Eftir Pál Vilhjálmsson:
Stríð var bannorð, tabú, í Evrópu eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Tvö Evrópustríð urðu heimsstríð á 30 árum. Ekki undir nokkrum kringumstæðum mátti Evrópa efna til þriðja hildarleiksins.
Ekki svo að skilja að Evrópa væri í færum að gera eitthvað heimssögulegt árin eftir 1945. Álfan var jaðarsett í heimspólitíkinni þar sem Bandaríkin og Sovétríkin réðu ferðinni, skiptu m.a. Evrópu í vestur og austur.
Kalda stríðinu lauk 1991 með hruni kommúnisma og Sovétríkjanna. Skærur í Júgóslavíu, sem var eitt þeirra ríkja er leystust upp, voru undantekning. Almennt voru umskiptin friðsamleg og siðmenntuð. Hrun Sovétríkjanna er eitt af fáum dæmum í veraldarsögunni að heimsveldi koðnar niður án meiriháttar hörmunga.
Aðeins 30 árum frá lokum kalda stríðsins hefst stríð í Úkraínu sem brýtur tabúið um að Evrópa eigi ekki að stunda villimennsku.
Enda var það ekki Evrópa sem hóf stríðið, heldur Pútín og Rússland, segir Daníel Hannan, vænn maður og hugþekkur sem nokkrum sinnum hefur komið til Íslands að berja andstæðingum ESB eldmóð í brjóst.
Tilfallandi höfundur las greiningu Hannan með athygli. ,,Ólíkt Þýskalandi eftir 1945 hefur Rússland eftir 1990 ekki horfst í augu við fortíð sína," skrifar sá enski. Skásti kosturinn sé algjör ósigur Pútín og Rússlands, heitir það hjá Hannan. Lokaorð greinarinnar eru: ,,Sigrað Rússland yrði á ný tekið í samfélag þjóðanna sem lýðræðissamfélag. Skrítið hvernig hlutirnir verkast."
Hannan gefur sér að Úkraína sé lýðræðisríki á pari við Vestur-Evrópuríki. En landinu var ekki hleypt inn í ESB vegna spillingar og ólýðræðislegra stjórnarhátta. Þá sleppir sá enski að ræða Nató-aðildina, sem Úkraínu var boðin 2008, gagngert til að ögra Rússum, stjórnarbyltingunni 2014 og vanefndum á friðarsamningum kenndum við Minsk.
Greiningin byggir á valkvæðum staðreyndum annars vegar og hins vegar óskhyggju. Engar líkur eru á að ef Rússland gjörtapaði og Pútín færi frá völdum að upp myndi rísa lýðræðislegt Rússland er hagaði sér eins og Evrópa almennt, sem þægur þjónn Bandaríkjanna. Úkraínustríðið er heldur ekki einkaframtak Pútín. Ríkjandi sjónarmið í Rússlandi allar götur frá lokum kalda stríðsins er að útþensla Nató í austur ógni öryggishagsmunum ríkisins.
Í Rússlandi nú á dögum myndi gerast það sama og fyrir hundrað árum, þegar landið tapaði stríði og varð fyrir stjórnarbyltingu. Eftir 1917 tók við nokkurra ára blóðsúthelling, með þátttöku vestrænna ríkja, sem lauk með alræði kommúnistaflokksins og stofnun Sovétríkjanna.
Ógrynni kjarnorkuvopna er í Rússlandi, sem yrðu notuð í fyrirséðum ófriði. Gegn hverjum og af hverjum er óvissu háð. Stríð milli ríkja eru ófyrirséð, borgarastríð enn frekar.
Byltingar búa ekki til lýðræði. Sú franska skóp Napoleón, Stalín var afurð þeirrar rússnesku. Lýðræði verður til með málamiðlun. Virðing fyrir ólíkum hagsmunum er hornsteinn málamiðlana. Þannig fæst friður.