrið. Það verður reyndar fullt að gerast í fyrri hluta janúar líka, en þegar líður á mánuðinn eykst skriðþunginn og hraðinn í öllu og mun bara aukast, alla vega út mitt árið.

Væntanlega eru flestir mjög meðvitaðir um að það eru tvær mjög breiðar tímalínur í gangi meðal heildarinnar. Önnur byggist á ótta og hin á kærleika og það er mikilvægt að velja kærleikann, því ef við viljum vera á hæstu tímalínunni, er best að halda sig alltaf í kærleiksorkunni.

SAMSTAÐA MILLI VENUSAR OG PLÚTÓ

Janúar hefst með mjög þéttri samstöðu á milli Venusar og Plútó. Venus er á 28 gráðum í Steingeit og Plútó á 27 gráðum, svo samstaðan er mjög þétt. Lendi þessi afstaða í fimmta eða sjöunda húsi í fæðingakortum einstaklinga eru líkur á valdabrölti, afbrýðisemi eða annars konar samskiptavandamálum sem geta tengst því hvort við höldum okkur í kæfandi öryggi eða stefnum inn í frelsið. Hin hliðin á þessari afstöðu er sú, að hún gæti valdið spennuþrungnu karmísku ástarævintýri sem gæti orðið mjög örlagaríkt.

Þar sem Venus tengist gjaldmiðlum og kauphöllum og Plútó stórum fjárhæðum, gæti þessi afstaða líka tengst óróleika í kringum gjaldmiðla og því að við erum öll að fara í gegnum grundvallarbreytingar á verðmætamati. Byltingarkennda plánetan Úranus, sem verður í Nautsmerkinu fram til ársins 2026 tengist mjög þessum breytingum.

MARS, ERIS OG JÚPITER

Það er líka öflug spennuafstaða á milli Mars og Eris (ein af Kuiper-beltis plánetunum) í byrjun janúar, en þann 11. janúar breytir Eris um stefnu til að fara fram á við um sporbaug sinn og Mars gerir slíkt hið sama næsta dag eða 12. janúar.

Báðum þessum plánetum fylgir herská orka og krafa um samfélagsleg réttindi fyrir alla og að á alla sé hlustað. Orkan gæti birst sem stríðsorka, en ef við vinnum með þessa orku á jákvæðan máta, með hugrekki, áræðni og eigin skilgreiningu á sjálfstæði okkar getur hún verið mun friðsamlegri.

Júpiter er á ferð í gegnum fyrstu gráðurnar í Hrút og þar sem Júpiter er í fyrsta merki stjörnumerkjahringsins er það tákn um að nú sé að hefjast nýr vaxtarkippur í lífi okkar. Það er eins og við séum að fara upp spíral og setja af stað eitthvað nýtt, á þessum fyrstu gráðum Hrútsins. Hvað er hið „nýja þú“ sem þú vilt verða og í hvaða hugarástandi viltu vera árið 2023?

Stjörnukort fyrir Reykjavík þegar Tunglið verður fullt

FULLA TUNGLIÐ

Tunglið verður fullt þann 6. janúar kl. 11:07 f.h. hér á landi. Sól og Tungl eru alltaf í andstöðu við hvort annað á fullu Tungli, nú á 16 gráðum og 21 mínútu í Krabba (Tunglið) og sömu gráðu í Steingeit (Sólin).

Öll full Tungl laða yfirleitt fram miklar tilfinningar, einkum ef þau eru í vatnsmerki eins og Krabbinn er, einkum og sér í lagi þegar um eigið merki Tunglsins er að ræða – en Tunglið stjórnar Krabbanum. Krabbinn er einkar næmur, fullur af hluttekningu og umhyggju.

Umhyggjusemi hans og næmi fyrir því að vita hvað aðrir þurfa á að halda er áberandi, auk þess sem hann tengist umhyggju fyrir eigin sjálfi – en Krabbinn gleymir þó oft sjálfum sér. Hann býr yfir mjög móðurlegri orku og vill tryggja að allir sem hann elskar séu öruggir.

Krabbinn tengist mjög tilfinningalegu öryggi og Steingeitin þar sem Sólin er á þessu fulla Tungli tengist hinu praktíska öryggi. Þetta gæti þýtt að við sem búum á norðanverðri Jarðarkringlunni þyrftum að tryggja ýmsar birgðir og tryggja að við séum örugg og óhult.  Bæði eru þetta stór þemu, sem tengjast miklum tilfinningum.

CHIRON Í HRÚT

Tilfinningar okkar tengjast líka því að plánetan Chiron er á 12 gráðum í Hrút, í T-spennuafstöðu (90 gráður og 180 gráður) við Sólina og Tunglið, svo við getum verið mjög meðvituð um þá sem eru veikir, en það er mikið af veikindum í gangi núna. Athugið að plánetan Chiron kemur ekki fram á kortinu, en hægt er að teikna hana inn á það.

Við viljum gjarnan annast þetta fólk og veita því umhyggju, en við gætum líka verið að uppgötva ótrúlega magnaðar heilunaraðferðir og -lausnir, því það er svo mikið af alls konar tækni að koma fram á sjónarsviðið núna. Nýrri tækni sem hjálpar fólki að ná bata.

BANDARÍKIN í BRENNIDEPLI

Hið áhugaverða við plánetuafstöðurnar á þessu fulla Tungli er að Mars sem er á 8 gráðum í Tvíbura, er nákvæmlega upp á gráðu í samstöðu við Úranus í korti Bandaríkjanna. Flestir stjörnuspekingar nota kort fyrir Bandaríkin sem reiknað er út frá 4. júlí árið 1776, kl. 17:10 í Philadelphia, þegar sjálfstæðisyfirlýsingin var undirrituð. Í því korti er Úranus á 8 gráðum í Tvíbura.

Úranusi og Mars fylgir mjög eldfim samsetning. Hún getur tengst skyndilegum áföllum, atburðum og jarðskjálftum af ýmsum gerðum. Úranus í korti Bandaríkjanna stjórnar þriðja húsinu í kortinu, en það er táknrænt fyrir staðreyndir, upplýsingar og fjölmiðla.

Mars er í Tvíbura sem er þriðja merki stjörnumerkjahringsins, sem er táknrænt fyrir staðreyndir, upplýsingar og fjölmiðla. Við gætum fengið eldfimar og sláandi fréttir, sem tengjast fjölmiðlunum.

Því er líklegt að mikið verði að gera á sviði samfélagsmiðlanna, hvað sem okkur finnst um það, en sú orka er að hræra upp í málefnum tengdum tjáskiptum – og því hvað er satt og hvað ekki.

Við megum einnig vænta þess að hvað sem kemur til með að gerast í Bandaríkjunum á næstunni, eigi eftir að fara eins og fallandi „dómínó“ um allan heiminn.

ANDLEG UMBYLTING

Annað sem styður við það hversu mikilvæg Bandaríkin eru núna, er að Tunglið sem er á 16 gráðum í Krabba, er í samstöðu við Sólina í korti Bandaríkjanna í kortinu frá 1776 – og að við erum að fara í gegnum endurkomu Plútós í kort Bandaríkjanna, sem þýðir að Plútó er kominn aftur á sama stað og Plútó var á árið 1776.

Þeirri afstöðu fylgir alger andleg umbylting fyrir Bandaríkin, sem kemur til með að halda áfram næstu tvö árin. Hvernig úr þessari umbyltingu spilast mun tengjast því hvernig orkan í kringum Plútó birtist þegar hann fer inn í Vatnsberann í mars.

Skildu eftir skilaboð