Hvaða réttindi vantar okkur? Uhhh…

frettinInnlent, Íris Erlingsdóttir1 Comment

Íris Erlingsdóttir skrifar:

Fyrir tilviljun heyrði ég bláendann af viðtali á National Public Radio við einn skipuleggjenda verkfalls kvenna og "kvára" á Íslandi. Hún var spurð hvaða réttindum íslenskar konur, á "jafnréttasta" landi í heimi, hefðu enn ekki náð. Hún gat ekki svarað því, nema enn væri langt í land til að fullkomnu jafnrétti væri náð. Auðvitað væri vandamálið líka "the patriarchy" – feðraveldið. Eins og margar aðrar "frétta"stofur sem ekki trúa á raunveruleika og líffræði er NPR ekki alvöru fréttastofa, svo ekki var innt eftir frekari svörum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var "leiðréttur launamunur karla og kvenna árið 2020 4,1%... Kynbundin skipting vinnumarkaðarins í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar... Karlar sem búa einir voru líklegri en konur sem búa einar til að lenda fyrir neðan lágtekjumörk. Rúm 23% einstæðra karla voru fyrir neðan mörkin á móti 9% einstæðra kvenna."

Miklar framfarir hafa orðið í jafnréttismálum síðan fyrsti kvennaverkfallið var haldið árið 1975. Þegar skipuleggjendur kvennaverkfallsins geta ekki einu sinni nefnt einn rétt eða réttindi sem berjast þarf fyrir í þágu kvenna, er fullkomlega réttmætt að spyrja hvort það sé virkilega þörf fyrir kvennaverkfalls-"frídag." Sérstaklega vegna þess að á Íslandi hefur kvenréttindahreyfingin úrkynjast í að fagna þessum áföngum með því að gefa hverjum sem er ekki aðeins áunnin réttindi kvenna heldur bókstaflega skilgreininguna á hvað það þýðir að vera kona. Bara hvað sem er! Hver sem er! Allir eru velkomnir í kvenkynið! Auðvitað segir það sig sjálft að þeir sem ekki geta skilgreint orðið "kona" á vitrænan hátt, geta ekki barist fyrir réttindum kvenna. Skipuleggjendur kvenna­verk­fallsins sem "hyggjast birta tossa­lista yfir at­vinnu­rek­endur sem hamla þátt­töku kvenna og 'kvára' í kvenna­verk­fallinu eru greinilega í þeim hópi. "Kvár" – fyrir þá sem lifa í raunveruleikanum – er enn eitt dæmið um hina andfélagslegu tungumálaverkfræði transhugmyndafræðinnar: "kynhlutlaust orð, hliðstætt við karl og kona," eins og það séu í alvöru til kynlausir einstaklingar."

Þetta verkfall ætti að auðvelda vinnuveitendum að halda sína eigin lista* – yfir lúxus-ríkisborgarana, sjálfselskendurna, athyglissjúklingana og sjálfskipuðu fórnarlömbin með fornöfn, forréttindatilköll og ranghugmyndir sem troðið er miskunnarlaust ofan í vinnufélaga og samborgara með hvatningu og aðstoð stjórnvalda að viðlögum refsingum.

Það væri óskandi að á framtíðar kvennaverkfallsdögum myndu íslenskir karlmenn, sem bera hitann og þungann af byggingu og viðhaldi "feðraveldisins" – verkamenn, húsasmiðir, sjómenn, vélvirkjar, bændur, rafvirkjar, pípulagningamenn, lögreglumenn, bifélavirkjar, vöruflutningabílstjórar o.fl. o.fl. – taka höndum saman og einkenna sig sem "kvára" þann daginn og sitja heima, ef aðeins til að vekja athygli á geðveiki  hugmyndafræðinnar sem eitrað hefur allar stofnanir íslensks þjóðfélags og er árás á sannleikann og samfélagið sjálft. 

Höfundur er fjölmiðlafræðingur

One Comment on “Hvaða réttindi vantar okkur? Uhhh…”

  1. Hvað gerist svo þegar atvinnurekandinn þarf að hækka launin hjá konum ?
    Lækkar hann þá ekki bara laun útlendingana, og dregur að hækka laun karlanna næstu 10 árin ?

Skildu eftir skilaboð