Eftir Pál Vilhjálmsson:
Af tólf manna ritstjórn Heimildarinnar eru þrír sakborningar í lögreglurannsókn á byrlun, gagnastuldi og broti á einkalífi. Báðir ritstjórar eru tengdir sakamálinu, Þórður Snær er sakborningur og Ingibjörg Dögg er systir sakborningsins Aðalsteins Kjartanssonar, sem er blaðamaður á Heimildinni. Helgi Seljan rannsóknaritstjóri er að líkindum vitni í sakamálinu sem kennt er við Pál skipstjóra Steingrímsson.
Allt talið eru fimm af tólf manna ritstjórn Heimildarinnar viðloðnir sakamálið. Sex af tólf ef Jón Trausti, eiginmaður Ingibjargar Daggar, er talinn með. Fjölmiðlar eru almennt léleg fjárfesting á efnahagslegan mælikvarða. Fjölmiðill með helming ritstjórnar bendlaða við lögreglurannsókn á sakamáli er stórkostleg orðsporsáhætta fyrir fjárfesta.
En hverjir eru það sem leggja fjármagn í útgáfu sakborningatíðinda? Heimildin er ekki skráð útgáfa hjá Fjölmiðlanefnd sem þó er skylt lögum samkvæmt. Gömlu fjölmiðlarnir, Stundin og Kjarninn, sem runnu inn í Heimildina, eru aftur skráðir á heimasíðu Fjölmiðlanefndar.
Sjálf segir Heimildin ekkert um eigendur útgáfunnar.
En viti menn. Neðst á síðunni „Um Heimildina“ stendur skrifað smáu letri:
© 2023 Heimildin (Útgáfufélagið Stundin ehf.)
Samkvæmt þessu yfirtók Stundin Kjarnann. Er skýringin að ábyrgðarmaður Kjarnans er Þórður Snær ritstjóri? Kjarninn útgáfa á yfir höfði sér dómsmál eftir að sakamálið er til lykta leitt.
Hvers vegna er ekki opinberað hvort og þá hvaða hlut fyrri eigendur Kjarnans fengu í Stundinni? Skammast þeir sín fyrir aðild að útgáfu sakborningatíðinda?
Hvers vegna þetta pukur? Hvað er verið að fela?