Bjórframleiðandi milli steins og sleggju í bandarísku menningarstríði

frettinErlentLeave a Comment

Helstu framleiðsluvörur Anheuser-Busch eru Budweiser, Michelob, Stella Artois, og Beck´s en það er Bud Light sem styrr stendur um. Yfirmaður markaðsmála Bud Light, Alissa Heinerscheid, vildi lífga upp á ímynd drykkjarins og lét framleiða dósir með mynd af trans áhrifavaldinum Dylan Mulvaney og fékk hann/hana til að leika í auglýsingu til að kynna vöruna. Til að gera langa sögu stutta þá tóku neytendur drykkjarins þeirri breytingu afar illa, m.a. sendi Kid Rock frá sér myndband þar sem hann notaði Bud Light dósir til skotæfinga, og datt sala á Bud Light niður um 24% í átjándu viku ársins miðað við sama tíma í fyrra og Alissa er komin í leyfi frá störfum.

Hið áður ópólitíska fyrirtæki reyndi að bakka frá þessarri mislukkuðu auglýsingabrellu en þá tilkynnti stærsti LGBTQ lobbýistahópur þjóðarinnar, The Human Rights Campaign, að jafnréttisvottun Anheuser-Busch hvað Regnbogahópinn varðaði verði felld niður og fyrirtækið hefði 90 daga til að bregðast við. Hætta er á að missi fyrirtækið þessa vottun þá valdi það því erfiðleikum hjá fjármálastofnunum sem hafa innleitt hjá sér ESG og CEI (Corporate Equality Index) skráningar og hóta LGBTQ stuðningsmenn því einnig að hætta að drekka Bud Light.

Fyrrum forstjóri sölu- og dreifingardeildar Anheuser-Busch, Anson Frericks, sagði í viðtali við Fox Business neytendurnir fyndu nú að þeir hefðu áhrif og að sniðgöngunni myndi ekki ljúka fyrr en stjórnendurnir bæðust afsökunar og það fengist á hreint hver markhópur þeirra væri. Hann segir að það sé auðvelt fyrir neytendur að finna sér annan bjór, þeir séu allir svipaðir. Það sem greini á milli þeirra sé ímyndin. Hvað Bud Light varðaði þá hafi hann verið tengdur við fótbolta, íþróttir og tónlist - ekki pólitík. Þess vegna hafi bæði Republikanar og Demókratar drukkið hann til jafns.

En hver er þessi manneskja sem bandarískum íhaldsmönnum er svo illa við? Candance Owens lýsir Dylan t.d. sem fullorðnum pervert, Washington Examiner er með gott yfirlit. Dylan er 26 ára og leiklistarmenntaður. Á covidtímanum uppgötvaði hann það tvennt sem gerði hann frægan, Tik Tok og að hann væri transkona, eða öllu heldur -stúlka því hann kom út úr skápnum sem smástelpa. Dylan sendi frá sér myndband daglega - og aðdáendahópurinn stækkaði. Honum var að meira að segja boðið í Hvíta húsið til að hitta Biden. Eftir að ár var liðið frá umbreytingunni streymdu tilboðin inn, m.a. frá Bud Light og skömmu síðar var hann fenginn til að sýna leggings og íþróttabrjóstahaldara fyrir Nike. Við það tækifæri sagði transkonan þekkta Caitlyn Jenner að það væri „ömurlegt að sjá svo þekkt bandarískt fyrirtæki gerast svo innilega woke!“ Dylan er í apríl sagður hafa 10.8 milljónir TikTok fylgenda og hafa sankað að sér 1.5 milljónum dollara. Tik Tok reyndist honum vel.

https://youtu.be/HOF5D09wGuE

Hluti af óbeit íhaldsmanna er að svo gæti virst sem markmið Alissu Heinerscheid hefði verið að kom því inn hjá ólögráða börnum (notendum Tik Tok) að Bud Light væri frábær bjór en svo eru margir líka þreyttir á kröfugerðum LBGTQ hópsins og eindregnum vilja meðlima hans til að hafa áhrif á börn. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þessu Bud Light máli reiðir af, því önnur fyrirtæki eiga það til að strjúka viðskiptavinum sínum öfugt til að fá fullt ESG og CEI skorblað. Ekki er óhugsandi að fjöldahreyfing myndist til að sniðganga slík fyrirtæki og þá myndu þau sem ekki eru undir áhrifavaldi woke fjármálaveldisins, þ.e. í einkaeigu, standa vel að vígi.

Skildu eftir skilaboð