Barbara Björnsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefur sýknað atvinnurekanda af ákæru fyrir að hafa nauðgað samstarfskonu sinni á hótelherbergi í starfsmannaferð fyrir átta árum. Öll persónueinkenni hafa verið fjarlægð úr dómnum sem og nákvæmar dagsetningar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu RÚV er fyrirtækið meðalstórt.
Um var að ræða giftan mann sem reyndi að þvinga samstarfskonu sína til samneytis í stefnumótunarferð á vegum fyrirtækisins árið 2015, þar sem þau bæði störfuðu.
Hagsmunaárekstur? Verjandi ákærða er lögmaður dómarans
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson er lögmaður Barböru Björnsdóttur, dómarans sem sýknaði atvinnurekandann í nauðgunarmálinu. Eins og mörgum er kunnugt um hefur Barbara lagt fram kæru á hendur Margréti Friðriksdóttur, ritstjóra Fréttarinnar.
Málavextir eru í stuttu máli þeir að Barbara sakfelldi Margréti fyrir meintar líflátshótanir í héraðsdómi 9. febrúar sl. gegn Semu Erlu Serdaroglu. Atvikið átti sér stað fyrir u.þ.b. fimm árum síðan fyrir utan bar við Grensásveg sem var í eigu Semu og fjölskyldu hennar. Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar.
Næsta dag, eða þann 10. febrúar sl., skrifaði Margrét færslu á facebook síðu sína þar sem hún kallaði Barböru dómara „lausláta mellu“, sagði hana hafa falsað vitnisburð í dómsmálinu, o.fl. Nokkrum dögum síðar leggur Barbara fram áðurnefnda kæru til lögreglu gegn Margréti fyrir meiðyrði.
Óvenjulegt þykir að mati lögfræðinga, sem Fréttin náði tali af, að Barbara skuli ekki hafa lýst sig vanhæfa í „nauðgunarmálinu“ í ljósi þess að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hafi í millitíðinni tekið að sér að vera hennar lögmaður í ærumeiðingarmáli gegn Margréti. Vilhjálmur skilaði inn gögnum til lögreglu þann 13. febrúar sl. og er rannsókn málsins enn í gangi hjá lögreglu. (Héraðssaksóknari vísaði í vikunni málinu aftur til lögreglu). Hefð er ekki heldur fyrir því að lögregla taki við ærumeiðingarmálum og vísar ávallt til þess að um einkamál sé að ræða.
Dómurinn í „nauðgunarmálinu“ féll tveimur mánuðum síðar eða þann 11. apríl sl. Málið var þingfest í héraðsdómi þann 24. nóvember á síðasta ári. Barbara var því enn að vinna í „nauðgunarmálinu“ þar sem Vilhjálmur er verjandi ákærða, þegar hún fær Vilhjálm til sín sem lögmann í ærumeiðingarmáli fyrir sig sjálfa.
Þá þykir málskostnaðurinn sem Barbara dæmir Vilhjálmi óvenju hár, en þóknun Vilhjálms sem greiðist úr ríkissjóði, hljóðar upp á 4.218.480 krónur að undanskildum virðisauka.
Sálfræðiskýrsla um ósæmilega hegðun tveggja dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttarinnar er fyrirliggjandi sálfræðiskýrsla frá sálfræði- og ráðgjafastofunni Líf og Sál vegna ósæmilegrar hegðunar tveggja dómara, þeirra Barböru Björnsdóttur héraðsdómara og Símonar Sigvaldasonar núverandi landsréttardómara. Atvikið átti sér stað í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur í Austurstræti fyrir nokkrum árum þegar Símon starfaði þar sem dómari. Vilhjálmur segir aftur á móti í lögregluskýrslunni í máli Margrétar að ásakanir hennar í garð Barböru eigi ekki við nein rök að styðjast. Sú fullyrðing stangast þó að öllu leyti á við umrædda sálfræðiskýrslu.
Dómstólasýslunni var einnig gerð grein fyrir máli dómaranna tveggja og fékk stofnunin samkvæmt heimildum Fréttarinnar afrit af umræddri sálfræðiskýrslu um ósæmilegt hátterni dómaranna innan veggja dómshússins. Samkvæmt sömu heimildum var það Benedikt Bogason formaður stjórnar Dómstólasýslunnar og núverandi hæstaréttardómari, sem ákvað að aðhafast ekkert frekar í málinu. Símon Sigvaldason og Barbara Björnsdóttir gegndu á sama tíma einnig stöðu dómstjóra og aðstoðardómstjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Blaðamaður ræddi við Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur, réttargæslumann brotaþola, sem segir að henni finnst sýknudómurinn undarlegur í ljósi þess að ákærði hafi játað brotið að hluta. Ákæruvaldið hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar, en fresturinn til þess rennur út þann 11. maí næstkomandi.
Dóminn má lesa hér.