Ohf-væðingin mistókst

frettinInnlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

OR er opinbert hlutafélag, stjórnendur þess hafa haldið upplýsingum leyndum ekki aðeins fyrir borgarbúum heldur einnig fyrir sjálfri borgarstjórn.

Á sínum tíma þegar fundið var að því í borgarstjórn Reykjavíkur hvernig staðið var að byggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur (OR) stóðu fulltrúar vinstri meirihlutans upp hver á fætur öðrum og sökuðu gagnrýnendur um árás á starfsfólk OR. Sagan sýnir að gagnrýni á þessa húsbyggingu og hvernig að henni var staðið af hálfu framkvæmdaraðilans var réttmæt. Kostnaður var langt umfram það sem sagt var fyrir utan að frágangi hússins var stórlega ábótavant eins og endursmíði stórs hluta þess sýnir.

OR er opinbert hlutafélag og hvað eftir annað hafa stjórnendur þess haldið upplýsingum leyndum ekki aðeins fyrir borgarbúum heldur einnig fyrir sjálfri borgarstjórn. Pukrið í kringum eitt af undirfélögum OR, Ljósleiðarann, er með ólíkindum og nú er reynt að halda því fram á opinberum vettvangi að einkavæðing fyrirtækisins að hluta sé ekki einkavæðing.

Vormorgunn við Reykjavíkurtjörn.

Menningin sem verður til innan einstakra fyrirtækja er mismunandi. Undir merkjum OR hefur orðið til hrokafull afstaða í garð allra gagnrýnenda sem reynt er að kveða í kútinn af stórlæti.

Því miður á þetta ekki aðeins við um ohf-fyrirtækið OR heldur er það eitt helsta sérkenni opinberra hlutafélaga (ohf-fyrirtækja). Á sínum tíma hallaðist ég að því að ohf-væðing kynni að vera skynsamlegt milliskref til að tengja viðhorf í einkarekstri inn í opinberan rekstur. Þrátt fyrir dapurleg kynni af OR þótti mér tilraunin þess virði að hún yrði gerð.

Nú er ég hins vegar hjartanlega sammála því sem fram kemur í grein Óla Björns Kárasonar, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, í Morgunblaðinu í dag (10. maí) þegar hann segir að ohf-væðing ríkisfyrirtækja hafi verið „tilraun sem mistókst“. Óli Björn líkir „ohf-væðingunni við eitur sem seytlar um æðar atvinnulífsins“.

Þetta er óhugnanleg lýsing en réttmæt. Þessi félög eiga sinn þátt í að gagnrýni á hlutverk ríkisins í atvinnu- og efnahagslífinu eykst. Skilin á milli þess sem samstaða er um að sé „eðlilegur“ ríkisrekstur og hins þar sem ríkið teygir anga sína inn á svið sem telja verður „eðlilegt“ að einkaaðilar sinni verða óljós.

„Í skjóli eignarhalds er sótt inn á samkeppnismarkaði og lagt til atlögu við einkafyrirtæki – lítil og stór,“ segir Óli Björn.

Í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um fjölda stöðugilda hjá ríkinu eru þessi opinberu hlutafélög nefnd til sögunnar: Betri samgöngur, Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús, Isavia, Matís, Neyðarlínan, Orkubú Vestfjarða, Rarik, Íslandspóstur, Nýr Landspítali, Landsbankinn og Íslandsbanki. Flestir starfsmenn eru hjá (1) Isavia, (2) Landsbanka og (3) Íslandsbanka.

Það er stutt í sama viðhorf og var í borgarstjórn fyrir 20 árum að umræður um rekstrarform eða framkvæmdir ohf-fyrirtækja séu ögranir við starfsmenn fyrirtækjanna. Það er auðvitað alrangt. Sé starfsemin nauðsynleg verður henni haldið áfram hver sem umgjörðin er. Þá er löng og augljós reynsla fyrir að einkarekstur er skilvirkari og hagkvæmari en opinber rekstur. Hatrammar tilraunir til að hafna því sjónarmiði eru dæmdar til að misheppnast.

Skildu eftir skilaboð