Sálfræðingar sem andæfa sálhrellisstjórnvöldum

frettinArnar Sverrisson, COVID-19Leave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Það eru óneitanlega tíðindi til næsta bæjar, þegar félög sálfræðinga/sállæknenda brýna raustina opinberlega um ósvinnu stjórnmálanna. Sálfræðingar beina sjaldnast sjónum sínum út yfir svið einstaklinga og hópa. Þeim hefur heldur ekki verið tamt að taka afstöðu til þjóðþrifamálefna eða siðspillingar valdsins. 

En nú gera breskir bragarbót. Christian Buckland, formaður Sállæknendaráðs (Council for Psychotherapy) þarlendra, hefur nú sent ríkisstjórn sinni opið bréf, er lýtur að aðförum hennar í covid-19 faraldrinum. Þar segir hann m.a.: 

„Það er trú mín, að mér beri atvinnumannsleg skylda til að skrifa þér í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir frekara tjón af völdum siðlausrar beitingar rannsókna og aðferða sálfræðinnar. 

Ég fordæmi heils hugar, hvernig ríkisstjórn Bretlands beitir siðlaust sálfræðilegri tækni til að vekja ótta í brjósti fólks, skömm og sekt, í gervi atferlisvísinda og innsæis, í því skyni að breyta hegðun almennings, án vitundar hans og vilja. … Við urðum einnig vitni að því, hvernig boðskapur ríkisstjórnarinnar stuðlaði að félagslegri vanþóknun og sekt.“ 

Christian gerir einnig að umtalsefni, hvernig blekkingin var samhæfð í málflutningi stjórnvalda og fjölmiðla og hvernig þaggað var niður í heilbrigðisstarfsmönnum, sem viðruðu hugmyndir, andstæðar boðskapi ríkisstjórnarinnar. 

Sálhernaðardeild sett á stofn

Ríkisstjórn Bretlands hefur sett á stofn sálhernaðardeildir til að berjast gegn þjóðinni. Þær ganga undir ýmsum nöfnum eins og „Hnippteymi“ (Nudge Unit eða Behavioural Insights Team) og Sálhernaðardeild (Psychological Warfare Unit). 

Sálhernaðaráætlun eins og „Hugarfylgsnin: Hvernig hafa má áhrif á hegðun í opinberri stefnumótun“ (Mindspace: Influencing behaviour through public policy), er sérstaklega áhugaverð. 

Stjórnvöld eða leyniþjónustur þeirra í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa sýslað með hugstjórnun (mind control) í áratugi, sbr. MK-Ultra áætlun bandarísku leyniþjónustunnar.) 

Í einni hernaðaráætluninni (Scientific Pandemic Insight Group on Behaviours) má t.d. lesa: 

„Enn er það svo, að töluverður fjöldi fólks finnur ekki nægilega fyrir persónulegri ógn.“ Því eru þessi ráð gefin: 

„Hinir sjálfumglöðu verða í auknum mæli að skynja ógnina með því að beina hnitmiðað að þeim tilfinningaþrungnum skilaboðum. [Einnig þarf að beita þá] nauðung og félagslegri vanþóknun.“ 

Bréfritari bendir á, að sumir kynnu ekki að bera sitt barr, eftir slíkar aðfarir. Þær gætu einnig leitt til sundrungar og aukið hættu á sjálfsvígum. 

Ábyrgð og siðareglur sálfræðinga

Christian bendir sálfræðingum líka á ábyrgð sína og góða siði. Hann segir um heilindi og ráðvendni: 

Sálfræðingur starfar af heilindum, þegar heiðarleiki og sannindi ráða för, þegar hann er nákvæmur og samkvæmur sjálfum sér í því, er hann fæst við, í orðum, ákvörðunum, aðferðum og ályktunum. 

Sálfræðingar skulu hafa að leiðarljósi gildi eins og réttsýni, heiðarleika, nákvæmni, skýrleika og sanngirni í samskiptum við hvern og einn og leggja sig fram um að koma á framfæri ráðvendni í hvívetna í starfi og vísindum. 

