Eftir Svölu Magneu Ásdísardóttir - greinin birtist fyrst á Krossgötur.is
Ráðstefna með yfirskriftinni „Pandemic strategies, lessons and consequences“ var haldin í Stokkhólmi helgina, 21. – 22. janúar, þar sem farið var í saumana á kórónuveirufaraldrinum í nokkurskonar uppgjöri á honum, með kynningu á vísindarlegum rannsóknum og niðurstöðum. Samtök lækna í Svíþjóð sem kalla sig „Läkaruppropet“ sem þýða má sem „læknaáskorunina“ stóðu fyrir ráðstefnunni og alls voru um 1000 manns í áhorfendastúku.
Dagskráin var þétt skipuð fræðimönnum, prófessorum, vísindamönnum, læknum, hjúkrunarfræðingum, faraldsfræðingum, veirusérfræðingum, bóluefnahönnuðum, krufningarmanni og blaðamanni, sem eiga það flest sameiginlegt að hafa gefið sérfræðilegt mat á framvindu kórónuveirufaraldursins, sem vísindasamfélagið hefur hafnað og meginstraumsfjölmiðlar síðan þaggað. Mörg þeirra segjast hafa horft upp á farsælan starfsferil sinn hrynja og mannorðið eyðileggjast, gjarna vegna falsáróðurs og rógburðar.
Dr. Aseem Malhotra og umframdauðsföllin
Fyrstur til að stíga á stokk var breski hjartalæknirinn Dr. Aseem Malhotra sem telur að mikilvægt sé að fást við heilsufarsvanda og jafnframt útrýma fölskum upplýsingum með því að leyfa „sannreyndum vísindum“ að tala sínu máli. Bendir hann á að um 30.000 óútskýrð umframdauðsföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma hafi átt sér stað í Bretlandi frá upphafi faraldursins, sem ekki sé hægt að rekja til covidveikinda en að rannsóknir sýni hinsvegar fram á tengsl við aukaverkanir af sprautunum. Hann bendir á spilltan iðnað þar sem um 65% af fjármögnun á FDA, Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna, komi frá lyfjafyrirtækjunum sjálfum sem FDA á að hafa eftirlit með.
Malhotra var í upphafi faraldursins ötull talsmaður nýju bóluefnanna en tók að hafa efasemdir á síðasta ári. Þann 13. janúar sl. fór svo allt í háaloft þegar Malhotra kom því að, í sjónvarpsviðtali við bresku fréttastöðina BBC, að rannsóknir séu að leiða það í ljós að covidsprautur feli í sér aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Ekki er lengur hægt að finna umrætt viðtal í hefðbundinni leit á BBC vefnum.
Næstur tók til máls hinn virti vísindamaður Dr Robert Malone sem með rannsóknum sínum og þróunarstarfsemi öðlaðist nokkur einkaleyfi fyrir mRNA-tækni á níunda áratugnum. Hann segist hafa fengið alvarlegar aukaverkanir af covidsprautunum og nærri dáið í kjölfarið. Í erindinu sínu lagði hann áherslu á að mikilvægt sé að líta ekki á sig sem fórnarlamb heldur bardagamann, „not a victim but a warrior“, því að upprennandi stríð sé þegar hafið og að vettvangur þess sé í hugum manna.
Heftur aðgangur að upplýsingum og þöggun
Þá greindi sænski yfirlæknirinn Sven Román frá því að nær ómögulegt reynist að fá aðgang að nánari tölfræðilegum upplýsingum sem tengjast faraldrinum úr sænskum gagnagrunni hjá Heilbrigðsráðuneytinu, „Folkhälsomyndigheten“. Það hafi kostað 10.000 Evrur að sækja um aðgang að upplýsingunum og að í dag, átta mánuðum seinna, hafi þær enn ekki borist.
Annar sænskur læknir, Hans Zingmark, sem starfar meðal annars sem neyðarlæknir í sjúkrabíl, lagði áherslu á að það sé á ábyrgð lækna að greina frá áhyggjum sínum, og því sem þeir verða vitni að í starfi.
