Vísindi veirutíma – er kominn tími á að endurskrifa söguna?

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Áður en lengra er haldið: Ég legg til að einhver afriti í heilu lagi gagnagrunn Vísindavefs Háskóla Íslands. Þar er svo margt að eldast illa að því hlýtur að verða breytt eða kippt út svo sagnfræðingar sögunnar ruglist ekki í ríminu.

Vísindi veirutíma voru svolítið merkileg. Aldrei áður höfum við átt að samþykkja jafnhratt breytingar á því sem var kallað vísindi. Þegar ekki stendur steinn yfir steini er svo látið eins og ekkert hafi í skorist. Engin afsökunarbeiðni. Engar leiðréttingar.

Það er því hollt að rifja aðeins upp vísindi veirutíma og verða nokkur dæmi af vísindavefnum áðurnefnda tekin.

11. janúar 2022: Bólusetning við COVID-19, sérstaklega með mRNA-bóluefnum og eftir örvunarskammt, minnkar líkur á því að smitast af COVID-19. Einnig er vert að taka fram að þeir sem fá COVID-19 eftir bólusetningu, smita í mun skemmri tíma en óbólusettir með sjúkdóminn. Þannig er smithætta af völdum bólusettra mun minni en hjá þeim sem hafa ekki verið bólusettir.

30. desember 2020: Öryggi bóluefnisins reyndist gott, aukaverkanir voru oftast skammvinnar (1-2 dagar), einkum vægur eða meðal sársauki á stungustað, þreyta og höfuðverkur, svipaðar og af öðrum veirubóluefnum, þó heldur algengari eftir seinni skammt en fyrri. Tíðni alvarlegra aukaverkana var lág og sambærileg milli hópsins sem fékk bóluefni og hópsins sem fékk lyfleysu.

6. ágúst 2020: Rannsóknir hafa sýnt, án nokkurs vafa, að andlitsgrímur geta komið í veg fyrir COVID-19-smit á milli einstaklinga.

21. október 2020: Áfram er mikilvægt að vernda sérstaklega einstaklinga með áhættuþætti í núverandi árferði en það skiptir ekki síður máli að vernda alla, óháð áhættuhópi.

16. desember 2020: Svo má ekki gleyma því að til að stöðva útbreiðslu veirunnar þarf að ná ónæmi hjá um það bil 60% allra fullorðinna manna og kvenna og þess vegna ekki endilega þörf á jafngóðum árangri hjá þeim elstu.

Í stuttu máli má segja að ekkert af þessum vísindum hafi staðist tímans tönn. Grímur eru gagnslausar, öryggi bóluefnanna og virkni þeirra hvoru tveggja hræðilegt, að vernda alla frekar en bara áhættuhópa framlengdi bara faraldurinn og gerði kostnaðinn gríðarlegan, og aldrei var staðnæmst með sprauturnar og sagt að nú þyrfti ekki að sprauta meira, enda voru þær gagnslausar og komu ekki í veg fyrir að smitin æddu í gegnum samfélagið á meðan hjarðónæminu var haldið í skefjum.

Hvað ætli vísindin séu að segja okkur í dag sem verður öllum seinna - frekar en bara sumum núna - ljóst að standist ekki? Hvað með loftslagsvísindin? Hagfræðikenningar? Allskyns önnur lyf? Vísindi mataræðis? Félagsvísindin eins og þau leggja sig (t.d. kynjafræði)? Maður spyr sig óneitanlega hvort vísindin séu einfaldlega búin að missa vitið, bókstaflega. Hvort maður eigi ekki að gleyma þessum nútímalegu vísindum og horfa frekar á nokkra fyrirlestra með Dr. Richard Feynmann?

Skildu eftir skilaboð