Dagur: kæri Stebbi og tuddinn á skólalóðinni

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll Vilhjálmsson, Pistlar1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Í viðtengdri frétt segir af lítilsvirtri fréttakonu á RÚV. María Sigrún fréttamaður fékk þá umsögn frá yfirmanni að hún væri skjáfríð en kynni ekki ,,rannsóknafréttamennsku" eins og það heitir á Efstaleiti. Hugtakið nær einnig til byrlunar og stuldar, samkvæmt viðurkenndu verklagi ríkisfjölmiðilsins. Fréttir án rannsóknar eru trúlega réttu megin við lögin. En þær má ekki segja.

María Sigrún vann frétt sem kom við kaunin á Degi fyrrum borgarstjóra og vinstrimeirihlutanum í ráðhúsinu við Tjörnina. Stefán útvarpsstjóri hefur ekki tjáð sig um meðferðina sem María Sigrún sætir. Áður en Stefán varð útvarpsstóri fyrir fjórum árum var hann staðgengill Dags borgarstjóra, bar titilinn borgarritari.

Dagur gaf Stefáni bestu meðmæli fyrir fjórum árum enda kærleikar miklir millum þeirra félaga. ,,Til hamingju Rúv og gangi þér allt að sólu, kæri Stebbi!," skrifaði Dagur. Nú endurgeldur kæri Stebbi fyrrum yfirmanni sínum greiðann með þegjandi stuðningi við millistjórnendur RÚV sem úthúða Maríu Sigrúnu er vogaði sér að afhjúpa spillingu í ráðhúsinu.

Tilvitnunin hér að ofan er tekin úr umfjöllun Kjarnans fyrir fjórum árum. Þar segir að fulltrúar minnihlutans í Reykjavík, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir, guldu varhug við að Stefán yrði útvarpsstjóri. Þær stöllur höfðu staðið Stefán að undirferli, hann baktalaði kjörna fulltrúa er höfðu gert aðfinnslur við stjórnsýsluna í ráðhúsinu.

Stefán líkti kjörnum borgarfulltrúum við ,,tudda á skólalóðinni" vegna gagnrýni þeirra á embættismenn og kallaði eftir að siðanefnd tæki á málinu. Sem útvarpsstjóri lagði Stefán niður siðanefnd sem úrskurðaði ekki rétt að hans mati - með úrskurði yfir Helga Seljan.

Fjögur ár eru langur tími í lífi embættismanns. Stefán stjórnar í dag Glæpaleiti þar tveir fyrrum undirmenn hans eru sakborningar í  sakamálarannsókn lögreglu á byrlunar- og símastuldsmálinu. Sjálfur getur útvarpsstjóri átt von á að vera kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu sem vitni í málinu.

Fyrir fjórum árum kallað útvarpsstjóri kjörna fulltrúa tudda á skólalóð fyrir gagnrýni á stjórnsýslu. Hvaða orðfæri hefur hann um undirmenn sína sem eiga aðild, beina eða óbeina, að alvarlegum afbrotum, byrlun og þjófnaði? Og hvaða orð hefur útvarpsstjóri um millistjórnendur RÚV er opinberlega lítilsvirða fréttakonu? Tuddi á skólalóð er háttvísin uppmáluð í samanburði við einstaklinga sem Stefán útvarpsstjóri heldur yfir verndarhendi.

One Comment on “Dagur: kæri Stebbi og tuddinn á skólalóðinni”

  1. Þessi maður var gerður að Lögreglustjóra ,Borgarritara og síðan að Útvarpsstjóra RÚV hvaða sporslu fær hann næst ??? Óhæfur allstaðar. og við borgum brúsann.

Skildu eftir skilaboð