Í erindi rannsóknarblaðamannsins Per Shapiro var vakin athygli á því hversu mikilvægt það er að fara varlega með upplýsingar sem dreifast á netinu og að dreifa ekki efni sem getur verið falsáróður því það skemmi fyrir umræðunni sem þarf að eiga sér stað. Hann fékk tvær hjúkrunarkonur upp á svið til sín sem greindu frá þöggunarkúltúrnum innan veggja heilbrigðiskerfisins. Önnur þeirra hafði verið harðlega gagnrýnd fyrir að hvetja sjúklinga til að tilkynna aukaverkanir af sprautunum.
Bandaríkjamennirnir Ryan Cole og Pierre Kory héldu þrumuræður undir nær stanslausu lófaklappi og eða hlátursköllum þegar Ryan Cole til að mynda setti upp álhatt í laginu eins og víkingahjálm á sviðinu. Sagði hann mikilvægt að halda í húmorinn og slá á létta strengi en hann á í hættu að læknamiðstöðinni hans verði lokað vegna ummæla um covid. Birti hann einnig myndir úr starfi sínu sem krufningarlæknir þar sem grunur er á að dauðsföll megi rekja til aukaverkana af völdum covidsprautu
Áhrif gaddpróteina og ónæmiskerfið
Prófessorinn og erfðafræðingurinn Alexandra Henrion-Claude kynnti mat sitt á stöðunni og telur að nauðsynlegt sé að mæla magn „spike-próteina“ í vefjum fólks til að koma í veg fyrir að próteinin safnist upp í líffærum líkamans og valdi sjúkdómum. Hún taldi það lykilatriði til að stöðva þau umframdauðsföll sem sjást nú víða um heim. Þá kynnti hún niðurstöður rannsóknar sem bendi til að jurtin „Honeysuckle“ búi yfir eiginleikum sem brjóti niður „spike-próteinið“
Síðast en ekki síst verður að nefna faraldsfræðinginn og vísindamanninn Geert Vanden Bossche sem hefur frá upphafi faraldursins varað við því að síendurteknar ónæmisaðgerðir gegn covid muni hleypa af stað mörgum bylgjum af nýjum og stökkbreyttum afbrigðum, eða „viral escape“. Hann var þaggaður í kjölfarið en er nú að fá uppreist æru þar sem nýjar rannsóknir benda til þess að tilgáta hans hafi verið rétt. Samspil veirunnar, bóluefnanna og ónæmiskerfisins er afar flókið sagði Bossche, en vegna aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins séu óbólusettir nú best varðir í stöðugum straumi nýrra afbrigða. Ný bók er væntanleg frá Bossche innan skamms sem mun fjalla um það sem hann kallar „The pandemic of immune escape“ og jafnframt vísindarlegar lausnir og tillögur bornar fram.
1000 manna ráðstefna, en engir blaðamenn frá stóru miðlunum
Fyrirlestraröðin á ráðstefnudögunum tveimur var mjög tæmandi og gaf góða heildarmynd af uppgjörinu. Ræðumennirnir voru með fjölbreyttan bakgrunn og einstaklingsbundna afstöðu gagnvart bóluefnum almennt. Um er að ræða nokkra af helstu sérfræðingum heims með þekkingu á mRNA-tækni, faraldsfræði og hjartasjúkdómum.
Ámælisvert er að þrátt fyrir metnaðarfulla ráðstefnu, þar sem mönnum gafst tækifæri á að kynna sér vísindalegt mat fjölda sérfræðinga á því sem átti sér stað í faraldrinum, þá var enginn blaðamaður eða fulltrúi meginstraumsfjölmiðla mættur á staðinn til að fjalla um það sem átti sér stað.
Ekki er nóg með að vísindafólkið hafi verið þaggað eitt og sér heldur var allur viðburðurinn þaggaður og sniðgenginn í heilu lagi.
Greinarhöfundur var á ráðstefnunni og mun fjalla nánar um hana á næstu dögum á vefnum krossgotur.is og víðar, ásamt öðrum fulltrúm félagsins Málfrelsi.
One Comment on “Ráðstefna í Stokkhólmi: Viðbrögð og uppgjör í lok faraldurs”
Var að horfa á þetta í kvöld.. Rétt rangt eitthvað er ykkar að dæma. https://rumble.com/v26g9jm-stew-peters-presents-covenom-series-vol.-1.html