Orðin sem geyma hatrið

frettinHatursorðæða, Pistlar1 Comment

Eftir Svölu Magneu Ásdísardóttur - greinin birtist fyrst á Krossgotur.is

Ríkisstjórn Íslands hyggst nú boða starfsmenn sína á     námskeið um „hatursorðræðu“. Óljóst er hversu hrjáð þjóðin er af hatursorðræðu almennt til að sú ákvörðun sé tekin að verja fjármunum í átakið.

Líklega er hér átt við fordómafull ummæli í garð hælisleitenda eða fólks af öðrum uppruna. Eða kannski hótanir í garð hinsegin fólks. Kannski bara hótanir og niðrandi ummæli almennt. Kannski er hatursorðræða ennþá svo óskilgreint hugtak að það rúmi ekki raunverulega reynslu fólks sem fyrir henni hefur orðið.

Mér verður nefnilega hugsað til undanfarinna ára þar sem bæði hatri og fordómum hefur rignt yfir mig og aðra linnulaust. Ég hef verið uppnefnd með niðrandi orðum oftar en einu sinni. Mér hefur verið útskúfað og sýnd fyrirlitning. Mér hefur verið hótað að best væri að ég og „mínir líkar“ myndu bara drepast. Orðunum mínum og ummælum hefur verið verið eytt óteljandi sinnum. Ég hef verið þögguð, niðurlægð og einangruð. Á köflum mátti ég ekki taka þátt í samfélaginu, ferðast, fara á ýmsa viðburði. Mér var mismunað. Ég var hólfuð niður og sett út í horn sem annars flokks manneskja. Og þetta samþykkti bara fólk. Fólk horfði upp á þetta gerast og sagði ekki neitt. Tók jafnvel þátt í fordæmingunni. Fólk kjaftaði frá og klagaði jafnvel í lögreglu. Svipaður rétttrúnaður og þegar fólk taldi sig vera að gera góðan hlut með því að gefa upp felustaði í seinni heimsstyrjöldinni.

Ég, fullorðin kona og tveggja barna móðir, háskólagengin og lífsreynd, með blaðamannataugina tifandi í mér öllum stundum. Ég var uppnefnd „álhattur“ og „flatearther“ án þess að hafa hugmynd um hvað fólk var að meina með því. Uppnefnd „trumpisti“ og „pútínisti“ þegar ég kom með aðra sýn á meginstraums-narratífið, án þess að ég hafi nokkurn tíma lýst neinum stuðningi við þessa menn.

Af hverju helltist yfir mig hatur fyrir tveimur árum?

Vegna þess að ég tók ákvarðanir varðandi heilsuna mína sem ég taldi að væru bestar fyrir bæði sjálfa mig og samfélagið í heild. Ég ákvað að hafa yfirráð yfir eigin líkama og að fara eftir innsæinu. Því hreysti er dýrmætt og ég trúi á færni ónæmiskerfisins til að takast á við sýkingar og öðlast ónæmi. Ég er ánægð í dag yfir að hafa verið fylgin sjálfri mér, og ekki bara hugsað um eigin hag, heldur einnig varið ómældum tíma í að miðla upplýsingum til annarra af heilum og góðum hug. Þrátt fyrir hatrið og fyrirlitninguna sem ég og „mínir líkar“ höfum mátt þola.

Líklega hefur hatursorðræða ekki verið jafn útbreidd og ríkjandi í íslensku samfélagi og síðastliðin þrjú ár. Líklega hafa hatursfull ummæli aldrei þótt jafn réttlætanleg og þá. Líklega hefur hópi af fólki ekki verið útskúfað úr samfélaginu í jafn stórum stíl og þá.

Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort fræðslunámskeið ríkisstjórnarinnar muni taka mið af öllum birtingarmyndum hatursorðræðu og takast þá á við hana alla, óháð málstaðnum.

En miðað við þróunina síðastliðin ár þá er hætt við því að umrædd fræðsla eigi jafnvel eftir að snúast um að þagga niður í sjónarmiðum sem stangast á við settar áherslur ríkisvaldsins.

One Comment on “Orðin sem geyma hatrið”

  1. Svo sammála þér Þórdís. Finnst þó ég koma út sem sigurvegari fyrir mig, að hafa fylgt innsæinu sem ég er vanur að gera í flestum efnum. Gott hjá þér að skrifa þetta svona – átti auðvelt með að skilja þig. Vel gert!

Skildu eftir skilaboð