Blaðamenn á flótta undan fréttinni

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll Vilhjálmsson3 Comments

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Tvö áru eru síðan að lögregla boðaði fjóra blaðamenn til skýrslutöku vegna rannsóknar á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Fjórmenningarnir eru Þóra Arnórsdóttir á RÚV, Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson, báðir á Kjarnanum, og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni. Blaðamenn elta fréttir, það er þeirra lifibrauð. En RSK-blaðamenn flýja fréttina, bæði bókstaflega og í óeiginlegum skilningi.

Blaðamennirnir neituðu að mæta í skýrslutöku, sögðu rannsókn lögreglu ólögmæta. Fyrir hönd sökunauta kærði Aðalsteinn til dómstóla. Kæra Aðalsteins fór fyrir öll dómsstig landsins; héraðsdóm, landsrétt og hæstarétt. Úrskurður hæstaréttar féll 25. mars 2024; blaðamönnum var gert að mæta. Engin undanþága er í lögum að blaðamenn skulu undanskildir við rannsókn sakamála.

Í stað þess að mæta lögðu blaðamenn á flótta. Einn eða fleiri blaðamannanna fjögurra var ekki á landinu tímabilið apríl til ágúst. Gögnin sem lögregla lagði fram til dómstóla vegna málareksturs Aðalsteins eru ástæða flótta blaðamanna undan réttvísinni. í gögnunum eru stórfréttir sem ekki mátti segja. Um er að ræða greinargerð dagsetta 23. febrúar 2022 lögð fyrir héraðsdóm annars vegar og hins vegar málsgögn lögð fyrir landsrétt. Gögnin í landsrétti voru ekki til dreifingar, en var lekið til blaðamanna. Þar fengu blaðamenn forskot, vissu meira en aðrir um sakamálarannsóknina. Og lögðu á flótta undan fréttinni.

Greinargerð lögreglu frá 23. febrúar er opinber, liggur fyrir á netinu. Þar má lesa vísbendingar um hvað olli blaðamönnum slíku hugarangri að þeir höfðu með sér skipulag að vera ekki allir á landinu á sama tíma frá apríl til ágúst fyrir tveim árum. Í greinargerðinni kemur fram játning þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra að hafa byrlað bónda sínum ólyfjan 3. maí 2021, stolið síma hans og fært blaðamönnum til afritunar. Konan játar jafnframt að hafa verið í samskiptum við að minnsta kosti tvo blaðamenn, en nafngreinir hvorugan.

Í greinargerðinni útskýrir lögreglan, óbeint að vísu, en þó skýrt og greinilega, að hún viti með stafrænum gögnum hvernig og hverjir stóðu að afrituninni. Vitneskjan kemur fram í eftirfarandi setningu:

...sum smáforrit sem menn hafa í símum sínum eru með staðsetningarbúnað þannig að hægt er að sjá hvar viðkomandi hefur verið eða hvar síminn hefur verið á hverjum tíma. (feitletr. pv)

Blaðamennirnir fjórir máttu vita frá febrúar 2022 að rannsókn lögreglu var gagnadrifinn, byggði ekki alfarið á vitnisburði. Lögreglan leit svo á að rannsóknin spilltist ekki þótt dráttur yrði á skýrslutöku og sá í gegnum fingur sér langt sumarleyfi blaðamanna frá réttvísinni um mitt ár 2022.

Um síðir mættu blaðamenn í skýrslutöku lögreglu, síðsumars 2022. Eftir að hafa legið yfir gögnum frá lögreglu í hálft ár skyldi ætla að blaðmenn hefðu gert upp við sig að gera hreint fyrir sínu dyrum. Upplýsa málavöxtu, segja fréttina. En það var öðru nær. Þeir neita enn að upplýsa aðkomu sína. Blaðamennirnir sem skrifuðu fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans, Þórður Snær, Arnar Þór og Aðalsteinn, segja trúnaðarmál hvernig fréttaöflun fór fram. Ennfremur ríkir trúnaður um skipulagið; fréttirnar birtust samtímis í tveim óskyldum miðlum, Kjarnanum og Stundinni, að morgni dags 21. maí 2021. Trúnaðurinn er yfirvarp. Lögreglan veit hver sá um byrlun og stuld. Trúlega veit lögreglan einnig sitthvað um verkskiptingu blaðamanna.

