Fullveldi einstaklinga og ríkja: sjálfstæði frá yfirráðum annarra

frettinOrkumál, StjórnmálLeave a Comment

Greinin birtist fyrst á Ögmundur.is

Það er útbreidd skoðun í þjóðfélaginu að fullveldi sé gamaldags. „Deilihagkerfið“ gengur út á samnýtingu hlutanna. Þar eru fá ef nokkur takmörk. Fólk telur að hægt sé að „deila fullveldi“ ríkja [sem er ekki hægt], það deilir bílum, tækjum, leigir fötin sem það stendur í, leigir hús og íbúðir (Airbnb) og fleira í þeim dúr. Fólk deilir jafnvel mökum og sambýlisfólki.

       Þessi þróun er ekki að öllu leyti neikvæð. Sumt er þannig að menn þurfa ekki endilega að eiga það heldur nægir að hafa af því trygg afnot. Það getur t.d. átt við um margs konar tæki og tól sem fólk notar sjaldan. Tækjaleigur eru heldur ekki nýtt fyrirbrigði.

       En þótt það tíðkist að deila hlutum og tækjum, og skiptast á íbúðum, er ekki þar með sagt að hægt sé að deila fullveldi ríkja, með öðrum ríkjum. Fyrst er til að taka að engin heimild er í íslensku stjórnarskránni fyrir slíkri „deilingu“ fullveldis. Strax af þeirri ástæðu er tómt mál að tala um „deilingu fullveldis“. Í öðru lagi samræmist „deilingin“ ekki skilgreiningum á hugtakinu fullveldi.

       Er þá komið að grundvallaratriði. Ef einstaklingur á ekki sjálfur hlut eða tæki merkir það jafnframt að einhver annar á þá hlutinn eða tækið. Eignarrétturinn hverfur ekki þótt fram komi lína frá Davos um að hamingjan felist í eignaleysi almennings.

       Þeir sem fylgst hafa með þróun leigumarkaðar á Íslandi (þar sem stjórnlaust okur og ofbeldi ríkir) vita að séreignarstefna í húsnæðismálum er það eina sem treystandi er á. Að fólk sé ofurselt okrurum og bröskurum er óverjandi stefna. Almennt talað ætti íslensk húsnæðisstefna að snúast um að gera fólki fært að kaupa húsnæði en verða ekki þrælar braskaranna.

       Einhver kann að benda á það að fólk sem kaupir sé í mörgum tilvikum þrælar bankanna í staðinn. Það er hins vegar hluti af góðri húsnæðisstefnu að kjörin (lánakjör, vaxtakjör) séu boðleg almenningi. En jafnvel með þeim vaxtakjörum sem nú bjóðast er þó mun skárri kostur að vera „þræll“ banka en braskara. Þar þarf samt að skoða vel hvert mál fyrir sig, hlutfall útborgunar, hvort lán er verðtryggt eða óverðtryggt, vaxtakjörin og fleira.

Fullveldi einstaklinga

       Lögræði skiptist í sjálfræði og fjárræði. „Sjálfræði felur í sér réttinn til að ráða sjálfur persónulegum högum sínum, öðrum en fjármálum. Fjárræði felur í sér réttinn til að ráða sjálfur fjármálum sínum. Menn verða lögráða, þ.e. bæði sjálfráða og fjárráða, við 18 ára aldur. Ef maður stofnar til hjúskapar fyrir 18 ára aldur er viðkomandi lögráða upp frá því.“[i]

       Þetta skilja allir. Í einfölduðu máli má segja að um sé að ræða „fullveldi einstaklinga“. Þetta er íslenskt fullveldi í hnotskurn sem hefur verið minnkað niður í fullveldi einstaklinga. Í raun gilda sömu sjónarmið um fullveldi Íslands sem ríkis. Það felur í sér rétt íslenska ríkisins meðal annara ríkja, til þess að ráða eigin málum, bæði fjármálum og öðrum mikilvægum málum.

       Af framansögðu geta menn séð hversu fráleit og gáleysisleg umræðan um afsal og „deilingu“ fullveldisins er. Sumir tala fullum fetum eins og fullveldi skipti engu máli og sé jafnvel til bölvunar! Það væri e.t.v. rétt að spyrja það sama fólk hvort það sé tilbúið að afsala sér „persónulegu fullveldi“ og fela það öðrum. Innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér stórlega skert fullveldi Íslands sem ríkis. Hver og einn getur svo mátað það við sjálfan sig.[ii]

Fullveldi aðildarríkja

Bein réttaráhrif

       Ríki sem ekki ræður sér sjálft er dæmt til þess að verða „fótaþurrka“ annara. Fullveldið er forsenda þess að ríki fái staðist. Aðild að Evrópusambandinu má að ýmsu leyti líkja við Gamla sáttmála. Með honum lentu Íslendingar undir vald Noregskonungs, frá 1262-1662 (oft talinn hafa fallið úr gildi með Kópavogsfundinum).

