Málfrelsi boðar til fundar: Samtökin ’78 sitja fyrir svörum

frettinInnlentLeave a Comment

Samtökin Málfrelsi sendu frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Talsverð umræða hefur átt sér stað undanfarið um málefni transfólks og hinsegin fólks og fræðslu um þau í skólum. Skoðanir hafa verið mjög skiptar og ásakanir gengið á víxl og mörgum verið afar heitt í hamsi.

Inn í þetta hafa svo blandast heitar umræður í samfélaginu vegna plakata fyrir “Viku 6” þar sem meðal annars má sjá teiknaðar myndir af börnum að taka myndir af sér allsberum, með þeim skilaboðum að þau megi alveg gera slíkt. Þetta hefur farið fyrir brjóstið á mörgum og voru myndirnar teknar niður eða færðar í amk. einum skóla, en þær höfðu einnig hangið inni í matsal grunnskóla þar sem lítil börn gátu skoðað þau. Þótt þetta málefni tengist ekki fyrrnefndri umræðu beint hefur það blandast inn í hana og ekki orðið til þess að draga úr togstreitunni milli andstæðra póla. Rétt er að taka skýrt fram að umrædd plaköt eru á vegum sveitarfélaga, ekki samtaka hinsegin fólks.

Hinseginfræðsla er að mestu á vegum Samtakanna 78 og forsvars- og félagsfólk þeirra hefur verið áberandi í umræðunni um þessi mál. Áhugi á efninu einskorðast hins vegar alls ekki við þennan hóp. Meðal annars hafa kennarar tekið þátt í umræðunni, sálfræðingar og stjórnmálamenn, og einnig fólk úr röðum samkynhneigðra sem hefur aðrar áherslur en Samtökin 78.

Margir vinklar á þessari umræðu, bæði hérlendis og erlendis snerta á álitamálum varðandi tjáningarfrelsi, hatursorðræðu og skoðanafrelsi fólks. Sú stífa togstreita milli andstæðra sjónarmiða sem talsvert hefur orðið vart í opinberri umræðu kann meðal annars að eiga sér rót í því að í stað þess að taka samtalið lokast fólk gjarna inni í bergmálshellum og þannig magnast togstreitan upp.

Málfrelsi lítur á það sem hlutverk sitt að ýta undir upplýsta umræðu um umdeild mál. Við efnum því til fundar um þetta málefni, sem haldinn verður á Kringlukránni mánudaginn 15. maí kl. 19:30. Þar mun Þorbjörg Þorvaldsdóttir, verkefnstýra Samtakanna 78 halda stutt erindi um hinseginfræðslu samtakanna og í kjölfarið verður opnað á spurningar úr sal. Fundarstjóri verður Baldur Benjamín Sveinsson, stjórnarmaður í Málfrelsi.

Fundurinn er ætlaður til að bjóða fólki upp á gagnrýna og málefnalega umræðu um þessi mál.“

Skildu eftir skilaboð