Mynd Jödu Pinkett Smith um Kleópötru fær hörmulega dóma

frettinIngibjörg Gísladóttir, KvikmyndirLeave a Comment

Nýleg heimildamynd um Kleópötru VII drottningu fær lægstu einkunn sem sést hefur á Rotten Tomatoes, aðeins 2% almennings líkaði við hana en 10% gagnrýnenda. Á Greek City Times má sjá hvaða myndir hafa komist næst henni í óvinsældum - ein þeirra var með Nicholas Cage. Ástæða óvinsældanna mun vera sú helst að Egyptar hafa móðgast yfir því að Kleópatra er sýnd svört á hörund, þegar hún hafi verið af makedónskum-grískum ættum og líta þeir á það sem sögufölsun að gera hana svarta enda er til af henni brjóstmynd frá 1.öld f. Kr. og myndir af henni má líta á fjölmörgum myntum er hún lét slá og er hún sýnd þar með mjótt framstætt nef og þunnar varir.

Ráðherra fornleifamála Egypta, Zahi Hawass, hefur kallað eftir því að Egyptar framleiði sjálfir mynd um Kleópötru til mótvægis við lygar Vesturlandabúa um hana. Hann leggur áherslu á að hún yrði gerð á ensku og sýnd á alþjóðlegum rásum, meðal annars á Discovery Channel. Hawass segir frá því á Egypt Independent að 15 ára námsmaður hafi gefið út sína eigin mynd um Kleópötru á samfélagsmiðlum því honum hafi fundist sem væri verið að stela menningu sinni.

Það er Jada Pinkett Smith, eiginkona Will Smith, sem er framleiðandinn. Myndin um Kleópötru er önnur í röðinni af heimildamyndum um svartar drottningar í Afríku. Sú fyrsta er um stríðsdrottninguna Njinga sem var uppi á 17. öld og réði yfir svæði þar sem nú er Angola. „Við fáum ekki oft að heyra sögur um svartar drottningar, og það er mjög mikilvægt fyrir mig, en einnig fyrir dóttur mína og allt samfélag mitt að þekkja þessar sögur því þær eru svo margar,“ er haft eftir Jödu í kynningu Netflix á myndinni. Einnig segir að ákvörðunin um að velja Adele James, leikkonu af blönduðum uppruna til að leika Kleópötru hafi verið vegna aldagamallar umræðu um kynþátt drottningarinnar. Í stjórnartíð hennar hafi verið fjölmenningar- og fjölrasasamfélag í Egyptalandi. Ólíklegt sé að það hafi verið skráð af hvaða kynþætti hún væri og uppruni móður hennar og ömmu sé ekki þekktur.

Auðvitað var kynþáttur Kleópötru ekki skráður, það hugtak hafði ekki verið fundið upp. Kleópatra var af ætt Ptólemíanna er ríktu frá 323 f.Kr. til 30 f.Kr. Sá fyrsti þeirra til að stjórna Egyptalandi var hershöfðingi Alexanders mikla, Ptólemy I Soter, en hinn síðasti var sonur Kleópötru og e.t.v. Sesars. Sagnfræðingar hafa talið að Ptólemíarnir hafi haldið völdunum innan ættarinnar og systkini jafnvel verið pöruð saman. Því er líklegast að hún hafi litið út svipað og brjóstmyndin af henni sem geymd er í Berlín sýnir.

Frægust til að leika Kleópötru er Elísabet Taylor, og margar merkar leikkonur hafa mátað sig við hlutverkið. Trúlega hefur þó engin þeirra verið ættuð frá Grísku Makedóníu og nær allar fegurri en Kleópatra er sögð hafa verið - en þar var heldur ekki um heimildamyndir að ræða. Egyptar hafa fullan rétt til að móðgast yfir því að kona ótengd landi þeirra noti efni sem allir Egyptar þekkja til að slá keilur í sjálfsmyndarpólitík BNA og jafnframt er það sorglegt að Jada Pinkett Smith skyldi ekki hafa fundið fleiri svartar drottningar til að vera stolt af - en freistast til að eigna sér Kleópötru.

Skildu eftir skilaboð