       Upphaf fullveldisafsals aðildarríkja Evrópusambandsins má rekja til tveggja mála Evrópudómstólsins. Bæði þessi mál eru vörður á þeirri leið að ríkin afsali sér mikilvægu fullveldi, en þó með ólíkum hætti. Í fyrsta lagi er það mál 26/62, NV Algemene Transport- en Expeditie Onderneming van Gend & Loos v Netherlands Inland Revenue Administration, frá 1963. Í öðru lagi mál 6/64,  Flaminio Costa v ENEL, frá 1964.

       Í fyrra málinu er staðfest reglan um bein réttaráhrif Evrópuréttar (direct effect) en í hinu síðara reglan um forgang Evrópuréttar (primacy of EU law). Í raun og veru snúast þó bæði þessi mál um forgang Evrópuréttar. Skoðum þetta nánar. Beinum réttaráhrifum er skipt í annars vegar „lóðrétt“ bein réttaráhrifog hins vegar „lárétt“ bein réttaráhrif. Hið fyrrnefnda vísar til sambandsins á milli ríkis og einstaklinga en hið síðarnefnda vísar til sambandsins á milli einstaklinga innbyrðis. Fyrst er að taka fram að bein réttaráhrif eiga ekki við um allar lagagreinar í Evrópurétti. Sumar lagagreinar eru einungis bindandi fyrir ríki, og hægt að framfylgja af hálfu ríkja. Aðrar eru taldar of óljósar til þess að geta skapað einstaklingum bein réttaráhrif.

       Sjálft hugtakið bein réttaráhrif merkir að einstaklingar geta sótt rétt fyrir innlendum dómstólum aðildarríkjanna með beinni vísan til ákveðinna lagagreina í Lissabon-sáttmálanum (Rómarsáttmálanum) og vísan til afleiddrar löggjafar. Þannig er í raun „farið framhjá“ innlendri löggjöf á viðkomandi sviði. Það merkir að þótt innlend ákvæði laga kveði á um ákveðinn rétt, eða takmörkun á honum, skiptir það ekki máli þegar bein réttaráhrif eiga í hlut. Það er hægt að sækja réttinn með beinni vísan til Evrópuréttar.

       Hvað snertir frumlöggjöf [primary law] setti dómstóllinn meginregluna um bein réttaráhrif í van Gend en Loos-dóminum eins og komið er fram. Hins vegar var sett það skilyrði að skuldbindingarnar yrðu að vera nákvæmar, skýrar og skilyrðislausar og að þær mættu ekki kalla á frekari ráðstafanir, hvorki innlendar né evrópskar.

       Meginreglan um bein réttaráhrif snýr einnig að gerðum í afleiddri löggjöf [secondary law], þ.e. gerðum sem samþykktar eru af stofnunum ESB; reglugerðum, tilskipunum og ákvörðunum, sem sprottnar eru af meginreglum og markmiðum sem settar eru fram í sáttmálunum. Hins vegar fer beiting beinna réttaráhrifa eftir tegund athafna.

       Skilyrðin eru þó túlkuð fremur rúmt. Hefur það haft í för með sér að ákvæði sem ekki þykja skýr eða nákvæm hafa engu að síður verið talin hafa bein réttaráhrif. Skilyrðislaus merkir þarna að virkni lagaákvæðis sem um ræðir sé ekki háð öðrum lagaákvæðum. Samt sem áður hefur það ekki staðið í vegi beinna réttaráhrifa, hafi innleiðingarfrestur verið liðinn [date of implementation]. Eins og ráða má af framansögðu er það talsvert háð mati dómara í hverju tilviki hvenær nefnd skilyrði um bein réttaráhrif teljast uppfyllt.[iii]

       Um afleidda löggjöf vísast til 288. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Reglugerðirhafa bein réttaráhrif, bæði „lóðrétt“ og „lárétt“. Upphaflega var talið að tilskipanir hefðu ekki bein réttaráhrif, sökum þess að þær þarf að innleiða. Í málinu 9/70 Grad v Finanzamt Traunstein var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að tilskipanir gætu haft bein réttaráhrif. Það var síðan staðfest í öðru máli, 41/74 Van Duyn v Home Office. Innleiðingarfrestur þarf þó að vera liðinn (mál 148/78 Pubblico Ministero v Ratti).

