Lífsglaðir níðingar og nautnabelgir í Nicaragua

frettinArnar Sverrisson1 Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Bandaríski blaðamaðurinn og spaugarinn, Lee Camp, er fáum líkur. Í þætti sínum um Nicaragua fer hann á kostum. Hann ber saman líf Bandaríkjamanna og íbúa Nicaragua á grátbroslegan hátt.

Bandarískir áróðursmeistarar finna íbúum og samfélagi í Nicaragua flest til foráttu. Viðskiptabann á þjóðina er réttlætt með mannréttindabrotum, sem þar eru algeng, og ófrelsið skelfilegt, að sögn bandarískra fjölmiðla. Meintir alræðistilburðir leiðtogans, José Daniel Ortega Saavedra (f. 1945), keyra fram úr hófi, samkvæmt sömu fjölmiðlum.

Það er líka ljóður á ráði þjóðar Nicaragua, að hún ætlar í samstarfi við Kínverja um að grafa nýjan skipaskurð milli Kyrrahafs og Atlantshafs. Og svo segir leyniþjónusta Bandaríkjanna, að sjálfur erkifjandi þeirra með hornin og klaufirnar, Vladimir Putin, stundi þarna skuggalegt ráðabrugg, skipuleggi jafnvel innrás í Bandaríkin.

Þrátt fyrir þetta mælist ánægjan með leiðtoga Nicaragua, Daniel Ortega (sem NBC fréttastofan ruglar saman við lepp Bandaríkjanna í Panama, Manuel Antonio Noriega), rúmlega tvöföld á við vinsældir Jóseps Biden; stjórnvöld í Nicaragua eru margfalt vinsælli en stjórnvöld í Bandaríkjunum.

Heimsmet í áhyggjuleysi og hugarró

Íbúar Nicaragua eru sagðir flýja fátækt og ánauð leiðtoga síns í flokkum. En 8.7 milljónir Bandaríkjamanna hafa flúið land hinna frjálsu og hugprúðu, sem státar af öflugu, ofbeldisfullu og stundum banvænu lögregluliði, hneppir milljónir manna í fangelsi, stundar nær linnulausan stríðsrekstur og ákærir fólk fyrir minnstu „yfirsjónir“ eins og „hatursorðræðu“ í gamanmálum. Um 16% Bandaríkjamanna eða rúmar 50 milljónir óska þess, samkvæmt endurteknum skoðanakönnunum, að flytjast búferlum, bara ef þeir gætu.

Og til að bæta gráu ofan á svart eiga íbúar Nicaragua heimsmet í áhyggjuleysi og hugarró, samkvæmt mælingum Gallup. Hvorki meira né minna en 73% þeirra skipa sér í þann flokk (en 67% Íslendinga). Enda þótt 37 milljónir vansælla Bandaríkjamann taki lyftiduft (þunglyndislyf) að staðaldri, komast þeir hvergi nærri íbúum Nicaragua í hamingju og hugarró. Og hvergi taka konur meiri þátt í opinberu lífi en þar. Það er ekki nema von, að gera þurfi árás á samfélag þeirra.

Þjóðin er fámenn, tæpar sjö milljónir. Nicaragua er staðsett í Mið-Ameríku og hefur eins og allflestar þjóða álfunnar þurft að glíma við þrálát afskipti stóra bróður, Bandaríkja Norður-Ameríku. Ríki í Mið-Ameríku og í Karabíska hafinu hafa oft og tíðum verið leppríki þeirra. Auðhringar Bandaríkjamanna hafa valsað um álfuna og arðrænt með stuðningi hersins og leyniþjónustunnar.

En nú vill svo til, að þrátt fyrir tilburði Bandaríkjamanna til litaskrúðsbyltingar árið 2018, þ.e. að beisla óánægju innanlands í þágu stjórnarbyltingar, hefur ekki tekist að velta leiðtoga þeirra af stóli. Þvert á móti nýtur Daníel ámóta vinsæla á heimavelli og dásadjöfullinn, Vladimir Putin, í Rússlandi, sem Bandaríkjamenn eru í þann mund að leggja að velli á vígvöllum Úkraínu.

Sandinsta þjóðfrelsishreyfingin

Samtímasaga í hnotskurn: Daniel Ortega er sem sé leiðtogi Sandinsta þjóðfrelsishreyfingarinnar (Frente Sandinista de Liberación Nactional - Sandinista National Liberation Front – NSLN). Hún hlaut nafn eftir frelsishetju þjóðarinnar í andófinu gegn hernámi Bandaríkjamanna (1927-1933), César Augusto Sandino (1893-1934). Hreyfingin var stofnuð 1962 af kennaranum, Carlos Fonseca Amador (1936-1976), og fleirum.

Frelsishreyfingin gerði uppreisn gegn gerræðislegri stjórn Somoza fjölskyldunnar. Þegar sá síðasti af þeirri ætt, Anastasio Somoza Debayle (1925 – 1980), lýðkjörinn, sagði af sér árið 1979, tók Daniel Ortega við völdum.

Somozaættin ríkti í skjóli Bandaríkja Norður-Ameríku. Þegar henni var velt af stóli árið 1979 hófu Bandaríkjamenn skæruhernað gegn þjóðinni. Ronald Wilson Reagan (1911-2004) setti á stofn sérstakan her til óhæfuverkanna, Contras.

Hernaður Bandaríkjamanna braut gegn alþjóðalögum

Hernaður Bandaríkjamanna stóð yfir allan níunda áratug síðustu aldar. Alþjóðadómstóllinn (International Court of Justice) felldi dóm þess efnis, að hernaður Bandaríkjamanna bryti gegn alþjóðalögum. Þeir skelltu skollaeyrum við þeim dómi.

(Ég rek ekki minni til, að íslensk yfirvöld hafi fordæmt innrás Bandaríkjamanna eða lagt á þau viðskiptabann. Það myndu Katrín og Þórdís Kolbrún vafalaust gera í dag, enda þótt utanríkisstefna Íslendinga felist í að fylgja vinum sínum og velja sér þeirra lið, að sögn Þórdísar Kolbrúnar.)

Daniel Ortega var lýðkjörinn forseti 1984-1990, tapaði síðar fyrir Violetta Chamorro, en náði aftur kjöri árið 2007. Bandaríkjamenn voru viðriðnir þá kosningu. Forseti þeirra, Jimmy Earl Carter (f. 1924), hét því að virða stjórn Daniel.

One Comment on “Lífsglaðir níðingar og nautnabelgir í Nicaragua”

  1. Þær Katrín og Þórdís myndu pottþétt styðja (skæru)hernað Bandaríkjamanna í Nicaragua sem bráða „nauðsyn til að berjast fyrir mannréttindum og tjáningarfrelsi“ því auðvitað myndu vestrænir fjölmiðlar heilaþvo lýðinn og réttlæta eyðilegginguna. Og allur hinn íslenski almúgi myndi vera hjartanlega sammála.

Skildu eftir skilaboð