„Kínverska njósnablöðrumálið“ sem kom upp um daginn vakti ýmist kátínu eða tortryggni í Bandaríkjunum og víðar.
Feykistór kínversk blaðra hátt uppi í háloftunum (e. Stratosphere) sveif einhverntíman inn í bandaríska lofthelgi í Alaska. Þaðan hélt hún yfir Kanada og birtist þann 1. febrúar sl. yfir Montana, þar sem farþegar í almennu farþegaflugi komu auga á hana. Einnig komst í dreifingu TikTok myndband af blöðrunni, sem húsmóðir í Montana sem gáði til veðurs, hafði tekið úti í garði hjá sér.
Fjölmiðlar tóku málið upp og án þess að hika var hún nefnd „Kínverska njósnablaðran“. Uppi varð fótur og fit, og byssuglaðir Bandaríkjamenn vildu óðir skjóta hana niður, á meðan aðrir skemmtu sér við að fylgjast með furðuhlutnum fljúgandi þar sem hann ferðaðist þvert yfir Bandaríkin.
Blaðran svindlaði sér inn fyrir loftvarnir
Framan af vildi Bandaríkjaforseti, Joe Biden, lítið tjá sig um blöðruna, en gagnrýnendur hans hváðu og kröfðust þess að hún yrði skotin niður hið snarasta. „Njósnablaðran“ átti að hafa svifið sem leið lá yfir kjarnorkuskotpalla í Montana, og þaðan yfir herflugvöll í Kansas þar sem frægar B-52 flugvélar bandaríska hersins eru staðsettar.
Málið varð erfitt fyrir forsetann. Hvernig gat þessi kínverska blaðra gerst svo ósvífin að svífa svo að lítið bæri á inn í lofthelgi mesta herveldis heims? Til að bæta gráu ofan á svart, fékk hún að halda leið sinni ótrauð áfram yfir landið þvert. Það var beinlínis ekki hægt að skjóta hana niður. Smá byssukúlugöt gera ekkert þegar þrýstingur innan í og utan á stóreflis blöðrunni er svipaður. Flugskeyti myndi smjúga í gegnum mjúka blöðruna ósprungið og mögulega valda mannfalli og stórtjóni niðri í byggð, án þess að trufla blöðruna að nokkru ráði. Bruni yrði líklega ekki nægilega mikill í þunnu súrefninu í 60 þúsund feta hæð og helíum er ekki eldfimt. Blaðran var ósigrandi.
Blaðran varpar ljósi á það hver má eiga blöðrur
Kínverski sendiherrann var kallaður á teppið og krafinn svara um blöðruna dularfullu. Talsmaður Kína svaraði því til að um „borgaralega“ rannsóknarblöðru til veðurathugana væri að ræða. Hún hafi einfaldlega fokið af leið með vestanáttinni, en erfitt sé að hafa stjórn á villtum blöðrum. Beðist var forláts á blöðrunni og óheppilegu ferðalagi hennar. Kínverjar eru með afbrigðum kurteisir, en bregðast þó ókvæða við sé almennilegheitum þeirra ekki mætt með samsvarandi kurteisi. Þá er sko ekki skafið utan af því.
Bandaríkjamenn voru gallharðir í sinni afstöðu. „Þetta er njósnablaðra!“ „Þetta var innrás!“ Anthony Blinken utanríkisráðherra sagði að „ráðist hafi verið á fullveldi landsins“ og að ferðalag blöðrunnar væri „brot á alþjóðalögum“. Í framhaldinu hætti hann snarlega við fyrirhugaða heimsókn sína til Peking. Blaðran óforskammaða gaf þannig byr undir báða vængi þeim sem vilja elda grátt silfur við Kína. Fyrirhuguð heimsókn Blinken hafði verið skipulögð í þeim tilgangi að draga úr spennu í samskiptum ríkjanna. Þá mátti einu gilda hvort að Bandaríkin, sem jafnan virðast hafin yfir alþjóðalög og reglur sem gilda um aðra, hefðu sjálf gefið út áætlun síðastliðið sumar um að senda sínar eigin blöðrur hvert á land sem þeim sýndist.
