Geir Ágústsson skrifar:
Nýlega létust þrír snjóhlébarðar í dýragarði í Bandaríkjunum. Þeir létust
úr COVID-19 og voru öllum á staðnum mikill harmdauði. Óvíst er um hvort
dýrin hafi verið bólusett eða ekki að sögn New York Times.
Dýr geta smitast af COVID-19, þar á meðan hundar og kettir, og er nú verið
að rannsaka hvort sömu dýr geti smitað menn. Villt dýr geta einnig smitast.
Veiran hefur því hýsil í þessum dýrum og vegna vensla SARS-CoV-2 við
SARS-CoV, sem sannarlega getur smitast frá dýrum í menn, eru ýmsir uggandi.
Bandaríska sóttvarnarstofnunin CDC ráðleggur sýktum að forðast dýr. Sama
stofnun telur fyrri afbrigði kórónaveirunnar upp á lista yfir sjúkdóma sem geta borist á milli manna og dýra.
Í Víetnam var hundum sýkts einstaklings fargað af yfirvöldum af ótta við
smitútbreiðslu vegna þeirra. Í Danmörku var, eins og frægt er, öllum minkum
landsins fargað af sömu ástæðu fyrir um ári síðan.
Margir sjúkdómar sem herja á menn geta ekki þrifist í dýrum. Má þar á meðal
nefna bólusóttina. Slíkum sjúkdómum má útrýma með aðgerðum sem beinast að
manneskjum, svo sem bólusetningum og meðferðarúrræðum. Veirur sem geta
fundið sér samastað í dýrum verður ekki útrýmt nema með því að farga slíkum
dýrum, bólusetja þau með skilvirkum hætti eða forðast þau. Hins vegar má í
sumum tilvikum verja mannfólk gegn veirum úr dýrum með ýmsum hætti, svo sem
bólusetningu eins og í tilviki hundaæðis.
Hvað sem því líður er ljóst að SARS-CoV-2 verður ekki útrýmt frekar en
öðrum kórónaveirum sem geta fundið sér samastað í dýrum, villtum og tömdum.
Lokanir, takmarkanir og grímur eru því tilgangslausar æfingar á meðan
meðferðir og forvarnir eru lítið þróaðar og óskilvirkar.