       Skilyrði þess að tilskipun geti haft bein réttaráhrif eru þau sömu og gilda um einstakar lagagreinar í sáttmálunum, s.s. um nákvæmni og skýrleika, en einnig að tilskipun veiti tiltekinn rétt sem borgari getur byggt kröfu á. Þegar tilskipun hefur bein réttaráhrif gildir það um viðkomandi tilskipun í heild sinni, ekki einungis einstakar lagagreinar hennar. Af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins má ráða að tilskipanir geti einungis haft lóðrétt bein réttaráhrif.[iv] Því verður þó ekki slegið föstu enda réttarþróun háð „duttlungum framtíðarinnar“. Helstu rökin fyrir því að hafna „láréttum“ beinum réttaráhrifum tilskipana eru þau að tilskipanir geti ekki skapað einstaklingum skyldur. En í málinu 91/92 Paola Faccini Dori v Recreb Srl taldi Evrópudómstóllinn að einstaklingar gætu ekki byggt á tilskipun til þess að ná fram rétti gagnvart öðrum einstaklingi [„lárétt“ bein réttaráhrif]. Ákvarðanir (decisions) geta enn fremur haft bein réttaráhrif („lóðrétt“).

       Ákvarðanir geta haft bein réttaráhrif þegar þær vísa til aðildarríkis sem viðtakanda. Dómstóllinn viðurkennir því aðeins bein lóðrétt réttaráhrif ákvarðana (Hansa Fleisch v Landrat des Kreises Schleswig-Flensburg).

Forgangur Evrópuréttar

       Í málinu Flaminio Costa v ENEL urðu mikil þáttaskil í þróun Evrópuréttarins. Dóminn þarf að rýna í samhengi við það sem fram er komið um bein réttaráhrif.

       Málavextir voru þeir að kærandi, Costa, ítalskur ríkisborgari, átti hlutabréf í ítalska rafveitufyrirtækinu Edisonvolta. Hann stóð gegn aðgerðum ríkisins til þess að þjóðnýta raforkuiðnaðinn [lög nr. 1643 frá 6. desember 1962]. Costa taldi að kröfuhafi vegna rafmagnsreikninga hans væri Edisonvolta frekar en hið nýja opinbera fyrirtæki, ENEL. Costa hélt því fram í kjölfarið að þjóðnýting færi í bága við Rómarsáttmálann. Ítalski stjórnlagadómstóllinn sem málið hafði til meðferðar taldi að hinar hefðbundnu lögskýringarreglur, lex posterior derogat legi anteriori/priori ættu að gilda, þar sem nýrri lögin gilda, ef um ósamræmi í lögum er að ræða, sem aftur merkir að nýrri ítalska þjóðnýtingarlöggjöfin skyldi ganga framar ákvæðum Rómarsáttmálans.

      Málinu var hins vegar vísað til Evrópudómstólsins með beiðni um forúrskurð [preliminary ruling] en svo nefnist það þegar málaferli fyrir dómstólum aðildarríkja eru sett í biðstöðu á meðan leitað er álits Evrópudómstólsins, á lagalegum ágreiningsefnum sem snerta túlkun Evrópuréttar. Evrópudómstóllinn komst að annari niðurstöðu. Dómurinn taldi að andstætt hefðbundnum alþjóðasamningum hefði Rómarsaáttmálinn [the EEC Treaty] myndað sitt eigið réttarkerfi sem við gildistöku sáttmálans varð órjúfanlegur hluti af réttarkerfi aðildarríkjanna. [Para 3].

        Hann taldi að skylda aðildarríkja, samkvæmt Rómarsáttmálanum, sem ekki er háð neinum skilyrðum [adoption of any measure either by the States or by the Commission] væri lagaleg skylda og gæti sem slík skapað bein réttaráhrif í tengslum á milli ríkis og einstaklinga. Skyldan yrði hluti af réttarkerfi og lögum aðildarríkjanna sem þannig hefði bein áhrif á borgarana og hefði skapað þeim sérstakan rétt sem dómstólum aðildarríkjanna bæri að standa vörð um. [Para 7].

       Niðurstaðan fól í stuttu máli í sér að dómstólum aðildarríkjanna bæri að leysa lagalegan ágreining á milli Evrópuréttar og landsréttar með innlendri beitingu Evrópuréttar. Þetta merkir á mannamáli forgang Evrópuréttar og hefur löngum verið túlkað þannig að komi til árekstra á milli Evrópuréttar og landsréttar hafi sá fyrrnefndi forgang.

