Kona sem starfaði í mötuneyti Menntaskólans á Akureyri gerði fyrir helgi dómsátt við rekstraraðila mötuneytisins sem sagði henni upp störfum árið 2021 skv. heimildum Akureyri.net. Konan vildi ekki láta sprauta sig með svokölluðum Covid „bóluefnum,“ og var sagt upp störfum af þeim ástæðum.
Í uppsagnarbréfinu segist rekstraraðili mötuneytisins telja það of áhættusamt að hafa óbólusettan einstakling í vinnu á stað eins og mötuneytinu.
Konan stefndi rekstraraðilanum fyrir dóm og fór fram á skaða- og miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar, og krafðist þess að félaginu yrði gert að greiða málskostnað. Í dómsáttinni felst að konan fær greiddar skaðabætur og miskabætur frá sínum fyrri vinnustað.
Lögfræðingur sem Akureyri.net ræddi við kvaðst ekki vita til þess að hliðstætt mál væri í ferli í dómskerfinu. „Fróðlegt hefði verið að umrætt mál færi lengra svo úrskurður dómara fengist en málinu lýkur við dómsátt,“ segir á miðlinum Akureyri.net
Í stefnunni, sem Fréttin hefur undir höndum, segir m.a.: „Um miðjan nóvember 2021 spurði framkvæmdastjóri stefnda, stefnanda í viðurvist annarra starfsmanna hvort að stefnandi hefði þegið bólusetningu sem hún svaraði neitandi og lét framkvæmdastjórinn þá orð falla um að stefnandi væri í mun meiri hættu á að smitast en þeir sem hefðu þegið bólusetningu. Eftir þetta var öllum samstarfsmönnum stefnanda kunnugt um að hún hefði ekki þegið bólusetningu“.
Þar segir einnig að rétt sé að benda á minnisblað sóttvarnalæknis dags. 17. nóv. 2021 þar sem fram kemur að 60% allra sem smitast af Covid 19 væru fullbólusettir, þannig að ástæðan sem stefndi vísar til, þá er ekki meiri áhætta af stefnanda en af öðrum starfsmönnum stefnda í mötuneytinu, hafi þeir verið bólusettir.