RÚVarar eru undarlega
gagnrýnilausir á
Erdogan. Fyrir nokkrum árum fluttu þeir daglegar fréttir af
Khashoggimálinu í tvo mánuði - beint frá tyrkneskri fréttastofu, að því er virtist.
Af frétt þeirra þann 23 jan. má skilja að eina ástæðan fyrir því að
Erdogan hafnar því að styðja umsókn Svía um inngöngu í
NATO sé Kóranbrenna hins sænsk-danska lögfræðings
Paludans, sem þeir uppnefndu eitt sinn sem fasista. Í frétt RÚV segir einnig að sænskir stjórnmálamenn hafi keppst við að fordæma Kóranbrennuna en
Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, sem hefur áður kallað
Erdogan íslamskan einræðisherra hefur hins vegar fordæmt afsökunarbeiðni forsætisráðherra, Ulf
Kristersen, til allra múslima sem
Paludan hafi móðgað.
Kúrdar óánægðir með sænsku ríkisstjórnina
Málið snýst þó fyrst og fremst um Kúrda í Svíþjóð. Erdogan hafði krafist framsals fjölmargra þeirra gegn því að samþykkja NATO umsóknina, þar á meðal margra sem höfðu fengið sænskan ríkisborgarrétt. Hinn 11 jan.í ár hengdi hópur sem skv. BBC kennir sig við samstöðu með Rojava, sem er það svæði er Kúrdar ráða í Sýrlandi, upp á fótunum brúðu er átti að tákna Erdogan. Sagt er að hópurinn hafi vilja senda Erdogan þau skilaboð að svo gæti farið fyrir honum sem Mússolíni. Utanríkisráðherra Tyrkja kenndi PKK og YPG hópum Kúrda um, en skv. Ankara eru það hryðjuverkahópar. BBC hefur eftir Dagens Nyheter að kúrdísku aktívistarnir hafi viljað sýna stuðning sinn við sænskt lýðræði, sem Ulf Kristersen græfi undan og einn þeirra hafi bætt við að Tyrkland hegðaði sér ekki sem lýðræðisríki.
Þreföld mótmæli um síðustu helgi
Um síðustu helgi höfðu bæði Tyrkir og Kúrdar fengið leyfi til að mótmæla í Stokkhólmi og þá ákvað Chang Frick sem er ritstjóri og eigandi fréttasíðunnar Nyheter i Dag og pistlahöfundur á útvarpsrás Svíþjóðardemókrata að borga mótmælagjaldið fyrir Paludan svo hann gæti einnig verið með. Frick segist hafa gert það í nafni tjáningarfrelsisins, sem eigi undir högg að sækja, og spyr hvort Svíar eigi að þrengja að mótmæla - og tjáningarfrelsi sínu vegna erlends valds. Hafi menn ekki skoðanafrelsi þá sé eins gott að leggja frjálsa fjölmiðla niður. Frick er reyndar af ættum Tatara. Ef til vill sér hann samsvörun við meðferð Stalíns á þeim og meðferðar Erdogans á Kúrdum. Stalín rak Tatara burt af Krímskaga og Erdogan rak Kúrda burt úr Afrin, sem var skráð sem svæði Kúrda á tíma Ottómananna. Frick hefur sagt að það sé sterk mótstaða, bæði frá hægri og vinstri gegn undirlægjuhætti við Tyrki, kröfur þeirra gagnvart Svíum séu út í hött.
Afsökunarbeiðni Ulf Kristersen
Paludan brenndi Kóraninn fyrir framan tyrkneska sendiráðið og var sá viðburður tíðindalaus, ólíkt því sem gerðist í fyrra. En Tyrkir voru ekki hrifnir og mótmæltu í
Istanbul og fleiri stöðum með því að brenna sænska fánann. Þá var það að Ulf
Kristersen baðst afsökunar á
Twitter https://t.co/TMn72yrWTj með því að segja „Tjáningarfrelsi er grunnþáttur lýðræðis. En það sem er löglegt er ekki endilega viðeigandi. Að brenna bækur sem margir telja heilagar er mjög virðingarlaus gerð. Ég vil tjá samúð mína öllum múslimum sem hafa móðgast af því sem gerðist í Stokkhólmi í dag.“
Jimmie Åkesson svaraði honum á
Facebook og sagði m.a. að ríkisstjórnin yrði að virða tjáningarfrelsið, það sé afar hættulegt að „skilja“ og „vorkenna“ þeim öflum er vilja svipta okkur tjáningarfrelsinu með vísan til trúarreglna. Hann segist einnig skilja að sumir hafi þann tilgang að skemma samband Tyrkja og Svía en að það séu takmörk fyrir því hvernig ríkisstjórnin megi tjá sig, ekki síst vegna þess að Svíar búi við ógn frá innlendum
íslamistum og ekki megi gera lítið úr henni. Hann segist ætla að taka málið upp við
Kristersen, en flokkur
Åkesson ver stjórnina falli. Fleiri gagnrýndu ummæli forsætisráðherra og spurði
Markus Allard (
Örebroflokkurinn) hvort menn vildu ekki bara
gera Ankara að höfuðborg Svía og innleiða í leiðinni
sjaríalög.
Yfirlýsing Erdogans
Í tilkynningu frá
Erdogan segir að kosningum í Tyrklandi verði flýtt og þær haldnar 13 maí, 2023. Hann segir að hin viðurstyggilega árás í Svíþjóð (Kóranbrennan) sé móðgun við alla sem virði grunnréttindi og frelsi fólks, og þá einkum múslima. Hann segir að frá tíma Krossferðanna sé íslam nátengt hugmyndinni um „Tyrki“ og þeir séu stoltir af því en að ákveðin hugmyndafræði hafi löngum leitast við að umfaðma hryðjuverkasveitir í nafni lýðræðis. Þessi síðasta gjörð, sem sé árás á trúarvitund 85 milljóna Tyrkja, eða múslima yfirleitt, sé til merkis um að ekkert hafi breyst gegnum aldirnar. Tyrkir hafi sagt það frá upphafi að Svíar geti ekki vænst neinnar aðstoðar frá þeim við að ganga í
NATO svo lengi sem þeir leyfi hryðjuverkasveitum að ganga lausar um götur og alls staðar. Það komi ekki til greina.
Svíar geta sem sagt ekki gengið í NATO á næstunni, landflótta Kúrdar, Chang Frick og Rasmus Paludan hafa séð fyrir því.