       Þessi atriði eru sjaldan rædd meðal stuðningsmanna aðildar að Evrópusambandinu. En að sjálfsögðu felst mikið fullveldisafsal í þeim reglum og skyldum sem að framan eru reifaðar. Það er meiriháttar ákvörðun að framselja hluta löggjafar-, dóms- og framkvæmdavaldsins til erlendra stofnana. Íslendingar sem þjóð verða alvarlega að velta því fyrir sér hvað slíkt valdaframsal hefur í för með sér og geta þá fyrst hugsað málið út frá sjálfum sér, sbr. það sem áður er sagt um „fullveldi einstaklinga“.

       Fullveldisafsalið er raun er varanlegt þótt einhverjir lýðskrumarar pírata kunni að telja það „afturkræft“. Breytingarnar verða svo djúpstæðar að þær leiðréttast ekki, enda þótt mögulega tækist að komast aftur út úr ESB. Reynsla Breta ætti að vísa mönnum veginn þar.

       Fullyrða má að smáríki verði í afar erfiðri stöðu til þess að segja skilið við allt það „ofbeldisverk“ sem er innbyggt í stofnanakerfi Evrópusambandsins. Það kom vel í ljós t.d. í hruninu og margir hljóta að muna! Þvinganir og hótanir eru hluti af stjórnkerfi ESB – það er öðrum þræði „ofbeldissamband“. Ríkjum sem viðhafa tilburði til sjálfstæðis er hótað og þau síðan dregin fyrir Evrópudómstólinn. Þannig virkar „lýðræðið“ innan ESB.

Meginreglurnar og orkumálin

       Í eldri skrifum hefur komið fram, að evrópska orkustefnan byggir á 194. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Eftir Lissabon-sáttmálann [TFEU] falla orkumálin undir sameiginlegar valdheimildir [shared competence]. „Sameiginlegar valdheimildir“ merkir að bæði Evrópusambandið og aðildarríki þess geta samþykkt lagalega bindandi gerðir (beitt löggjafarvaldi) á viðkomandi málefnasviði. Hins vegar geta aðildarríkin einungis beitt sínum valdheimildum hafi Sambandið ekki gert það eða lýst því yfir að það hyggist ekki gera það.[v] Þetta sýnir enn og aftur að aðildarríkin verða að „bakka“ þegar Evrópusambandið ákveður að beita valdi sínu.

       Meginreglurnar sem að framan eru reifaðar, annars vegar um bein réttaráhrif og hins vegar um forgang Evrópuréttar, hafa að sjálfsögðu þýðingu í samhengi orkupakkanna á innri orkumarkaði Evrópu. Væri Ísland gengið í Evrópusambandið hefðu reglugerðir Sambandsins þegar bein réttaráhrif á Íslandi, auk þess að ganga framar íslenskum rétti (sem þær gera nú þegar).

       Nefndar meginreglur geta gagnast bröskurum og fjárglæframönnum á orkumarkaði einkar vel. Almenningur (neytendur) þarf hins vegar ekki að sækja sérstakan rétt, á sviði orkumála, í krafti beinna réttaráhrifa. Allt sem almenningur þarf er að hafa auðlindir sínar og stjórn þeirra, í friði fyrir spilltum stjórnmálamönnum sem innleiða orkupakka Evrópusambandsins. Það þjónar hagsmunum almennings best.

       Hér er rétt að taka fram að samkeppnisreglurnar, m.a. greinar 101 og 102 í Lissabon-sáttmálanum [TFEU], hafa bein réttaráhrif í samskiptum einstaklinga og skapa, fyrir þá, réttindi og skyldur sem dómstólar aðildarríkja verða að framfylgja. Á reglurnar getur reynt á innri orkumarkaði Evrópu.

       Meint „samkeppni“ á raforkumarkaði gagnast almenningi ekkert. Hún er hins vegar notuð sem „beita“ til þess að ginna fólk til fylgilags við þjófræðið sem innbyggt er í orkustefnu Evrópusambandsins.

Lokaorð

       Mestu framfarir Íslandssögunnar urðu á þeim tíma þegar Ísland hafði óskert fullveldi. Þar má nefna togaraútgerð, uppbyggingu skóla- og menntakerfis, uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og fjölmargt annað. Það sem helst skyggði á var að verðbólga var oft mikil á lýðveldistímanum, eða fram undir 1990, og gengisfellingar nokkuð tíðar.

