Þrjú meint Samherjamál eru öll RÚV-mál

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Þrjú stór fréttamál frá 2012 eru í umræðunni tengd norðlensku útgerðinni Samherja. Með röngu. Málin þrjú eru öll með upphaf í ríkisfjölmiðlinum, RÚV. Þau eru réttnefnd RÚV-málin og segja söguna um það hvernig fréttir verða pólitík og enda í glæp.

Hér er vitanlega átt við Seðlabankamálið, Namibíumálið og byrlunarmál Páls skipstjóra. Málin þrjú eiga sér öll afmælisdag.

1. Seðlabankamálið hófst 27. mars 2012 með húsrannsókn hjá Samherja að morgni og Kastljósþætti á RÚV að kveldi sama dags. Tilefnið var ásökun RÚV, byggð á skýrslu sem var skáldskapur. Samherja var sýknaður fyrir dómi. Ásakanir RÚV kostuðu samfélagið tugi milljóna króna. Saklaust fólk mátti sitja undir ásökunum að stunda afbrot. En RÚV fitnaði eins og púkinn á fjósabitanum.

2. Namibíumálið byrjar með Kveiksþætti á RÚV þann 12. nóvember 2019 þar sem uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson stígur fram á opinberan vettvang í boði RÚV. Helstu ásakanir á hendur Samherja voru mútugjafir til namibískra embættismanna. Málið fór til rannsóknar sakamálayfirvalda á Íslandi og í Namibíu. Í Namibíu stendur yfir dómsmál þar sem Samherji er ekki nefndur a nafn - nema sem brotaþoli. Rannsóknin hér á landi er svo gott sem runnin út í sandinn. Það á aðeins eftir að gefa út dánartilkynningu.

Kostnaður við Namibíumálið hleypur á milljörðum. Héraðssaksóknari fékk 200 milljónir til að rannsaka og það er aðeins dropi i hafið. Saklausir menn eru sagðir ákærðir í fréttum RÚV. Það er bláköld lygi.

3. Byrlunarmálið verður til 3. maí 2021 þegar Páli Steingrímssyni skipstjóra hjá Samherja er byrlað, síma hans stolið og gögn tekin ófrjálsri hendi að undirlagi RÚV með tilstyrk Stundarinnar og Kjarnans, sem saman mynda RSK-miðla. Fjórir blaðamenn bíða ákæru vegna aðildar að málinu. Brotaþolar eru tveir, Páll skipstjóri og Arna McClure lögfræðingur hjá Samherja.

RÚV-málin þrjú sýna þróun. Gögn eru fyrst fölsuð, síðan er ónýt heimild gerð trúverðug og loks taka starfsmenn RÚV lögin í sínar hendur og eiga aðild að alvarlegum glæp, byrlun og stuldi. Ferlið er það sama og hjá þjófi sem byrjar að stela smápeningum en endar sem stórglæpmaður. Hver ber ábyrgð?

Ef RÚV lyti faglegri stjórnun og sinnti lágmarkseftirliti með ritstjórnarefni væru RÚV-málin gegn Samherja aðeins eitt, Seðlabankamálið, en ekki þrjú. Aðalmaðurinn í fyrstu vegferðinni er Helgi Seljan. Þegar ljóst varð að fréttamennska Helga þverbraut allar skráðar og óskráðar siða- og starfsreglur blaðamanna átti yfirstjórn RÚV að grípa í taumana. Farið hefði verið í saumana á vinnubrögðunum og spurt hvernig í veröldinni það gerðist að fölsuð heimild varð undirstaðan að samsæri tveggja ríkisstofnana, Seðlabankans og RÚV, í aðför að einkafyrirtæki. En ekkert var aðhafst.

Helgi og samverkamenn hans drifu sig þegar í næsta leiðangur, Namibíumálið. Áfram sömu vinnubrögðin. Skáldskapur og órar manns, sem er vímuefnasjúklingur og stórfelldur vændiskaupandi; en allt er tekið trúanlegt og alþjóð selt sem sannindi.

Það þurfti engan Einstein að sjá við frumsýningu Namibíu-þáttar RÚV að hér var ekki á ferðinni fréttamennska. ,,RÚV safnar liði til að trúa tilbúningnum," segir í tilfallandi færslu daginn eftir frumsýningu. Þar er vitnað í frétt RÚV, sem unnin var sama kvöld og Kveiksþátturinn var frumsýndur. Tveir fundir höfðu verið skipulagðir af fréttamönnum RÚV, annar var þingflokksfundur Pírata en hinn hópfundur stúdenta. Í fréttinni segir um þingflokksfund Pírata: ,,Þau sátu límd við skjáinn þegar kvikmyndatökumaður fréttastofu heimsótti þau og báðu vinsamlegast um að vera ekki trufluð." Skilaboðin út í samfélagið voru að nú ætti að láta hendur standa fram úr ermum, mæta á götur og torg að öskra um spillingu á Íslandi, sem væri orðin útflutningsvara.

Morgunljóst var til hvers refarnir voru skornir. Það átti að taka Samherja í nefið, sem hafði ekki tekist í Seðlabankamálinu. Í leiðinni að vekja reiðibylgju í samfélaginu til að styrkja dagskrárvald RÚV í opinberri umræðu. Þetta er ekki fréttamennska heldur pólitískur aktívismi.

Ef heil brú væri í yfirstjórn RÚV og dómgreindin óbrjáluð væri tekið á óverjandi vinnubrögðum fréttamanna áður en skaðinn yrði enn meiri. En viðbrögðin voru þau að hefja aðgerðafréttamennsku til skýjanna og hvetja fréttamenn til að halda áfram á sömu braut. Gæði frétta voru ekki metin eftir sannleiksgildi heldur hvort þær sköpuðu úlfúð og óeirð i samfélaginu.

Það leiddi til þriðja RÚV-málsins, tilræði að lífi og heilsu Páls skipstjóra og stuldi á eigum hans. Óvönduð vinnubrögð sem líðast um langa hríð eru hvatning til æ yfirgengilegri háttsemi. Engar hömlur, engin varnaðarorð. Þvert á móti, lestir eru lofaðir, fréttamennska er aukaatriði en samfélagsleg reiðibylgja aðalatriði. Afleiðingin verður skipulagður glæpur.

„Hvað Helga Seljan varðar sérstaklega þá er það sigur fyrir íslenska þjóð og blaðamennsku að þessi öflugi blaðamaður haldi áfram sínum störfum,“ sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri er Helgi fór á hjáleiguna, Stundina, eftir samfellda hörmungarsögu á Efstaleiti í áratug. Þegar æðsti yfirmaðurinn er þeirrar sannfæringar að staðfestur og úrskurðaður brotamaður sé sérstök fyrirmynd verður skiljanleg umbreytingin á Efstaleiti í Glæpaleiti.

RÚV er spilltasta stofnunin í sögu íslenska ríkisins.

One Comment on “Þrjú meint Samherjamál eru öll RÚV-mál”

  1. Er maður ekki búin að vera að lesa um þetta mál í hva 2.ár? Hvar er ákæran eða er búið að stinga henni undir stól að eilífu? Nígería norðursins!

Skildu eftir skilaboð