Eftir Geir Ágústsson:
Þær endurnýjast í sífellu, þessar lygar sem dynja á okkur úr helstu fjölmiðlum og úr munni stjórnmálamanna og borgaðra blaðamannafulltrúa þeirra (sem kalla sig stundum blaðamenn). En þær bráðna líka margar hverjar jafnóðum (apabóla, einhver?).
Flestum þessara lyga trúum við enda varla stætt á öðru. Þeir sem gleypa lygarnar aðeins of hægt eru stimplaðir samsæriskenningasmiðir, það er lokað á aðgang þeirra á samfélagsmiðlum og þeir fá ekki birtingar á greinum né boð á fundi. Hver vill vera kallaður Pútín-sleikja og stuðningsmaður þess að gamalt fólk deyi úr veiru? Fáir hafa bein í slíkt.
En mögulega voru veirutímar of mikið. Lygarnar voru keyrðar fast og hratt og fylgt eftir með sektum og reglugerðum. Við fengum engan tíma til að ræða hlutina og ákvarðanir voru teknar á bak við lokaðar dyr. Þetta virkaði á tímabili en að lokum fékk fólk nóg og yfirvöld fóru að draga í land.
Margir áttuðu sig á þessu og sáu í gegnum þvæluna og spyrntu við fótum. En það gerðist eitthvað annað og meira hjá mörgum sem vöknuðu úr værum blundi á veirutímum. Það myndast vantraust á yfirvöld almennt. Hvaða fleiri lygar er verið að segja okkur? Standast þær einhverja skoðun? Eru mögulega einhver stærri hagsmunaöfl þar að baki, sem koma lýðræðislegu stjórnarfyrirkomulagi ekkert við?
Hvað með loftslagsumræðuna?
Stríðsleiðangra vestrænna ríkja víða um heim?
Ákall til barna um að afneita líffræðilegu kyni sínu, en til vara að efast um að það sé rétt skráð?
Fyrirkomulag peningaútgáfu?
Aðförina að hagkvæmum bílum almennings?
Endalausar kröfur um að flokka rusl niður í smæstu frumeindir?
Ágæti þess að gera einstæða feður að fátækum þunglyndissjúklingum?
Þann valkost við réttarríkið að það sé einfaldlega nóg að ásaka einhvern um eitthvað til að koma viðkomandi úr starfi?
Mögulega leynast sannleikskorn hér og þar en í öllum tilvikum - þeim sem hér hafa verið talin upp meðal annarra - er áróðurinn keyrður svo fast með einróma rödd úr öllum áttum að það má þykja furðuleg einsleitni í samfélagi sem að nafninu til á að virða frelsi af ýmsu tagi.
Margir eru að vakna úr dáinu, sem betur fer, og byrjaðir að hugsa málin upp á nýtt. Sérstaklega fagna ég þessu í tilviki loftslagsumræðu, en sífellt er verið að skerða lífskjör okkar í nafni hennar, og mögulega verður hreinlega ómögulegt fyrir venjulegt fólk að ferðast í bílum og flugvélum í náinni framtíð.
Nema auðvitað að nógu margir spyrni við fótum.
Um helgina var ég viðstaddur Stúdentafögnuð Menntaskólans í Reykjavík og sat þar með 25 ára útskriftarárgangi mínum í sal með stúdentum frá unglingsaldri til hárrar elli. Ég var viðstaddur nákvæmlega eins viðburð fyrir 25 árum (þó í öðrum sal), þá nýstúdent, og bæði skiptin alveg geggjuð. Það rann upp fyrir mér að stundum er best að breyta engu. Ef það er ekki bilað, ekki reyna að laga það. Kannski þetta hugarfar sé nothæft í baráttunni gegn nýjustu þvælu yfirvalda.