Björn Bjarnason skrifar:
Á sömu blaðsíðu Morgunblaðsins og þessi frétt um að alla aukningu íbúa Reykjavíkur frá 1996 megi rekja til aðfluttra útlendinga er frétt um að þjóðsönginn eigi ekki að syngja 17. júní á Egilsstöðum.
Fram kemur í nýjum gögnum frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði Reykjavíkurborgar að innflytjendur í Reykjavík á síðasta ári hafi verið 30.407 talsins. Þar af voru um 55% karlar eða 16.601, en konur 45% eða 13.806. Íbúar Reykjavíkur sem ekki eru innflytjendur voru 105.281. Rúmlega einn af hverjum fimm íbúum Reykjavíkur á síðasta ári var því innflytjandi, eða 22,4%.
Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í dag (22. maí). Þar segir jafnframt að fjöldi íbúa í Reykjavík sem ekki eru innflytjendur hafi lítið breyst frá árinu 1996. Fjöldinn var þá 102.787 en árið 2022 aðeins tæpum 2,4% meiri. Árið 1996 voru skráðir 2.700 innflytjendur í Reykjavík sem voru þá 2,5% af heildinni. Árið 2022 voru innflytjendur rúmlega 11 sinnum fleiri í Reykjavík en árið 1996.
Tölurnar tala sínu máli um gífurlega breytingu á íbúaþróun höfuðborgarinnar sem mestan hluta þessa tímabils hefur lotið stjórn vinstri flokka undir forystu þeirra sem stóðu að stofnun Samfylkingarinnar árið 2000 en hún, VG og Píratar hafa lagt mest kapp á útlendingastefnu í anda samtaka gegn landamærum og reis stuðningur Dags B. Eggertsson og meirihluta hans hæst í mars 2019 þegar flóttamannatjöld risu með leyfi borgarstjórnar á Austurvelli.
Á tíma þessara miklu þjóðfélagsbreytinga hefur borgarstjórn Reykjavíkur lagt höfuðáherslu á þéttingu byggðar í borginni sem leitt hefur til þess að húsnæðisverð hefur farið yfir öll mörk. Fréttir berast reglulega um að lúxusíbúðir seljist á metverði í byggingum sem eru helsta tákn íbúðaframkvæmda undir forystu Samfylkingarinnar.
Nú er svo komið að félagsmálaráðherra VG og borgarstjóri sáu sig neydda til að rita undir samning um það sem þeir kalla skjólgarða, það er flóttamannabúðir í höfuðborginni. Hvar þessir garðar rísa er óráðið en tilkynnt var um samvinnu um þá með viðhöfn.
Á sömu blaðsíðu Morgunblaðsins og þessi frétt um að alla aukningu íbúa Reykjavíkur frá 1996 megi rekja til aðfluttra útlendinga segir að á síðasta fundi byggðarráðs Múlaþings hafi verið felld tillaga frá Þresti Jónssyni, áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um að þjóðsöngurinn Ó, guð vors lands verði sunginn að minnsta kosti einu sinni á þjóðhátíðardaginn, helst við inngöngu Fjallkonunnar á 17. júní-hátíðarhöldunum á Egilsstöðum.
Þröstur lagði fram tillöguna vegna þess að hann saknaði þjóðsöngsins á 17. júní-hátíðinni í fyrra. Tillagan var felld með þremur atkvæðum og tveir sátu hjá að sögn Þrastar sem skýrir ekki „nákvæmlega“ frá því sem gerðist á fundinum en segir þó:
„Það er eins og það sé eitthvað „púkó“ að syngja þjóðsönginn af því að guð sé nefndur. Ég veit ekki hvað á að segja annað, þótt ég vilji ekki fullyrða að það sé ástæðan.“
Eitt er að syngja ekki þjóðsönginn 17. júní vegna getu- eða áhugaleysis, annað að samþykkja í byggðaráði að gera það alls ekki.
Þessar tvær fréttir á sömu blaðsíðu gera mann einfaldlega orðlausan.
One Comment on “Aðfluttir í Reykjavík – enginn þjóðsöngur”
Og hvað ef við syngjum nú Þjóðsönginn og það verður samt skíta veður.Já er þá guð dauður?