Heiðarleg viðvörun: Evrópuregluverk um sjálfbærni verður innleitt á Íslandi

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Evrópuregluverk um sjálfbærni verður innleitt á Íslandi. Ég má til með að hrósa blaðamanni fyrir að veita fyrirtækjum heiðarlega viðvörun:

Breyt­ing­arn­ar eru um­tals­verðar og að lík­ind­um víðtæk­ari en mörg fyr­ir­tæki gera sér í grein fyr­ir. Þrátt fyr­ir að lög­gjöf­in taki einkum til stórra fyr­ir­tækja og fjár­mála­fyr­ir­tækja, þá mun starf­semi lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja ekki fara var­hluta af reglu­verk­inu.

Hér er um að ræða tilraun Evrópusambandsins til að stýra því hvert fjármagni einkafyrirtækja er beint. Eða eins og blaðamaður útskýrir ágætlega:

Reglu­verk­inu er ekki aðeins ætlað að koma í veg fyr­ir grænþvott, held­ur einnig að stýra fjár­magni inn í sjálfbærnivegferðina og hafa þannig áhrif á sjálf­bær­ar fjár­fest­ing­ar þar sem fjár­mál fyr­ir­tækja og sjálf­bærni verða í reynd samof­in með þeim hætti að fjár­hags­leg­ar ákv­arðanir fyr­ir­tækja og fjár­festa taki mið af sjálf­bærni í framtíðinni.

Þetta þýðir í raun að ef fjárfestir ákveður að fjárfesta í gaslind í Afríku þá bítur regluverkið hann verr en ef hann hefði ákveðið að hjálpa ríkum Vesturlandabúa að setja upp vindmyllu.

Svona afskiptasemi er ekki nýtt fyrirbæri. Sem dæmi má nefna að félagsskapur siðblindra milljarðamæringa, oft kallaður World Economic Forum (WEF), leggur til hin svokölluðu ESG-viðmið í fjárfestingum. WEF segir að þau viðmið muni styrkja efnahagsþróun Afríku en raunin er sú að vestrænar fjárfestingar eru á flótta frá helstu lífæðum Afríku vegna slíkra viðmiða. Rök hafa verið færð fyrir því að ESG-vænar fjárfestingar skili bæði lélegri ávöxtun og engu betri árangri á mælikvarða ESG-viðmiðanna en aðrar fjárfestingar.

Evrópusambandið ætlar núna að endurtaka mistök WEF með hörðum lögum og reglum sem bíta. Ekki virðist vera um valkvæð ákvæði að ræða. Samkeppnishæfni Evrópu fær enn eitt skotið í fótinn og fórnarlömbin eru fátækir heimshlutar sem vantar fyrst og fremst fjárfestingar í innviðum og hagkvæmri orkuöflun svo þeir geti byrjað að byggja upp hagkerfi sín - og fjárfestar fá í staðinn góða ávöxtun.

Kannski Kínverjarnir fylli í skarðið, með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir? Evrópa getur þá haldið áfram að klappa sér á bakið fyrir að hafa bjargað heiminum á meðan áhrif hennar og efnahagur heldur áfram að breytast í rústir.

Skildu eftir skilaboð