Eftir Pál Vilhjálmsson:
Verðbólga á evru-svæðinu er 7%. Í Bretlandi er hún tæp 9%. Ísland er með verðbólgu í takt við nærsveitir. Bandaríkin búa við 5% verðbólgu.
Skilvirkasta ráð seðlabanka í baráttu við verðbólgu er að hækka stýrivexti. Fjármagn verður dýrara, bæði til neyslu og fjárfestinga. Þenslan í efnahagskerfinu dregst saman og verðbólga hjaðnar, það veit á betri lífskjör til framtíðar.
En hvað er að segja um hávaðann í gær þegar Seðlabanki Íslands tilkynnti hærri stýrivexti? RÚV líkti Íslandi við Simbabve og nánast boðaði til fjöldamótmæla.
Jú, það er kynning á leikriti Samfylkingar. Plottið er að telja almenningi trú um að Samfylkingin kunni betur en aðrir að tryggja lífskjörin.
En hver er stefna Samfylkingar? Flokkurinn vill fjölga hælisleitendum til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Flokkurinn vill auka ríkisútgjöld og hækka laun til að lækka verðbólgu; fjölga opinberum starfsmönnum til að sýna aðhald í ríkisrekstri.
Allt eru þetta mótsagnir. En út á það gengur málflutningur Samfylkingar, að telja fólki trú um að hvítt sé svart.