Er kominn tími á mið-vinstri stjórn í landinu?

frettinInnlent, Jón Magnússon, Stjórnmál2 Comments

Jón Magnússon skrifar:

Viðtal við Kristrúnu Flosadóttur í Morgunblaðinu í dag er um margt athyglisvert. Svo virðist sem Kristrún sé ekki haldin þeim vinstri derringi og dreissugheitum, sem hefur einkennt flestar flokkssystur hennar enda fékk hún pólitískt uppeldi annars staðar en þær. 

Kristrún leggur málin fram með jákvæðum hætti og vísar til að Samfylkingin sé hluti alþjóðlegrar hreyfingar sósíaldemókrata. Ég vona að hún sé með því m.a. að vísa til stefnu danskra sósíaldemókrata í hælisleitendamálum. Þeir nálgast þau mál af skynsemi, andstætt þeirri ómálefnalegu og þjóðfjandsamlegu umræðu sem einkennt hefur afstöðu Samfylkingarinnar til þeirra mála.

Þá er athyglisvert, að Kristrún útilokar ekki stjórnarsamvinnu við neinn flokk, en segir að mikilvægt sé að ná þeim styrk, að Samfylkingin þurfi ekki á Sjálfstæðisflokknum að halda. M.ö.o. þá þýðir það að hún hugsi að líklegasta stjórnarsamvinnan verði með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki nema verulegar breytingar verði á fylgi flokkana. 

Þó Kristrún sé almennt jákvæð og athyglisverður stjórnmálamaður, þá kom það óþægilega á óvart, að hún sér að það geti helst orðið til varnar vorum sóma, að auka skattlagningu á borgarana. 

Í viðtalinu segir hún orðrétt: „Það þarf að byrja á fjármálaráðuneytinu og endurskoða tekjuhliðina því stór ástæða þess að við erum með halla á ríkissjóði er ekki bara útgjaldavandi heldur tekjuvandi.“

Kristrún er því ekki stjórnmálamaður, sem boðar aðhald og sparnað þrátt fyrir að bruðlið og óhófið blasi við hvar sem litið er í ríkisbúskapnum. Hennar lausn eins og annarra sósíaldemókrata því miður er að leggja auknar byrðar á skattgreiðendur. 

Því miður kveður því ekki við nýjan og ferskan tón hjá Kristrúnu hvað þetta varðar heldur samsamar hún sig rækilega með sitjandi stjórnmálaelítu, sem hefur aukið útgjöld ríkissjóðs svo gríðarlega á undanförnum árum, að ekki verður séð hvernig á að leysa vandann sem við blasir nema með markvissum niðurskurði útgjalda. 

En niðurskurður útgjalda ríkis og sveitarfélaga hefur aldrei verið atriði sem sósíaldemókratar hafa í langri sögu sinni haft áhyggjur af. Því miður virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé fyrir nokkru kominn í sömu vegferð og sósíalistarnir. 

Vandinn er sá að núna er ekkert pólitískt afl í landinu sem berst fyrir aðhaldi og sparnaði. Það kann ekki góðri lukku að stýra. 

Ég hafði vonað að nýr formaður Samfylkingarinnar hefði einmitt boðað afturhvarf frá eyðslustefnunni sem bitnar alltaf á endanum á þeim sem minnst hafa fyrir sig að leggja. 

2 Comments on “Er kominn tími á mið-vinstri stjórn í landinu?”

 1. Hún hefur ekkert nýtt fram að færa.
  Ég spái flokknum hennar sama fylgi og seinast, nema það hafi bókstaflega dáið frá henni.
  Hinir flokkarnir eru allir eins, eða svo svipaðir að engu skiftir, svo það er tilganslítið fyrir fólk að breyta, jafnvel þó það vildi. Allt litlar Samfylkingar. Allir vilja fylgi frá sömu 25% kjósenda.
  Sýnist mér.
  Eina ástæðan fyrir því að Píratar eru á þingi er að þeir líta á yfirborðinu öðruvísi út. Þeir líta eins út undir yfirborðinu. Þeir litu út fyir að bjóða eitthvað nýtt. Þeir gætu valið sér flokk til þess að renna saman við, bara einn af handahófi, og stækkað hann aðeins. Annað geta þeir ekki.
  Kristrún ætti að reyna að sannfæra þá, annars fær hún bara 9% aftur.

 2. NEI!

  Það er engin munur á drullu og skít, ekkert af þessu fólki er hæft til nokkurs skapaðar hlutar, það þarf fólk sem vinnur fyrir samfélagið í landinu og er með sjálfstæða hugsun í utanríkismálum.

  Ísland úr NATO og það strax!

Skildu eftir skilaboð