Gleði, reiði og sorg yfir örlögum blöðrunnar
Dagar blöðrunnar voru taldir úti fyrir strönd Suður-Karólínu. Bandaríkjaher skaut hana loksins niður með mörghundruð milljarða hátæknivopnum, við æðisgengin fagnaðarlæti strandgesta á Myrtle Beach. Sumum fannst það vandræðalegt, fyrir þær sakir að ef að um njósnablöðru var að ræða, mætti segja að verkefni hennar hafi þá og þegar verið lokið hvort sem er. Bandaríkjamenn vildu bara ná ófétis blöðrunni, bæði til að „bjarga andlitinu“ en einnig til að rannsaka brakið og sanna illan ásetning. Blaðran sprakk og búnaður hennar féll niður á 40 feta dýpi. Enn hefur ekkert spurst af brakinu og ólíklegt er að við fáum að vita meira. Annars vegar gæti það verið „top secret“ og hinsvegar gæti einfaldlega verið um veðurblöðrubúnað að ræða, sem ekki var upphlaupsins í utanríkismálum og margmilljarða flugeldasýningarinnar virði.
Kínverjar brugðust illa við yfir örlögum blöðrunnar. Þeir sögðu vopnuð viðbrögð Bandaríkjanna við blöðrunni hafa verið „óhófleg“ og áskildu sér rétt til að grípa til aðgerða til að rétta hlut eiganda blöðrunnar. Sjálfsagt hefur hún verið alveg fokdýr, en aldrei eins dýr og hátæknivopnin og aðgerðin sem fólst í að granda henni. Woke-hippar í Kaliforníu héldu kertafleytingu og slepptu hvítum blöðrum, til minningar um „kínversku njósnablöðruna“.
Protestors in Los Angeles held a vigil and flew balloons in remembrance of the Chinese Spy Balloon pic.twitter.com/zePZ91YGDv
— Clown World ™ (@ClownWorld_) February 5, 2023
Ógnin af blöðrunni fannst mörgum svo sem ekkert til að tala um, þar sem að stórveldin eigi hvort sem er gervihnattaflota og samfélagsmiðla til að njósna um allt sem þá langar til að vita.
Blöðrur til bjargar Biden-stjórninni
Niðurstaðan af málinu varð sú, að jafnvel þó að almenningur hafi að mestu haft gaman af þessu blöðrumáli, hafa stríðshaukar stjórnvalda í Bandaríkjunum notað það til að kynda undir enn meiri tortryggni og andúð í garð Kína. Á áætlun Bandaríkjanna virðast vera átök á milli ríkjanna, sama hvort þau verði einungis á alþjóða- og viðskiptasviðinu eða með stinnu stáli.
Í öðru lagi áttaði Biden stjórnin sig fljótt á því, að fljúgandi furðuhlutir eru alveg fyrirtaksleið til að beina sjónum kjósenda frá mjög alvarlegum vandamálum forsetatíðar hans. Meginstraumsfjölmiðlarnir þurfa nú ekkert að fjalla um ábyrgð Bandaríkjanna á Nordstream hryðjuverkinu, bandarískt Chernobyl-slys í Ohio, tapað proxy-stríð í Úkraínu, yfirvofandi greiðsluþrot ríkissjóðs, fartölvu Hunter Biden frá Helvíti, bóluefnaskandalinn, opin landamæri, eiturlyfjavandann, sýklavopnaframleiðslu Pentagon og Biden í Úkraínu, hrun innviða, mörg hundruð þúsund heimilslausa og almennt hratt fallandi lífsgæði hins almenna Bandaríkjamanns.
Þau geta einfaldlega blásið upp 99 blöðrur og aðra fljúgandi furðuhluti til að fylla upp í forsíður blaðanna.