Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu. Þar er meðal annars lagt til að boðið verði upp á skyldunámskeið fyrir kjörna fulltrúa, embættismenn og aðra um svokallaða hatursorðræðu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist gjalda varhug við að starfsfólk verði skyldað til að fara á slíkt námskeið. Það kom fram í svari Bjarna við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
„Ég er í prinsippinu að spyrja hvort það sé ásættanlegt að mati formanns Sjálfstæðisflokksins að á Íslandi á 21. öld, frjálslyndu lýðræðisríki eins og það var nú jafnan talið, verði innleitt skyldunámskeið um hugarfar og tjáningu fyrir ríkisstarfsmenn, opinbera starfsmenn almennt og stjórnmálamenn,“ sagði Sigmundur.
Bjarni sagðist ekki hafa séð umrædda tillögu sem forsætisráðherra hefur boðað.
„Ég hef skilið það þannig, varðandi þá umræðu sem átt hefur sér stað um hatursorðræðu, að einhver starfshópur hafi gert þetta að tillögu og forsætisráðherra hyggist fleyta þeirri tillögu hingað inn í þingið. Almennt séð verð ég að segja að ég geld mikinn varhug við því að skylda fólk til að fara á námskeið um einhverja tiltekna hluti og ætla bara að áskilja mér rétt til að skoða tillöguna þegar hún kemur fram; hvers vegna hún er komin fram og hversu líklegt er að hún geti orðið að einhverju gagni yfir höfuð um þessi efni,“ sagði Bjarni.