Eftir Pál Vilhjálmsson:
,,Eiga konur rétt á öryggi í rýmum sem aðeins eru ætluð konum? Vitanlega. En erum við ekki að brjóta á rétti karla, sem segjast konur, ef við meinum þeim aðgang að aðstöðunni?" Þannig spyr dálkahöfundur Telegraph, Janet Daley.
Mannréttindi verða til í byltingum 18. aldar, þeirri amerísku og frönsku. Náttúruréttur, að sérhver eigi rétt á frelsi til að leita hamingjunnar, var sagður fyrir alla en það tók nokkurn tíma að fá þennan rétt viðurkenndan, t.d. fyrir konur, þræla og minnihlutahópa. Í grófum dráttum fékkst viðurkenningin áratugina eftir seinna stríð, t.d. með mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Mannréttindi sem náttúruréttur gefa sér að frá náttúrunnar hendi séu kynin tvö. Á seinni tíð ber á því sjónarmiði að kynin séu fleiri. Í ofanálag að kyn sé félagsleg breyta, ekki líffræðileg. Einn og sami einstaklingurinn getur verið kona fyrir hádegi, karl síðdegis og ótilgreint kyn að kveldi. Hugarfarið ræður, ekki líffræði.
Hugtakið maður er orðið óljóst ef það sérkenni tapast að maður sé annað tveggja karl- eða kvenkyns. Réttindi, sem byggja á staðreyndum, verða óskýrari þegar vafi leikur á undirstöðunni.
Aldur er enn sem komið er viðurkennd staðreynd. Ef eins færi fyrir aldri og kyni, að hvorttveggja yrði valkvætt, aðeins spurning um hugarfar, yrði ekki lengur hægt að flokka fólk eftir aldri og veita réttindi og þjónustu til samræmis. Fertugur karlmaður gæti sagst fimm ára stúlka og krafist inngöngu á leikskóla; þrítugum gæti liðið eins og sjötugum og heimtað ellilífeyri.
Það er kallaður kynami þegar einhver segist í líkama af röngu kyni. Aldursami yrði þá orð um það ástand að vera í líkama á röngum aldri. Þeir sem eiga erfitt með að ná utan um þessa hugsun ættu að prófa sig áfram með hugvíkkandi efni - þetta er ekki sagt nema öðrum þræði í hálfkæringi.
Mannréttindi eru mannasetningar. Stofnað var til mannréttinda með pólitískri hugmyndafræði. Að sama skapi getur pólitík kippt grundvellinum undan rétti manna til frelsis að leita hamingjunnar.
Janet Daley segir að velviljað einræði hafi þótt besta stjórnskipunin á þeim tíma þegar hugmyndin um algild mannréttindi festi rætur. Óbeislað fjölræði samtímans, með valkvæðum staðreyndum, á í nokkrum erfiðleikum að höndla réttindin. Ranghugmyndir um veruleikann leiða menn í ógöngur. Gildir bæði um einstaklinga og samfélög.
One Comment on “Mannréttindi og lífsins staðreyndir”
Já, það er margt í mörgu. Ég hef haft aldursama í hálfa öld. Verður því svæsnari sem aldur minn hækkar. Er hægt að fá hann lækkaðan í Þjóðskrá? Til dæmis í 25 ár. Flott tala. Yrði mjög sáttur við hana. Allur annar maður. Miklu meira eins og ég upplifi mig. Þeir sem upplifa mig sem gamla kall yrðu veskú að halda kjafti yfir sinni upplifun og ávarpa mig “ungi maður.” Mín upplifun trompar annarra manna upplifun.