Eftir Kristinn Sigurjónsson:
Yfirleitt hefur ekki verið mikið rætt um hvað kennarar segja, nema einhverjum hafi þótt ástæða til að losna við þá eða þagga niður í þeim, þá er gripið til einhvers hálmstrás og það spanað upp í bjálka til að réttlæta brottreksturinn.
Fyrir 3 árum voru stofnuð samtökin Málfrelsi með vefmiðilinn Krossgötur, til að efla málfrelsi og styrkja tjáningarfrelsið. Það var í framhaldi af einhliða umræðu um COVID19. Hefur mest verið fjallað um það mál, en minni gaumur verið gefin að öðrum höftum tjáningarfrelsis.
Aðal vandamál samtímans er að slúður ríður hér húsum og er ráðist á alla sem einhverjum þröngum hópi, en háværum mislíkar og er það gert í nafni tjáningarfrelsis og réttlætis. Ekki er ein einföld leið til að stöðva skítkast og slúður sem dreift er um menn. Ég er ekki viss um að lög um hatursorðræðu dugi, þegar lög um að ekki megi saka menn um refsivert athæfi, duga ekki, þá er tjáningarfrelsi á slúðri og lygum löglegt, sérstaklega ef viðkomandi segir að það sé sín upplifun, og farið er yfir einhver mörk sem engin veit hver eru, en eru bara í huga slúðurberans og fjölmiðlanna.
Kennarar utan kennslu
Vegna umræðu upp á síðkastið um pólitískan áróður í framhaldsskólum, sem fer fram í kennslustofum og hvernig málsvarar þessa áróðurs hafa reynt að verja hann, þá ætla ég að nefna nokkur dæmi þar sem kennarar nutu ekki tjáningarfrelsins og voru reknir og enginn tók upp hanskana fyrir þá, og í sumum tilfellum ekki einu sinni dómstólar sem eiga að dæma eftir lögum og verja tjáningarfrelsi stjórnarskrárinnar.
Brekkuskóli á Akureyri
Í febrúar 2012 ákvað skólanefndarfulltrúi Brekkuskóla, Logi Már Einarsson að segja upp kennara sem hafði gagnrýnt samkynhneigð út frá biblíunni og taldi hann ekki hæfan í barnakennslu. Það voru ekki margir sem tóku upp hanskann fyrir hann, en þó má geta þess að þingkona framsóknarflokksins Eygló Harðardóttir gerði það í nafni málfrelsins en var andsnúin skoðun hans.
Bláskógaskóli í Reykholti
Vorið 2017 þá gagnrýnir kennari, skólastjóra Bláskógaskóla, Krístínu Hreinsdóttir eftir að skyndilegur heilsubrestur fer að hrjá starfsfólk skólans eða þeir sáu sér farborða á öðrum vettvangi, svo skólinn verður hálf mannlaus eftir að skólastjórinn var ráðinn. Þessum kennara er ólöglega sagt upp samkvæmt mati lögfræðings kennarafélagsins. Kennarinn kærði þetta á öll stjórnsýslustig en án árangurs. Eftir mikinn stuðning frá samstarfsmönnum og gagnrýni á skólastjórann, þá sá skólastjórinn að sér og sagði sjálf upp með orðunum „Sá vægir sem vitið hefur meira“ Þessi kennari sem ber hag skólans og nemendanna fyrir brjósti skrifaði að lokum:
„Ég hef engu mikilvægara að tapa en réttinum til að segja sannleikann.“ Þetta eru orð sem fáir þora að segja, en allir ættu að fara eftir.
Háskólinn í Reykjavík
Haustið 2018 hafði lektor við Háskólann í Reykjavík verið að tjá skoðanir sínar um samfélagsumræðu #MeToo og feminismann á lokaðri síðu samfélagsmiðils. Var þetta í kjölfar mikilla ásakana á karlmenn og ræddi hann hugmyndina að aðskilja vinnustað karla og kvenna ásamt gagnrýni á feminismann. DV setti þetta í frétt og sleit algjörlega í sundur og úr samhengi við umræðuna í samfélaginu. Daginn eftir var lektorinn boðaður á fund með þáverandi rektors Ara Kristni Jónssyni og þáverandi mannauðsstjóra Sigríði Elínu Guðlaugsdóttir og honum sagt upp án þess að honum væri gefinn kostur á að segja frá sinni hlið eða skýra mál sitt. Þetta gerðist auk þess á miðri kennsluönn, og kom því nemendum mjög illa. Þetta gerðist hjá stofnun sem vilja kalla sig musteri tjáning-, málfrelsis og rannsókna, þ. e. a. s, í háskóla. Nú brá svo við að þingkonan Helga Vala Helgadóttir studdu þessa brottvísun í viðtali við Brynjar Níelsson.
Menntaskólinn í Reykjavík
Um veturinn 2018-2019 hafði einelti verið ákveðið vandamál í Menntaskólanum í Reykjavík sem blossaði upp þegar Elísabet Siemsen tók við sem rektor. Nokkrir kennarar höfðu samband við menntamálaráðuneytið og vinnumálaeftirlitið vegna starfshátta rektor vegna þess eineltis sem viðgekkst í skólanum. Hún greip til þess ráðs þegar skólinn var styttur úr 4 árum í 3 að hreinsa út óþægilega kennara og fækkaði ríflega í starfsliðinu og lét mjög reynslumikla og góða kennara fara og bar því við að nemendakannanir segðu lítið, því kennarar væru í vinsældarkosningum. Við það má bæta að gamall nemandi sem þurfi ekkert að gera hosur sínar grænar fyrir kennaranum skrifaði eftir að búið var að reka kennarann: „Strangari og hæfari kennara hafði eg aldrei hitt – en hitt var mikilvægara, að hún talaði æ til mín á jafningjaleveli, höfðaði til þess besta í mér og hvatti mig áfram þó svo að allir aðrir vildu heldur snúa við mér bakinu.“
Annar skrifaði: „Einstaklega vel orđađ hjá YYY. Hverju orđi sannara. Hún XXX sér þađ sem ađrir sjá ekki. Afburđa kennari og kjarkmikil kona. MR hefur misst mikilhæfan starfskraft vegna vanhæfni núverandi rektors. Tilbođin ættu ađ streyma til hennar XXX“
Sex kennarar missa vinnuna vegna tjáningar utan kennslu
Í þessum fjórum málum var sex kennurum sagt upp vegna afstöðu þeirra, bæði til yfirmanna og þjóðmálaumræðunnar og algjörlega utan við kennslu, en enginn tekur upp hanskann fyrir þá. Þeir reyndu að leita réttar síns bæði með stjórnsýslukærum og til dómstóla með vægast sagt lélegum árangri. Þegar kennarar verða uppvísir að því að misnota kennsluna til að vera með réttan pólitískan áróður í kennslu, þá rís háskóla- og fjölmiðlafólk og yfirmenn viðkomandi kennara á afturfæturnar til að réttlæta það og verja. Er ekki eitthvað skrítið í þessu samfélagi þegar fámennir en mjög háværir hópar stjórna því, en ekki málefnaleg rök né lög og ekki einu sinni stjórnarskráin.
Athygli er vakin á því Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál verður með fund á morgun fimmtudag kl. 17 hjá Miðflokknum Hamraborg 1, framsögumaður er Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður, allir velkomnir.