Vinsæli spjallþátturinn Harmageddon snýr aftur eftir um sextán mánaða hlé. Frá þessu greinir fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason í færslu á samfélagsmiðlum. Tilkynning Frosta fær afar góðar undirtekir og margir aðdándur þáttanna sem fagna þessum gleðilegu tíðindum, enda var þátturinn einn vinsælasti spjallþáttur landsins í yfir áratug.
„Kæru vinir. Ég er kominn aftur í land og hef ákveðið að hefja útsendingar Harmageddon á ný. Að þessu sinni verður þátturinn fáanlegur á efnisveitunni www.brotkast.is,“ skrifar Frosti, en Brotkast er fjölskyldufyrirtæki í eigu hans og Helgu Gabríelu eiginkonu hans.
Þá segir að fyrst um sinn verða birtir sex mismunandi þættir en óljóst er hverjir þáttastjórnendur verða, það muni þó koma í ljós á næstu vikum og mánuðum.
Í viðtali við Visir, segir Frosti að áhorfendur mega búast við látum, miklu fjöri og að ekkert verði skafið af því. „Það er svo þægilegt, þegar maður er sinn eigin herra, að geta sagt það sem allir eru að hugsa en fáir þora að segja.“
Meðstjórnandi Frosta til fjórtán ára var Þorkell Máni Pétursson, en ekki kemur fram hvort hann verði hluti af teyminu á ný.