Lokaorð Christian eru þessi: „Það veldur þungum áhyggjum, að almenningur skuli hafa verið sviptur tækifæri til að gefa upplýst samþykki. [Sama á við um] alvarlegar og hættulegar afleiðingar þess að beita innsæi og tækni atferlisvísinda á andvaralausan almúgann.“ 

Christian gerir orð David Solomon Halpern (f. 1966) að sínum: 

„Að mínum dómi ber það vott um siðleysi breskra stjórnvalda að beita innsæi og sálfræðilegri tækni til að losa úr læðingi tilfinningar eins og ótta, skömm og sekt, síðan í mars 2020. Enn er ekki bitið úr nálinni með afleiðingar, en þær virðast m.a. vera skert tiltrú til stjórnvalda og stofnana þeirra, heilbrigðiskerfis (NHS) og vísindamanna.“ (Úr bókinni: Inside the Nudge Unit: How small changes can make a big difference. David er sálfræðingur, formaður Hnippteymis breskra stjórnvalda.) 

Í þessu sambandi má geta kenninga pólska sálfræðingsins, Andrzej Lobaczewski/Andrew M. Lobaczewski (1921-2007). Hann hefur m.a. skrifað bókina, „Stjórnmálafræðileg illskufræði“ (Ponerologia Polityczna), sem útgefin var á frummálinu árið 1984 og þýdd á ensku ári síðar. Enski titillinn er: „Political Ponerology: A Science on The Nature of Evil adjusted for Political Purposes.“ Aukin útgáfa forlagsins, Red Pill, heitir: „Political Ponerology: The Science of Evil, Psychiatry and the Origins of Totalitarianism.“ 

Höfundur segir rannsóknir sínar og félaganna hafa snúist um „kjarnasálsýki“ (essential psychopathy). Samfélög, sem búa við forystu hinna sálblindu eða geðveiku kallar hann „brjálræði“ eða „sturlunarræði“ (pathocracy). 

Andrzej heldur því fram m.a., að í sérhverju samfélagi stofni siðblindingjar og aðrir afbrigðungar (deviants) á þeirra valdi, félög til leynimakks og undirróðurs. Félög þessi eru bara að litlu leyti á vitorði almennings, enda þótt þau séu iðulega rekin fyrir skattfé þeirra. 

Gervigreind og sálhernaður

Að þessu sögðu má bæta við, að gervigreind er beitt í auknum mæli í sálhernaði. Heimpekingurinn, James Giordano (f. 1953), lýsir þessari þróun eins og hverjum öðrum stríðsvettvangi og aðvarar gegn misnotkun tækninnar. Skyldi engan undra. Nató hefur þegar fundið smjörþefinn. Áætlun þess heitir: „Hugstríðsáætlunin“ (Cognitive Warfare Project). Þar segir m.a.: 

„Hugstríð er því að skilja sem óhefðbundinn hernað, þar sem tölvutækni (cyber) er beitt til að skapa hugarfarsbreytingu og nýttir eru hleypidómar eða spegilvirk (sjálfhverf) hugsun (reflexive thinking) til að brengla hugarfar, hafa áhrif á ákvarðanatöku og koma í veg fyrir hegðun, sem hefði neikvæðar afleiðingar, hvort heldur sem einstaklingur eða múgur á í hlut.“ 

Höfundur umrædds bréfs segir, að nú sé mál að linni hugstríði eða sálhrellingum yfirvalda. Þetta tekur bandaríski blaðamaðurinn, Alex Berenson, undir. Hann segir: 

„Öll misstum við vini. Flest okkar ættingja líka. Það var vitaskuld ekki covidveiran sem varð þeim að fjörtjóni. Þó eru þar sorglegar undantekningar á, fólk yfir miðjum áttræðisaldri eða óhóflega vel í holdum eða fársjúkt. Við misstum vini sökum aðgerða stjórnvalda og lokunaræðis, sem fjölmiðlar kyntu undir ….“ 

Glæpsamlegt athæfi stjórnvalda er nú víða til skoðunar, nema á Íslandi. Ríkisstjórn Florída hefur þegar hafið rannsókn á lyfjafyrirtækjunum og „covid-vísindunum.“ Texas hefur nú einnig bæst í hópinn. Samtímis stendur lögsókn víða yfir, nema á Íslandi.

Tilvísanir með grein má finna hér.

Skildu eftir skilaboð