Hitafundur hjá Málfrelsi og Samtökunum ’78

frettinHinsegin málefni, InnlentLeave a Comment

Samtökin Málfrelsi stóðu fyrir fjölmennum fundi í kvöld þar sem Þorbjörg Þorvaldsdóttir verkefnastjóri Samtakanna ´78 stóð fyrir svörum í tengslum við fræðslu samtakanna í skólum landsins. Þorbjörg sagði fræðsluna ganga út á að börn upplifi sig ekki út undan þó foreldrar þeirra eða þau sjálf væru öðruvísi, að öllum ætti að finnast þeir tilheyra samfélaginu. Hún fullyrti að flestir væru sáttir við þeirra fræðslustörf í skólum landsins.

Fundurinn gekk í heildina vel fyrir sig og var fólk almennt sammála um að umræður og skoðanaskipti varðandi málefnið væru af hinu góða.  Mörgum spurningum var beint að Þorbjörgu og nokkrum fundargestum var nokkuð heitt í hamsi og þurfti fundarstjóri annað slagið að grípa inn í.

Eitt af veggspjöldum sem hafa hangið uppi í skólum

Einhverjir töldu að plaköt með yfirskriftinni Kynferðisleg hegðun sem tengjast Viku6 í grunnskólum Reykjavíkurborgar og hafa hangið á veggjum í skólum, kæmu frá Samtökunum ´78 en Þorbjörg sagði samtökin ekkert hafa með plakötin að gera og ekki heldur Viku6.

Aðrir töldu samtökin fara of geyst með fræðslu sína inn í skólana og fannst að umræðuna ætti fyrst að taka meðal foreldra skólabarna. Einn fundargestana var á þeirri skoðun að efnið ætti að fá samþykki menntamálaráðuneytisins, eins og annað kennsluefni, áður en það yrði kennt í skólum.

Eldur Deville, formaður Samtakana 22, var meðal fundargesta og bar upp svokallaða hormónablokkera sem gefnir væru ungmennum sem upplifðu sig trans. Eldur benti á rannsóknir sem segja áhrif meðferðarinnar ekki vera afturkræfa en Þorbjörg vildi meina hið gagnstæða.

Arndís Ósk Hauksdóttir prestur var einnig á staðnum og benti á að ekki væri leyfilegt að fara með kennslu í kristinfræði í skólana og sama ætti við um önnur lífskoðunarfélög og spurði hún Þorbjörgu hvort Samtökin´78 væru ekki líka lífskoðunarfélag. Þorbjörg svaraði því til að svo væri ekki, heldur væru samtökin mannréttindasamtök.

Fundurinn var tekin upp og ætti að vera aðgengilegur á síðu Málfrelsis, Krossgötur.is, í fyrramálið.

Skildu eftir skilaboð