Auðvitað vita blaðamenn það best sjálfir hvernig málið er vaxið. En þeir þegja fréttina og krefja aðra blaðamenn um þögn. Bloggari er nánast einn um að segja tíðindin og halda almenningi upplýstum. Í gildi er óopinbert verkfall blaðamanna og fjölmiðla í byrlunar- og símastuldsmálinu. RSK-blaðamenn viðhalda verkfallinu á bakvið tjöldin. Samsæri sakborninga gegn sannleikanum og upplýstri umræðu fær stuðning frá Blaðamannafélagi Íslands. Þar á bæ heitir það að fréttir eru aðeins það sem blaðamenn ákveða að séu fréttir. Punktur.

Enn hefur ekki verið ákært í byrlunar og símastuldsmálinu. Um áramótin 2022/2023 komst rannsókn lögreglu á annað og alvarlegra stig. Þannig varð fimmti blaðamaðurinn, Ingi Freyr Vilhjálmsson, á Stundinni sakborningur í mars í fyrra, ,,vegna afritunar" síma skipstjórans, segir í Mbl.frétt er byggir á málsskjölum héraðssaksóknara í öðru máli. Fram að þeim tíma var áherslan á atburðarásina eftir byrlun. Fyrir hálfu öðru ári styrktist grunur að blaðamenn, einn eða fleiri, hefðu verið í samskiptum við þáverandi eiginkonu skipstjórans fyrir byrlunina 3. maí 2021. Upplýst var að Þóra Arnórsdóttir á RÚV keypti í apríl 2021 Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, sem var til reiðu á Efstaleiti þegar konan mætti þangað 4. maí með stolinn síma skipstjórans.

Eins og tilfallandi lesendur vita var bloggari nýlega dæmdur fyrir meiðyrði í garð Aðalsteins Kjartanssonar blaðamanns á Stundinni, nú Heimildinni. Tvenn ummæli, sem Aðalsteinn krafðist ómerkingar á, voru ekki dæmd dauð og ómerk. Tilfallandi hefur áður skrifað um önnur ummælin sem héraðsdómur taldi innan marka málfrelsis. Seinni ummælin varða það sem hér á undan er sagt, að byrlun og stuldur var skipulagður verknaður sem ber að líta á sem eina heild, enda þannig rannsakaður. Ummælin eru úr bloggi 27. febrúar í fyrra, Ný gögn í byrlunarmáli Páls skipstjóra:

Ef einhver þessara samskipta eru til á texta, t.d. í tölvupóstum, er líklegt að sú sönnun haldi fyrir dómi. Annars er um að ræða kringumstæðurök fyrir aðild blaðamanna að skipulagningu tilræðisins auk vitnisburðar. Kringumstæðurökin eru sterk, tölvupóstur gerir málið naglfast.

Það eru einmitt þessi gögn sem lögreglan er á höttunum á eftir og eru enn ekki komin í hús. Konan sem byrlaði notaði gmail tölvupóst. Tölvupóstum frá apríl og maí 2021 hefur verið eytt. Ummerki, s.s. skilaboðin ,,You Got Mail" má aftur lesa í sms-skeytum sem fóru á milli málsaðila. Afrit af tölvupóstunum er að finna í gagnaveri Google, sem rekur gmail-kerfið. Strangar reglur gilda um afhendingu afrita af tölvupóstum, m.a. vegna persónuverndar. Fulltrú lögreglunnar fór til Írlands, höfuðstöðva Google í Evrópu, í vetur og lagði fram tilskilin skilríki um að tölvupóstarnir snertu sakamálarannsókn á byrlun og þjófnaði. Málið er í vinnslu hjá tæknirisanum sem fer sér í engu óðslega.

Vönduð rannsókn krefst tíma. Kurlin í byrlunar- og símastuldsmálinu eru ekki öll komin til grafar. Fréttin er ósögð en blaðamenn þegja; eru í sömu stöðu og læknar sem ekki lækna.

3 Comments on “Blaðamenn á flótta undan fréttinni”

  1. Ekki þreyttist varðhundur Samherja á að dreifa athyglinni frá glæpum Samherja. Ef vafasömum aðferðum var beitt til að ná í gögnin þá er það náttúrulega ekki gott en breytir engu um glæpi Samherja eða þöggunartilburði þeirra sem greinarhöfundur tekur virkan þátt í. Hann er nú ekki að hafa fyrir því að ræða slíkt enda borgar Samherji honum ekki fyrir heiðarlega blaðamennsku.

  2. Það er alltaf jafn magnað að lesa hvað þú ert takmarkaður Einar Viðarsson!

    Þér finnst bara allt í lagi að hálf drepa einstakling til að ná fram hugsanlegum gögnum í öðru máli, þvílíkur óþverri sem þú ert!

    Vil þúþá ekki koma með hanbær gögn sem sanna að Páll Vilhjálmsson er að vinna fyrir samherja, þú hlýtur að hafa þau undir höndum?

Skildu eftir skilaboð