Karl Bretaprins fór mikinn á einkaþoturáðstefnunni í Glasgow, sem sumir vilja kalla loftslagsráðstefnu. Karl sagði að tíminn væri bókstaflega runninn út og „við“ verðum að draga úr losun á CO2 hið snarasta og „við“ verðum að vinna saman til að bjarga jörðinni og unga fólkinu. Þessi ræða hljómar kunnuglega en árið 1993 talaði hann um hnattræna hlýnun í Sádí-Arabíu og sagði að ef „okkur“ tækist ekki að vinna bug á þessari þróun myndi það hafa gríðarleg áhrif á börnin og barnabörnin um allan heim. Þó hann sé ekki umhverfisvænn í verki þá endurvinnur hann að minnsta kosti ræðurnar sínar á 28 ára fresti.
Karl og eiginkona hans hafa yfir 90x stærra kolefnisspor en hinn venjulegi borgari og losa um 430 tonn af CO2 á hverju ári, mestmegnis vegna einkaþotu þeirra og þyrlu. Árin 2015-2020 áttu þau metið í fjölda opinberra heimsókna hjá konungsfjölskyldunni eða 25 ferðir (um 193.000 km). Persónulegar ferðir eins og frí o.fl. eru ekki í þessari tölu.
Þegar Karl talar um loftslagsvitund og að ríki heims þurfi að herða ólina á almenningi enn frekar ætti hann fyrst að líta í spegil og hugsa sinn gang ef honum er svona annt um loftslagið. Ef Guð lofar nær Karl 100 ára aldri eftir önnur 28 ár. Sótsvartur almenningur getur því beðið spenntur eftir næstu endurvinnslu á þeim bænum en þangað til þarf hann að lifa með harðari aðgerðum sem byggjast á blekkingum og spilltri peningapólitík. Elítan mun halda áfram að fljúga um á einkaþotum og predika um hamfarahlýnun og embættismenn og opinberir starfsmenn taka þátt í fylleríinu á kostnað skattgreiðenda.