RÚV notað í sókn og vörn

frettinKrossgöturLeave a Comment

Eftir Arnar Þór Jónsson:

Greinin birtist fyrst á Krossgötum 28.01.2023

Víða erlendis er að fara fram uppgjör á viðbrögðum stjórnvalda vegna Covid-19. Í Bretlandi, Þýskalandi og víðar hafa komið fram skjöl sem benda til að yfirvöld hafi beitt sálfræðihernaði gagnvart almenningi til að gera fólk meðfærilegra. Er ástæða til að ætla að slíkt hafi ekki átt sér stað hérlendis? Ef slíkt kæmi í ljós myndi það kalla á alvarlega umræðu um hvað telst leyfilegt í samskiptum ríkisvalds við borgarana.

Sjálfstæðir fréttamiðlar kafa á dýptina

Þegar þetta er ritað eru sjálfstæðir fjölmiðlar (lesist: fjölmiðlar sem eru ekki háðir ríki / stórfyrirtækjum) að opinbera upplýsingar sem meginstraumsmiðlarnir keppast um að þegja um, sbr. t.d. hrollvekjandi yfirlýsingar starfsmanns lyfjarisa um það sem helst mætti kalla atlögu að almannaheill. Um þetta hefur Þorsteinn Siglaugsson fjallað betur en nokkur íslenskur blaðamaður, sjá hér og hér.

Íslenski ríkismiðillinn buslar í yfirborðinu

Á meðan hringurinn þrengist um lyfjarisa sem nutu stuðnings ríkisvalds í kófinu (sjá t.d. þetta hér,  þá kýs RÚV með alla sína 5,7 milljarða kr. úr vösum landsmanna að ráðast í gerð „heimildaþáttaraðar um baráttuna við Covid-19“. Er fjármunum landsmanna vel varið í þessa þáttagerð? Verður fjallað um ákvarðanir stjórnvalda með gagnrýnum hætti, út frá faglegum rökum? Svo virðist sem þáttunum sé ekki ætlað að fjalla um um þetta stærsta frelsisskerðingartímabil lýðveldissögunnar út frá rökhyggju, heldur út frá tilfinningum, því þar verður „einblínt á mannlegu hliðina“ samkvæmt baksíðu Morgunblaðsins 29.1.23. Handritið að fyrsta þætti er sannarlega spennuþrungið. Þar er sagt frá „Alice og Dave sem koma í trúlofunarferð til Íslands sem endar með ósköpum. Mikið óveður er á Vestfjörðum og smit koma upp á hjúkrunarheimili í Bolungarvík. Landsmenn hamstra mat og hlífðarfatnaður er á þrotum en þríeykið finnur leið til að fá sendingu til landsins“. Í stuttu máli: RÚV, sem var klappstýra þríeykisins á leið inn í kófið, kveður þau með lofgjörð og hvítþvotti. Þættirnir gætu orðið söguleg heimild um meðvirkni og tilfinningasemi. Þættirnir verða mögulega minnisvarði um það hvernig stjórnvöld, með aðstoð fjölmiðla, ýttu undir ótta og nýttu frumstæða flokkstryggð (e. tribalism) til að framkalla hlýðni, sbr. slagorðið „Við erum öll í þessu saman“. Vestan hafs og austan liggja fyrir skýrar vísbendingar um að atferlissálfræði hafi verið beitt til að stýra hegðun fólks í kófinu. Vísbendingar um þetta hérlendis komu m.a. fram í þeim ummælum forstjóra Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að „hræðsluáróðri“ hefði verið beitt „til að ná til fólks“ og að það hefði „gengið ákaflega vel“, sjá hér.

Í ljósi framangreindra upplýsinga væri ekki óeðlilegt að velta upp þeirri spurningu hvort atferlisstýring yfirvalda hafi stafað af hreinni umhyggju eða hvort hún hafi tekið á sig aðra og dekkri mynd sem kenna má við stjórnsemi og klækjabrögð, en mörkin þarna á milli geta verið mjög óskýr. Ef RÚV tæki á slíkum spurningum og reyndi með heimildavinnu að rýna undir yfirborðið, gæti það mögulega réttlætt hluta þeirra milljarða sem sturtað er í rekstur þess árlega. RÚV er þó sennilega ófært um að sinna þeirri vinnu, því RÚV gekk í eina sæng með yfirvöldum í kófinu. Þetta samkrull stjórnvalda og fjölmiðla á að rannsaka sérstaklega, eins og ég hef raunar kallað eftir, sjá hér.

Hvað sem líður viðleitni íslenskra fjölmiðla og embættismanna til að réttlæta og fegra ákvarðanir íslenskra stjórnvalda í kófinu er óhjákvæmilegt að fyrr eða síðar fari fram heiðarlegt og raunsætt mat á þessu tímabili, þ.m.t. hvernig stjórnarskrárvörðum mannréttindum var kippt úr sambandi í nafni „öryggis“ og réttarríkinu umbreytt í sóttvarnaríki. Eftir slíkri úttekt hef ég kallað á Alþingi með framlagningu þingsályktunartillögu um skipun nefndar til að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldri kórónuveirunnar í ljósi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, sjá:

Slíkt mat mun að líkindum leiða í ljós að tjón hafi verið unnið var á lýðræðisvitund fólks, þingræðinu, efnahagslífinu, lýðheilsu, menntun barna, félagstengslum og heilsufari almennings. Með hverjum deginum sem nú líður vakna fleiri til vitundar um það að stjórnvöld hafi hér yfirstigið mörk meðalhófs og gerst sek um valdníðslu eftir að ljóst var hve hættulítil veiran var langflestum öðrum en öldruðum og langveikum. Ef „heimildaþættir“ RÚV eiga að vera hvítþvottur á þessu tímabili munu þeir eldast illa.

Lokaorð

Ef öryggisþráhyggja fær áfram að grassera í hræddri þjóðarsál er það ávísun á stjórnskipulegar ófarir, þar sem tækniveldi mun leysa lýðveldið af hólmi. Í stað pólitískrar rökræðu og stefnumótunar á þeim grunni munu sérfræðingar gefa út fyrirskipanir og annast eftirlit með þeim afleiðingum að borgaralegt frelsi eyðist smám saman.

Skildu eftir skilaboð