Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:
Tvær glærur frá tveim framhaldsskólum eftir tvo kennara hafa verið í fréttum fyrir að vera áróðurskenndari en svo að hæfi kennslu. Kennararnir eru á framboðslista fyrir vinstriflokka.
Hvað ef kennararnir hefðu verið hægrimenn, annar í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hinn fyrir Miðflokkinn, og gert glærur sem tengdu formann vinstriflokks við fjöldamorðingja annars vegar og hins vegar vinstriflokk við þjóðarmorð?
Hér er tilgáta.
RÚV væri með raðfréttir um innrætingu hægrimanna í skólakerfinu. Ráðherra menntamála yrði látinn svara til saka. Sérfræðingar yrðu kallaðir til á sviði sögu, stjórnmálafræði og siðfræði til að fordæma. Aðrir miðlar s.s. Stundin og Kjarninn, nú Heimildin, kæmu í kjölfarið og legðu sitt af mörkum til að framkalla reiðibylgju.
Á alþingi myndu þingmenn vinstriflokkanna láta til sín heyra og krefjast aðgerða - sem aftur yrðu fréttir á RÚV og fylgimiðlum. Aðrir miðlar sæju sig knúna að sinna málinu með fréttaflutningi, sem þó væri ekki eins herskár, en héldi málinu engu að síður lifandi.
Á samfélagsmiðlum yrði hamast nótt sem nýtan dag, eins og gefur að skilja.
En, sem sagt, kennararnir sem um ræðir eru vinstrimenn. Þannig er það með kennarastéttina í heild, hún er fremur til vinstri en hægri. Sama slagsíða er á fjölmiðlum.
Nærtækt er að rifja upp fréttaumræðu um kennara sem ekki voru í bandalagi vinstrimanna. Snorri í Betel var rekinn úr starfi kennara fyrir að hafa ,,ranga" skoðun á samkynhneigðum. Brottrekstur Snorra var síðar dæmdur ólöglegur.
Kristinn Sigurjónsson lét orð falla um vinnustaðamenningu, þar sem karlar og konur starfa hlið við hlið. Hann ræddi sína meiningu í lokuðum hópi á samfélagsmiðli. Sjónarmiðum Kristins var lekið í fjölmiðla og þá varð fjandinn laus. Kristinn var rekinn úr starfi sem kennari.
Hvorki Snorri né Kristinn héldu fram skoðunum sínum í skólastofunni. Þeir iðkuðu rétt sinn að hafa skoðanir á samfélagsmálum utan vinnustaðarins. Í beinu framhaldi var ræst umræðuvélin sem engu eirir. Áður en auga á festi voru tvímenningarnir atvinnulausir.
Vinstrimönnum í kennarastétt líðst töluvert meira en þeim sem ekki deila ráðandi skoðunum í skólum landsins.
One Comment on “Ef glærukennari væri hægrimaður…”
Prófessorinn í „pópúlisma“ fengi að mala vel og lengi.