       Hins vegar var oft uppgangur í atvinnulífinu og lífskjör góð, samanborið við mörg önnur ríki Evrópu. Verðbólgan „hjálpaði“ líka mörgum. Þeir sem byggðu hús töpuðu ekki á því fyrir tíma verðtryggingarinnar. Verðbólgan „greiddi lánin niður“ [þau minnkuðu hratt á verðbólgubálinu] þótt að sama skapi kæmi hún illa við lánveitendur, sparifé marga varð að engu. En sveiflur í efnahagslífi eru ekki nýjar af nálinni, fjarri því. Aðild að Evrópusambandinu er heldur engin töfralausn á þeim.

       Með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu hófst hins vegar atburðarás sem ekki sér fyrir endann á. Það er áberandi, sérstaklega eftir byrjun tíunda áratugar síðustu aldar, að „niðurskurður“ varð allt í einu „lausnarorðið“. Það má spyrja sig: hvað er orðið af öllum framförunum sem áður voru, allri uppbyggingunni? Hvers vegna eru ekki lengur byggðir spítalar á landsbyggðinni, varla skólar? Hvers vegna er viðhald húsa víða allt í skötulíki? Hvers vegna er gatna- og vegakerfið allt að molna í sundur? Hvað skýrir vanda heilbrigðiskerfisins?

       Þessi vandamál ættu ekki að vera til staðar ef aðildin að EES væri jafn dásamleg og sumir vilja vera láta. Að minnsta kosti er ljóst að aðildin hefur ekki hindrað öfugþróunina.

       Stjórnmálamönnum er tamt að tala um samkeppni þegar þeim hentar. Þau „rök“ voru t..d. notuð þegar ákveðið var á Alþingi að eyðileggja stétt leigubílstjóra. Þar sem hins vegar vantar helst „samkeppni“ er á meðal embættismanna og stjórnmálamanna. Þar þarf nauðsynlega að innleiða samkeppni, þannig að sama óhæfa fólkið geti ekki komið í kring stórfelldum þjófnaði á þjóðareigum og þjóðarauði og framsali fullveldis, í blóra við þjóðina.

       Nú er svið raforkumála [sbr. þriðja orkupakkann] undir vaxandi ásókn braskaranna. Þar er áberandi sama „dauða hönd“ stjórnvalda, og allt látið reka á reiðanum, enda óttinn við Evrópusambandið alltaf undirliggjandi. Má kalla stjórnmál undanhaldsins. Dæmi um það eru afar glannaleg áform um vindorkugarða, vítt og breitt um landið. Nú vantar álit Umhverfisstofnunar á norskri skýrslu[vi] frá árinu 2021 og ber nafnið: „Leading Edge erosion and pollution from wind turbine blades“. Í skýrslunni kemur m.a. fram að um 62 kg. af örplasti falla til á ári hverju af spaða hverrar vindrafstöðvar [And an estimated annual emission of microplastics of approx. 62 kg per year per turbine]. Það gerir um 25 tonn árlega í Noregi. Í spöðum vindrafstöðva er Epoxý, sem, öfugt við pólýester, inniheldur 33% Bisfenól A sem talið er mjög skaðlegt heilsu. Stjórnmálamenn eiga að sjálfsögðu að láta þessi mál til sín taka. Eiturefni sem þessi þarf að rannsaka betur.

Góðar stundir!

[i]Stjórnarráð Íslands. Dómsmálaráðuneytið. Lögræði. https://www.stjornarradid.is/verkefni/personurettur/lograedi/

[ii]Sjá einnig: Ronald A. Brand, Sovereignty: The State, the Individual, and the International Legal System in the Twenty First Century, 25 Hastings International and Comparative Law Review 279 (2002). Available at: https://scholarship.law.pitt.edu/fac_articles/39

[iii]Steiner, J., Woods, L., & Twigg-Flesner, C. (2006). EU law (9th ed.). OUP, pp. 89–114.

[iv]Ibid., p. 104.

[v]EUR-Lex. Division of competences within the European Union. https://eur-lex.europa.eu/EN/legal-content/summary/division-of-competences-within-the-european-union.html

[vi]Solberg, A., Rimereit, B.-E., & Weinbach, J. E. (2021, July 15). Leading edge erosion of wind turbine blades: A sampling of research. National Wind Watch. Retrieved January 7, 2023, from https://www.wind-watch.org/documents/leading-edge-erosion-of-wind-turbine-blades-a-sampling-of-research/

Skildu eftir skilaboð